Hoppa yfir valmynd

STARFSSVIÐ - SKIPURIT

FYRIRKOMULAG SAMSKIPTA HLUTHAFA OG STJÓRNAR

Íslenska ríkið, á alla hluti félagsins og fer fjármála- og efnahagsráðherra með hluthafavaldið. Boðun á hluthafafund er send til tengiliðs í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Hluthafafundir eru meginvettvangur fyrir upplýsingagjöf til hluthafa sem fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Önnur samskipti við hluthafa um málefni félagsins eru oftast að frumkvæði félagsins og hafa stjórnarformaður og forstjóri átt fundi með ráðherra eða fulltrúa hans. Stjórnin fylgir „Almennri eigandastefnu ríkisins: Hlutafélög og sameignarfélög“ í störfum sínum. Félagið sendir út fréttatilkynningar sem upplýsa um afkomu félagsins og um önnur atriði í rekstrinum.

SKIPURIT


FORSTJÓRI

Forstjóri félagsins hefur með höndum stjórn allrar daglegrar starfsemi skv. stefnu og fyrirmælum stjórnar. Daglegur rekstur nær ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar. Hann hefur ákvörðunarvald um öll rekstrar- og fjárhagsleg málefni félagsins og hefur umsjón með eignum þess. Forstjóri gerir stjórn grein fyrir starfsemi félagsins og afkomu á stjórnarfundum og ber ábyrgð gagnvart stjórn á daglegum rekstri og að í öllu sé farið eftir samþykktum félagsins, lögum og reglum.

FRAMKVÆMDARÁÐ

Rekstur félagsins grundvallast á fimm rekstrarsviðum sem annast kjarnastarfsemi félagsins: Flugleiðsögusvið, flugvallasvið, rekstrarsvið Keflavíkurflugvallar, tækni- og eignasvið Keflavíkurflugvallar og viðskiptasvið Keflavíkurflugvallar. Stoðsvið Isavia eru þrjú talsins: Þróun og stjórnun, mannauður og árangur og fjármálasvið. Einnig er staðla- og gæðadeild sérstök stoðeining. Framkvæmdaráð fjallar um og ákvarðar málefni sem varða starfsemi félagsins í heild auk afgreiðslu mála sem skarast á milli sviða og deilda. Ennfremur ber framkvæmdaráð ábyrgð á framþróun og innleiðingu öryggis- og gæðastjórnunarkerfis. Yfirmenn rekstrar- og stoðeininga mynda framkvæmdaráð félagsins ásamt forstjóra.

FLUGLEIÐSÖGUSVIÐ

Flugleiðsögusvið hefur með höndum flugleiðsöguþjónustu í innanlandsflugi og alþjóðaflugi yfir stóru svæði á Norður-Atlantshafi.

FLUGVALLASVIÐ

Flugvallasvið annast rekstur og viðhald allra flugvalla landsins utan Keflavíkurflugvallar.

REKSTRARSVIÐ KEFLAVÍKURFLUGVALLAR

Rekstrarsvið Keflavíkurflugvallar annast flugvernd, flugvallaþjónustu og tækniþjónustu flugvallarins.

TÆKNI- OG EIGNASVIÐ KEFLAVÍKURFLUGVALLAR 

Tækni- og eignasvið hefur umsjón með stærri verklegum framkvæmdum, umhverfismálum á Keflavíkurflugvelli, viðhaldi og rekstri fasteigna og farangurskerfis.

VIÐSKIPTASVIÐ KEFLAVÍKURFLUGVALLAR 

Viðskiptasvið sér um farþegaþjónustu, rekstur verslunar- og veitingasvæðis og annast alla samningagerð við rekstraraðila á Keflavíkurflugvelli auk reksturs bílastæðaþjónustu og þróunar nýrra flugleiða.

ÞRÓUN OG STJÓRNUN 

Þróun og stjórnun er stoðsvið sem er forstjóra og stjórn til aðstoðar. Starfsmenn hafa með höndum markaðs- og upplýsingamál, viðskiptaþróun, verkefnastofu, stefnumörkun, lögfræðileg málefni, skipulagsmál Keflavíkurflugvallar, umsjón með stjórnarháttum og samræmingu flugvalla og flugverndar.

MANNAUÐUR OG ÁRANGUR 

Mannauður og árangur er stoðsvið sem annast mannauðsmál, starfsþróun, þjálfun og fræðslu, launavinnslu og kjarasamninga, innri samskiptamál, stefnuinnleiðingu og árangursmælingar.

FJÁRMÁLASVIР

Fjármálasvið er stoðsvið sem hefur með höndum reikningshald, fjárstýringu, áhættustýringu, hagdeild, fjármögnun og eftirlit með innkaupum.

STAÐLA- OG GÆÐADEILD 

Staðla- og gæðadeild er stoðdeild sem annast skipulag og samhæfingu öryggis- og gæðamála ásamt umsjón með umhverfismálum.