Hoppa yfir valmynd

NÁNAR UM ADS-B

ADS-B er skammstöfun sem stendur fyrir "Automatic Dependent Surveillance – Broadcast" sem útleggst sem:

  • "Automatic" - Sjálfvirkt: Er alltaf í gangi og virkar óháð flugmanni.
  • "Dependent " - Háð: Er háð því að flugvélin sendir út staðsetningar sem byggjast aftur á kerfi gervihnatta.
  • "Surveillance" - Kögun: Býður upp á eftirlit svipað radar.
  • "Broadcast " - Útvörpun: Kerfið útvarpar stöðugum staðsetningarupplýsingum sem aðrar flugvélar eða flugstjórn getur tekið við.

ADS-B kerfi Isavia samanstendur af fjórum grunneiningum:

  1. Flugvél með ADS-B búnaði sem sendir út frá sér staðsetningarupplýsingar sem eru oftast byggðar á GPS gögnum.
  2. Jarðstöð sem tekur við gögnum, vinnur með þau og sendir áfram.
  3. Samskiptaneti sem tryggir öruggar boðleiðir frá jarðstöð til flugstjórnar.
  4. Hugbúnaður í flugstjórnarmiðstöð sem tekur við ADS-B upplýsingum frá jarðstöð og birtir á skjá flugumferðarstjóra.

ADS-B virkar í grundvallaratriðum eins og sjálfvirka tilkynningakerfið í íslenska fiskiskipaflotanum, en um ADS-B tilkynna flugvélarnar flugstjórn hvar þær eru. Gagnafjarskiptin fara fram um ratsjársvara flugvélanna á 1090 MHz tíðni og nefnist aðferðin "Extended Squitter". Í stað þess að ratsjá mælir frá jörðu fjarlægð og horn til flugvélar og reiknar þannig út staðsetningu hennar er staðsetning sem flugleiðsögukerfi flugvélarinnar gefur send til jarðar um ratsjársvarann.

Nákvæmni staðsetningar sem fengin er úr staðsetningarkerfi flugvélarinnar er meiri en hefðbundinnar ratsjárstaðsetningar. Auk staðsetningarupplýsinga í lengd og breidd eru send einkenni flugvélarinnar, hæð, hraði og stefna. Í ADS-B kerfinu sendir ratsjársvarinn í hverri flugvél út staðsetningarupplýsingar tvisvar sinnum á sekúndu.

Í stað svarratsjár með stóru loftneti og tilheyrandi aðstöðu kemur nú aðeins lítil móttökustöð, sem nemur útsendingar frá ratsjársvörum flugvélum. Umfang búnaðarins á jörðu niðri er sambærilegt við hefðbundinn VHF fjarskiptabúnað, einungis ein eining sem hýst er á loftnetsmastri og stangarloftneti. Þessum búnaði er því auðveldlega komið fyrir í smáhýsum sem reist hafa verið á fjallatoppum til að hýsa ýmsan fjarskiptabúnað. Gróflega áætlað er uppsetningarkostnaður við hefðbundna ADS-B móttökustöð 5% - 15% af kostnaði ratsjárstöðvar.

Helstu kostir ADS-B kögunarþjónustu eru:

  1. Fyrir Isavia: Jarðbúnaður er töluvert ódýrari en ratsjáruppsetning. ADS-B kögun er einnig nákvæmari. Þetta gerir Isavia kleift að veita flugvélum betri þjónustu á lægra verði.
  2. Fyrir flugvélar: Hægt er að bjóða upp á minni aðskilnað flugvéla og betri nýtingu flughæða í stórum hluta íslenska flugstjórnarsvæðisins. Þetta styttir flugtíma og lækkar kostnað flugfélaga.
  3. Fyrir samfélagið: Kögunarþjónusta minnkar aðskilnað flugvéla og þar af leiðir styttir flugtíma. Með styttri flugtíma minnkar eldsneytiseyðsla sem leiðir af sér minni útblástur.