Hoppa yfir valmynd

Stjórnarhættir

Isavia ohf. er opinbert hlutafélag sem annast rekstur, viðhald og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar. Dótturfélög þess annast rekstur áætlunarflugvalla í innanlandsflugi og lendingarstaða á Íslandi, fríhafnarverslana og flugleiðsöguþjónustu í innanlandsflugi og alþjóðaflugi yfir norðanverðu Norður-Atlantshafi á 5,4 milljón ferkílómetra svæði. Félagið tryggir flugöryggi og flugvernd í samræmi við viðurkenndar alþjóðlegar öryggiskröfur og aðferðir og þjóðréttarlegar skuldbindingar undir eftirliti og með starfsleyfi Samgöngustofu.

Starfsemi félagsins var undir Flugmálastjórn Íslands og Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar til ársins 2006 þegar flugleiðsöguþjónusta og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands var skilinn frá stjórnsýslu- og eftirlitsstarfsemi stofnunarinnar. Tók nýstofnað opinbert hlutafélag, Flugstoðir, við ofangreindum rekstrarþáttum sem lutu faglegri yfirstjórn Samgönguráðuneytis sem jafnframt var kaupandi að þjónustu félagsins við stjórnvöld. Við brotthvarf varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli árið 2006 var Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar falinn allur rekstur flugvallarins en Flugstöð Leifs Eiríkssonar ohf. annaðist rekstur flugstöðvarinnar sem fyrr. Reksturinn laut umsjón utanríkisráðuneytisins þar til í ársbyrjun 2008 er hún færðist til samgönguráðuneytisins.

Opinbera hlutafélagið Keflavíkurflugvöllur var stofnað árið 2008 til þess að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu flugvallarins og flugstöðvarinnar ásamt þjónustu við flugrekendur og hagnýtingu flugvallarins í þágu öryggis- og varnarmála. Félagið tók til starfa 1. janúar 2009 og fór samgönguráðherra með hlutinn fyrir hönd ríkisins til ársloka 2009 þegar ábyrgð á hlut ríkisins í opinberum hlutafélögum færðist til fjármálaráðherra.

Þann 1. maí 2010 sameinuðust opinberu hlutafélögin Flugstoðir og Keflavíkurflugvöllur í eitt félag sem hlaut nafnið Isavia ohf. Með sameiningunni var lagður grunnur að nýrri starfsemi og þjónustu á sviði flugs og viðskipta. Fjármála- og efnahagsráðherra fer með hlut ríkisins í félaginu en samgönguráðherra hefur faglegt eftirlit með starfseminni.

STJÓRNARHÆTTIR

Stjórnarhættir félagsins taka mið af lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, almennri eigendastefnu ríkisins frá ágúst 2012, samþykktum félagsins og starfsreglum.

Stjórn félagsins hefur „Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja“ til hliðsjónar í störfum sínum og uppfyllir þær í öllum meginatriðum þrátt fyrir að félaginu beri ekki að fylgja leiðbeiningunum lögum samkvæmt. Undirnefndir stjórnar eru endurskoðunarnefnd og starfskjaranefnd. Stefna hefur verið sett um samfélagslega ábyrgð.

STJÓRN

Stjórn Isavia er skipuð fimm aðalmönnum og fimm varamönnum sem kjörnir eru á hluthafafundi til eins árs í senn. Stjórnarmenn eru tilnefndir af fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd eigandans, íslenska ríkisins.

STÖRF OG STARFSREGLUR STJÓRNAR

Stjórnin hefur sett sér ítarlegar starfsreglur þar sem helstu verkefni og valdsvið stjórnar og forstjóra eru skilgreind. Starfsreglur eru endurskoðaðar og samþykktar á hverju ári. Þar er m.a. að finna skiptingu starfa innan stjórnar, reglur um hæfi stjórnarmanna til þátttöku í afgreiðslu mála, um fundarsköp og fundargerðir, reglur um þagnarskyldu, upplýsingagjöf gagnvart stjórn og ákvörðunarvald stjórnar.

Stjórnin hefur æðsta vald í málefnum félagsins á milli hluthafafunda samkvæmt lögum og samþykktum félagsins. Meginhlutverk stjórnar er að stýra félaginu milli hluthafafunda og tryggja að nægilegt eftirlit sé haft með reikningshaldi og meðferð fjármuna félagsins auk þess að staðfesta rekstrar- og fjárfestingaáætlanir og sjá til þess að þeim sé fylgt. Stjórn tekur meiriháttar ákvarðanir í rekstri félagsins og sér um að félagið sé rekið í samræmi við lög og reglur sem félaginu ber að fylgja. Þá hefur starf stjórnar það að markmiði að stuðla að viðgangi félagsins og tryggja árangur þess til langs tíma litið með því að setja félaginu stefnu í samstarfi við stjórnendur þess.

ÁRANGURSMAT

Stjórn metur störf sín með reglubundnum hætti, verklag og starfshætti, framgang félagsins, frammistöðu forstjóra svo og skilvirkni undirnefnda séu þær starfandi. Slíkt árangursmat felur m.a. í sér að stjórnin leggi mat á styrkleika og veikleika í störfum sínum og verklagi og hugi að þeim hlutum sem hún telur að betur megi fara. Árangursmat stjórnar fór fram í mars 2020.

INNRA EFTIRLIT OG ÁHÆTTUSTÝRING

Stjórn hefur sett fram heildstæða áhættustefnu félagsins og skilgreint helstu áhættuþætti í rekstri. Helstu áhættur sem fylgja fjármálum samstæðunnar eru, gengisáhætta, vaxtaáhætta og verðtryggingaráhætta. Sérstök áhættunefnd er starfandi og hefur hún umboð stjórnar til að ákvarða m.a. umfang og eðli mats á áhættu og arðsemisgreininga fyrir framkvæmdir og verkefni sem haft geta marktæk áhrif á rekstur og efnahag.

Áhættunefnd sem í sitja forstjóri, aðstoðarforstjóri, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, og sérfræðingar í áhættustýringu af fjármálasviði, er með reglubundna skýrslugjöf um áhættur félagsins til stjórnar. Félagið gerði samning í lok árs 2019 við PwC um innri endurskoðun hjá félaginu. Innri endurskoðun leggur mat á og bætir virkni Stjórnarháttayfirlýsing Isavia ohf. áhættustýringar, eftirlitsaðferða og stjórnarhátta með kerfisbundnum og öguðum vinnubrögðum og styður þannig félagsið við að ná markmiðum sínum. Innri endurskoðun starfar sjálfstætt og tekur ekki ákvarðanir sem tengjast daglegri starfsemi félagsins og er ráðin af stjórn.