
FYRIRKOMULAG SAMSKIPTA HLUTHAFA OG STJÓRNAR
Íslenska ríkið, á alla hluti félagsins og fer fjármála- og efnahagsráðherra með hluthafavaldið. Hluthafafundir eru meginvettvangur fyrir formlega upplýsingagjöf til hluthafa sem fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Önnur samskipti við hluthafa um málefni félagsins eru oft að frumkvæði félagsins og hafa stjórnarformaður og forstjóri átt fundi með ráðherra eða starfsmönnum fjármálaráðuneytisins. Stjórn og forstjóri Isavia fylgja „Almennri eigandastefnu ríkisins: Hlutafélög og sameignarfélög“ í störfum sínum. Félagið sendir út fréttatilkynningar sem upplýsa um afkomu félagsins og um önnur atriði í rekstrinum.
SKIPURIT
FORSTJÓRI
Forstjóri félagsins hefur með höndum stjórn allrar daglegrar starfsemi skv. stefnu og fyrirmælum stjórnar. Daglegur rekstur nær ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar. Hann hefur ákvörðunarvald um öll rekstrar- og fjárhagsleg málefni félagsins og hefur umsjón með eignum þess. Forstjóri gerir stjórn grein fyrir starfsemi félagsins og afkomu á stjórnarfundum og ber ábyrgð gagnvart stjórn á daglegum rekstri og að í öllu sé farið eftir samþykktum félagsins, lögum og reglum.
FRAMKVÆMDASTJÓRN MÓÐURFÉLAGS
Rekstur móðurfélags Isavia grundvallast á tveimur kjarnasviðum Keflavíkurflugvallar og tveimur stoðsviðum ásamt skrifstofu forstjóra. Stoðsvið Isavia eru tvö talsins: Fjármál og mannauður og Stafræn þróun og upplýsingatækni. Þau vinna einnig náið með dótturfélögum Isavia. Kjarnasviðin eru tvö: Viðskipti og þróun og Þjónusta og rekstur.
Yfirmenn kjarna- og stoðeininga mynda framkvæmdastjórn félagsins ásamt forstjóra.
VIÐSKIPTI OG ÞRÓUN
Viðskipti og þróun annast samskipti við flugfélög og leiðarþróun, viðskipta og markaðsmál, rekstur og uppbyggingu innviða og mannvirkja ásamt flugvallarþróun og uppbyggingu flugvallarins.
ÞJÓNUSTA OG REKSTUR
Þjónusta og rekstur annast öryggisstjórnun, flugvernd, þjónustu við farþega, flugvallarþjónustu og sér um rekstur flugturnsins.
FJÁRMÁL OG MANNAUÐUR
Fjármál og mannauður hefur með höndum mannauðsmál, reikningshald, fjárstýringu, áhættustýringu, hagdeild, fjármögnun, lögfræðileg málefni og innkaup.
STAFRÆN ÞRÓUN OG UPPLÝSINGATÆKNI
Starfræn þróun og upplýsingatækni hefur með höndum upplýsingatæknirekstur félagsins og leiðir stafræna þróun.