Hoppa yfir valmynd

Efnahagur

Efnahagur Isavia hefur styrkst umtalsvert á síðustu árum samhliða auknum umsvifum félagsins í tenglsum við uppbyggingu ferðaþjónustunnar og efnahagslífsins á Íslandi.

Efnahagur félagsins hefur styrkst umtalsvert á allra síðustu árum samhliða auknum umsvifum sem eru mikilvæg forsenda þess að félagið geti staðið undir aukinni skuldsetningu sem fylgir nauðsynlegri uppbyggingu sem framundan er.

Ráðist hefur verið í umfangsmiklar og fjárfrekar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli undanfarin ár til þess að bregðast við mikilli umferðaraukningu

Árin 2013-2016 var fjárfest fyrir um 28,4 milljarða króna í mannvirkjagerð og endurbótum og áætlanir félagsins gera ráð fyrir tuga milljarða fjárfestingum á komandi árum.

STÓRIÐJA Í STÖÐUGUM VEXTI

Vel hefur tekist til hjá Isavia, stjórnvöldum, flugfélögum og öðrum hagsmunaaðilum að kynna Keflavíkurflugvöll sem áfangastað, sérstaklega utan háannatíma. Farþegafjöldi utan háannar hefur vaxið hlutfallslega miklu hraðar en á háönn. Ákvörðun íslensku flugfélaganna um að bæta breiðþotum við flota sinn hefur haft umtalsverð áhrif á rekstur flugvallarins. Ráðast varð í stækkun og breytingar, m.a. á farangursflokkunarkerfi sem og flæði farþega en óhætt er að segja að vel hafi tekist til þótt naumur tími hafi gefist til framkvæmda.

Keflavíkurflugvöllur er stærsta gátt ferðamanna inn í landið og er einn mikilvægasti einstaki þátturinn í innviðum ferðaþjónustunnar. Mikilvægt er að vandað verði til verka við þau stækkunaráform á Keflavíkurflugvelli sem nauðsynleg eru til að flugvöllurinn geti staðið undir vaxandi farþegafjölda á komandi árum.

Uppbygging flugvallarins hefur alla burði til að vera arðbær, bæði þegar horft er til reksturs flugvallarins sjálfs og fyrir þjóðarbúið allt.  Þó er mikilvægt að huga að þensluáhrifum framkvæmda og gæta þess að uppbyggingin haldist í hendur við skynsamlegar áætlanir um vöxt í farþegafjölda og tækifæri þar að lútandi.

Einnig er mikilvægt er að aðrir innviðir vaxi í takt við stækkun flugstöðvarinnar s.s. löggæsla, heilsugæsla, eftirlitsstofnanir og vegakerfið.

Ísland er mikil flugþjóð í samanburði við önnur Evrópulönd samkvæmt nýlegri rannsókn Alþjóðasamtaka flugvalla (ACI). Fjöldi beinna starfa á flugvöllum miðað við höfðatölu eru einungis fleiri í Lúxemborg.

Beinum störfum hjá fyrirtækjum sem starfa á Keflavíkurflugvelli hefur fjölgað hratt samhliða auknum ferðamannafjölda. Fjöldi beinna starfa voru ríflega 5.600 árið 2016. Þar af urðu til ríflega 1.300 ný störf á árinu.

Miðað við mögulega þróun farþegafjölda er áætlað að árlega skapist 476 ný störf á flugvellinum. Störfin dreifast á mörg fyrirtæki sem hafa starfsemi á flugvellinum en um 40%  tengjast íslenskum flugfélögum (flugmenn, flugliðar o.s.frv.).Önnur störf eru í margvíslegri þjónustu á flugvellinum. Nokkur fyrirtæki á flugvellinum hafa þurft að leita til útlanda eftir starfsfólki og ljóst er að flugvöllurinn mun í auknum mæli draga að sér vinnuafl af höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi. Er því mjög mikilvægt að efla samgöngur að svæðinu. Í lok árs 2016 voru um 3% af heildarfjölda starfandi fólks á Íslandi tengt starfsemi á Keflavíkurflugvelli.

UMSVIF STARFSEMINNAR

Tveir þættir hafa mest áhrif á umsvif Isavia, annars vegar fjöldi flughreyfinga og hins vegar fjöldi farþega.

Í heildina hafa umsvif starfseminnar aukist frá fyrra ári. Á innanlandsflugvöllum jókst fjöldi farþega um 3%, á Keflavíkurflugvelli jókst fjöldi farþega um 28% og umferð í Íslenska flugstjórnarsvæðinu um 12% á árinu 2017.

FLUGVALLASVIÐ

Þrjú flugfélög halda uppi áætlunarflugi innanlands, Air Iceland Connect, Flugfélagið Ernir og Norland Air. Önnur flugfélög sem nýta þjónustu Isavia að staðaldri eru Mýflug, Atlantsflug og Norðurflug. Fyrirtækin Vesturflug/Blue West og Helo reka þyrluþjónustu á flugvöllum félagsins.

FLUGLEIÐSÖGUSVIÐ

Stærstu viðskiptavinir flugleiðsöguþjónustu Isavia eru Icelandair, WOW Air, United Airlines, Emirates, Delta, SAS, Lufthansa, British Airways, Air Canada og Qatar. Þessi flugfélög fljúga flesta kílómetra innan íslenska flugstjórnarsvæðisins. Íslensku félögin eru stærstu notendur flugleiðsöguþjónustu á Keflavíkurflugvelli.

KEFLAVÍKURFLUGVÖLLUR

Notendum Keflavíkurflugvallar fjölgar stöðugt. Sumarið 2017 flugu 27 flugfélög þaðan til yfir 90 áfangastaða. Félög sem fljúga árið um kring til og frá landinu eru: Icelandair, WOW air, easyJet, Wizz Air, British Airways, Norwegian, SAS, Air Iceland Connect, Delta, Lufthansa, Finnair og Primera.

Fjölmargir farþegar nýta sér Keflavíkurflugvöll sem tengiflugvöll og bæði WOW air og Icelandair nýta flugvöllinn þannig á leið milli Evrópu og Norður Ameríku. Lágmarkstengitími farþega á Keflavíkurflugvelli eru 25 mínútur.

Isavia hefur með aðstoð hvatakerfis orðið allvel ágengt við að fá flugfélög til þess að fljúga til landsins að vetrinum.  Félagið hefur einnig markaðssett afgreiðslutíma utan mestu álagstíma á hverjum sólarhringi með það að markmiðið að nýta betur aðstöðuna á flugvellinum.  Mjög mikil aukning varð í notkun á þessum afgreiðslutímum á árinu 2017.

SIÐAREGLUR BIRGJA

Isavia er aðili að alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna (UN Global Compact) og skuldbindur félagið sig til að stefna og starfshættir séu í samræmi við tíu meginþætti Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, vinnumál, umhverfismál og aðgerðir gegn spillingu. 

 Isavia hefur sett siðareglur fyrir birgja í samræmi við meginþættina tíu.   Gerð er sú krafa að birgjar sem félagið skiptir við uppfylli siðareglurnar og sjái til þess að þeirra birgjar geri slíkt hið sama. Birgi skal, sé þess óskað,  geta staðfest að þessum siðareglum sé fylgt.

 Með „birgi“ er átt við fyrirtæki eða einstakling sem sér Isavia fyrir vörum eða þjónustu. Isavia gerir eftirfarandi kröfur til birgja:

VINNUMÁL

FÉLAGAFRELSI OG RÉTTUR TIL KJARASAMNINGA

Virði og viðurkenni rétt starfsfólks til félagafrelsis og gerð kjarasamninga. Sé réttur til félagafrelsis og/eða gerð kjarasamninga takmarkaður samkvæmt lögum í viðkomandi landi skulu birgjar heimila starfsfólki að kjósa sér fulltrúa til að verja rétt þeirra á vinnustað.

NAUÐUNGARVINNA

Ábyrgist að starfsfólk framkvæmi vinnu sína án nauðungar og að því sé frjálst að segja upp vinnu sinni og hætta með hæfilegum eða lögbundnum fyrirvara.

BARNAVINNA

Ráði ekki börn undir lögaldri til að framkvæma vinnu sem er hættuleg eða skaðleg heilsu þeirra og öryggi. Réttur barna til þroska, velferðar og menntunar skal virtur. Birgjar skulu að lágmarki fylgja reglum um lágmarksaldur til starfa samkvæmt skilyrðum Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (ILO).

MISMUNUN

Sjái til þess að starfsmenn fái jöfn tækifæri og njóti jafnréttis án mismununar vegna kyns, kynþáttar, trúarbragða, aldurs, fötlunar, kynhneigðar, þjóðernis, skoðana, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti. Birgjar skulu skapa starfsumhverfi sem einkennist af jafnrétti, umburðarlyndi og gagnkvæmri virðingu.

LAUN, VINNUTÍMI OG ÖNNUR VINNUSKILYRÐI

Greiði starfsfólki sínu regluleg laun (að lágmarki mánaðarlega) og að greiðslur, eða hluti þeirra, verði ekki eftir hjá milliliðum. Greidd skulu a.m.k. lágmarkslaun eins og gerð er krafa um í lögum, reglum og/eða kjarasamningum í viðkomandi landi. Birgjar skulu halda bókhald um launagreiðslur og geta sýnt fram á að svo sé sannarlega gert. Þeir skulu virða lög og reglur um réttindi starfsfólks t.d. til hvíldar, lengd vinnutíma, orlofs, veikindaréttar og annarra launakjara.

HEILSA OG ÖRYGGI

Sjái til þess að vinnuumhverfi starfsfólks sé heilsusamlegt og öruggt.  Birgjar fari eftir lögum og reglum viðkomandi lands um aðbúnað á vinnustað og sjái starfsfólki sínu fyrir viðeigandi búnaði og þjálfun í öryggis- og vinnuverndarmálum. Þeir geri allt sem í þeirra valdi stendur til að minnka slysahættu og neikvæð áhrif á heilsu starfsfólks.

MANNRÉTTINDI

Virði alþjóðleg mannréttindi. Birgjar skapi og viðhaldi umhverfi þar sem komið er fram við starfsfólk af virðingu, þar sem hvers kyns andlegt og/eða líkamlegt ofbeldi eða hótanir um slíkt líðast ekki.

UMHVERFISMÁL

Isavia gerir þær kröfur að birgjar þekki umhverfisáhrif starfsemi sinnar og leitist við að draga úr þeim með markvissum hætti.

GEGN SPILLINGU

SIÐFERÐI Í VIÐSKIPTUM

Vinni ávallt gegn spillingu, þar með talið mútum, kúgun og fjársvikum. Þeir bjóði ekki eða biðji um, krefjist, veiti eða þiggi mútur með beinum eða óbeinum hætti, fyrir sjálfa sig eða aðra. Birgjar starfi í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og viðhafi  viðurkennt siðferði í viðskiptum sínum.

HAGSMUNAÁREKSTRAR

Forðist hvers konar hagsmunaárekstra í viðskiptum sínum við félagið. Með hagsmunaárekstrum er t.d. átt við að fulltrúi birgja, skyldmenni hans eða vinir hafi eða geti haft persónulega hagsmuni af þeim viðskiptum sem um ræðir. Birgi tilkynni Isavia án undantekninga um mögulega hagsmunaárekstra.

Nánari upplýsingar um efnahag Isavia má nálgast hér