Efnahagur

Efnahagur Isavia hefur styrkst umtalsvert á síðustu árum samhliða auknum umsvifum félagsins í tenglsum við uppbyggingu ferðaþjónustunnar og efnahagslífsins á Íslandi.

AUKIN UMSVIF

Aukin umsvif og sterkari efnahagur er mikilvæg forsenda þess að félagið geti staðið undir aukinni skuldsetningu sem fylgir nauðsynlegri uppbyggingu sem fram undan er. Ráðist hefur verið í umfangsmiklar og fjárfrekar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli undanfarin ár til þess að bregðast við mikilli umferðaraukningu.

Árin 2013–2016 var fjárfest fyrir um 28,4 milljarða króna í mannvirkjagerð og endurbótum og áætlanir félagsins gera ráð fyrir tuga milljarða fjárfestingum á komandi árum. Hlutfall innlendra birgja er 87% og erlendr13% en ekki er skráð hverjir hafa aðsetur utan Evrópska efnahagssvæðisins.

STÓRIÐJA Í STÖÐUGUM VEXTI

Vel hefur tekist til hjá Isavia, stjórnvöldum, flugfélögum og öðrum hagsmunaaðilum að kynna Keflavíkurflugvöll sem áfangastað, sérstaklega utan háannatíma. Keflavíkurflugvöllur er stærsta gátt ferðamanna inn í landið og er einn mikilvægasti einstaki þátturinn í innviðum ferðaþjónustunnar. Mikilvægt er að vandað verði til verka við þau stækkunaráform á Keflavíkurflugvelli sem nauðsynleg eru til að flugvöllurinn geti staðið undir vaxandi farþegafjölda á komandi árum.

Uppbygging flugvallarins hefur alla burði til að vera arðbær, bæði þegar horft er til reksturs flugvallarins sjálfs og fyrir þjóðarbúið allt. Þó er mikilvægt að huga að þensluáhrifum framkvæmda og gæta þess að uppbyggingin haldist í hendur við skynsamlegar áætlanir um fjölgun farþega og tækifæri þar að lútandi. Einnig er mikilvægt að aðrir innviðir vaxi í takt við stækkun flugstöðvarinnar, s.s. löggæsla, heilsugæsla, eftirlitsstofnanir og vegakerfið.

ÁHRIF Á ATVINNULÍF

Íslendingar eru mikil flugþjóð í samanburði við önnur Evrópulönd samkvæmt nýlegri rannsókn Alþjóðasamtaka flugvalla (ACI). Bein störf á flugvöllum miðað við höfðatölu eru einungis fleiri í Lúxemborg. Beinum störfum hjá fyrirtækjum sem starfa á Keflavíkurflugvelli hefur fjölgað hratt samhliða auknum ferðamannafjölda. Fjöldi beinna starfa voru ríflega 5.600 árið 2016. Þar af urðu til ríflega 1.300 ný störf á árinu. 

Miðað við mögulega þróun farþegafjölda er áætlað að árlega skapist 476 ný störf á flugvellinum. Störfin dreifast á mörg fyrirtæki sem hafa starfsemi á flugvellinum en um 40% tengjast íslenskum flugfélögum (flugmenn, flugliðar o.s.frv.). Önnur störf eru í margvíslegri þjónustu á flugvellinum. Nokkur fyrirtæki á flugvellinum hafa þurft að leita til útlanda eftir starfsfólki og ljóst er að flugvöllurinn mun í auknum mæli draga að sér vinnuafl af höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi. Er því mjög mikilvægt að efla samgöngur að svæðinu. Í lok árs 2016 voru um 3% af heildarfjölda starfa á Íslandi tengd starfsemi á Keflavíkurflugvelli.

Nánari upplýsingar um efnahag Isavia má nálgast hér