Hoppa yfir valmynd

Framkvæmdastjórn Isavia

SVEINBJÖRN INDRIÐASON, FORSTJÓRI

Sveinbjörn Indriðason er hagfræðingur frá Háskóla Íslands 1998. Hann starfaði hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og vann við áhættustýringu hjá Icelandair frá 1999 til 2005. Sveinbjörn var framkvæmdastjóri fjármálasviðs FL Group frá 2005 til 2008 og rekstrar- og fjármálastjóri nýsköpunarfyrirtækisins Clara frá árinu 2011. Sveinbjörn var framkvæmdastjóri fjármálasviðs Isavia frá árinu 2013 þar til í júní 2019 þegar hann var ráðinn forstjóri Isavia.

ANNA BJÖRK BJARNADÓTTIR

Anna Björk Bjarnadóttir er íþróttafræðingur frá Íþróttaháskólanum í Osló (NIH) og Hungarian University of Physical Education (HUPE) og með framhaldsnám í leiðtoga- og markaðsfræðum á vegum TDC, DIEU/Mannaz og Wharton Business School.
2018 til 2020 var hún framkvæmdastjóri ráðgjafar og sérlausna hjá Advania. Á árunum 2013 til 2018 var hún stjórnunarráðgjafi og framkvæmdastjóri Expectus. Áður starfaði hún í átta ár hjá Símanum, þar af í fimm ár sem framkvæmdastjóri einstaklingssviðs og svo tæknisviðs. Hún stýrði þjónustusviði TDC Norway A/S frá 2001 til 2004.
Anna Björk var ráðin sem framkvæmdastjóri þjónustu og rekstrar Isavia árið 2020.

BJARNI ÖRN KÆRNESTED

Bjarni Örn Kærnested er með B.Sc., gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og MBA frá Waseda háskólanum í Japan. Bjarni hefur starfað sem forstöðumaður á upplýsingatæknisviði hjá Össuri frá árinu 2019 þar sem hann hefur borið ábyrgð á fjármálum og rekstri upplýsingatæknisviðsins og alþjóðlegri verkefnastofu fyrirtækisins. Áður starfaði hann sem forstöðumaður miðlægra lausna hjá Origo og á upplýsingatæknisviði Arion banka þar sem hann tók m.a. þátt í að móta og þróa stafræna vegferð bankans. Bjarni tók við sem framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni árið 2022.

ELÍSABET SVERRISDÓTTIR

Elísabet Sverrisdóttir er með B.A. gráðu í Bókmenntum frá Háskóla Íslands, MS gráðu í Mannauðsstjórnun frá sama skóla og APME í Verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Frá 2006 til 2017 starfaði hún við mannauðsráðgjöf og ráðningar hjá ráðgjafarfyrirtækinu Hagvangi.
Elísabet var ráðin sem mannauðsráðgjafi til Isavia 2017, var mannauðsstjóri félagsins frá árinu 2019 og árið 2021 tók hún við sem aðstoðarmaður forstjóra.

GUÐMUNDUR DAÐI RÚNARSSON

Guðmundur Daði Rúnarsson er rekstrarverkfræðingur frá Danmarks Tekniske Universitet 2010. Á árunum 2007 til 2011 starfaði Daði sem verkefnastjóri á upplýsinga- og tæknisviði Iceland Express. Hann var ráðinn deildarstjóri rekstrardeildar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2011, síðar aðstoðarframkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkissonar og við skipulagsbreytinguna 2016 framkvæmdastjóri tækni og eignasviðs Keflavíkurflugvallar. Árið 2020 tók hann við sem framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar.

INGIBJÖRG ARNARSDÓTTIR

Ingibjörg Arnarsdóttir er með Cand. Oecon. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á endurskoðun og meistaragráðu í fjármálum frá Cass Business School/City University í London. Á árunum 2016-2020 starfaði Ingibjörg sem framkvæmdastjóri fjármála-, mannauðs- og verkefnastjórnar hjá Reiknistofu bankanna og á árunum 2008-2016 sem framkvæmdastjóri fjármála og manauðs. Síðan sem framkvæmdastjóri stjórnunar- og mannauðs hjá Valitor. Árið 2020 tók hún við starfi framkvæmdastjóra fjármála og mannauðs.