Hoppa yfir valmynd

Efnahagur

Isavia er fyrirtæki sem gegnir mikilvægu hlutverki bæði í efnahagslegu og samfélagslegu samhengi.

Flugvellir Isavia, og þá sér í lagi Keflavíkurflugvöllur, skapa verðmæti fyrir bæði íslenska hagkerfið og það alþjóðlega enda eru beinar flugtengingar gríðarlega mikilvægar. Eftir því sem fleiri beinar tengingar eru í flugi frá Íslandi til helstu borga í heiminum því auðveldara verður fyrir íslensk fyrirtæki og einstaklinga að stunda viðskipti, flytja út vörur og leita sér þekkingar á erlendri grundu. Auk þess sem þær auka áhuga erlendra fyrirtækja á því að hefja starfsemi á Íslandi. Það hefur verið gerð greining í Evrópu sem bendir til þess að fjölgun í flugtengingum upp á 10% skilar 0,5% hagvexti.

Flugvellir eru mikilvægar viðskiptamiðstöðvar og stuðla beint og óbeint að efnahagslegu og samfélagslegu virði til þeirra samfélaga sem starfsemi þeirra snertir. Í grennd við flugvelli njóta fyrirtæki og virðiskeðjur þeirra góðs af nálægðinni og stuðla beint og óbeint að jákvæðri efnahagslegri þróun fyrir þau svæði.

Tveir þættir hafa mest áhrif á umsvif Isavia, annars vegar fjöldi flughreyfinga og hins vegar fjöldi farþega. Tekjur Isavia á Keflavíkurflugvelli koma fyrst og fremst frá flugfélögum sem fljúga á flugvöllinn, leigutekjum af veitinga- og verslanarýmum auk annarra tekna af leigu á aðstöðu. 

MIKILVÆGI KEFLAVÍKURFLUGVALLAR

Síðastliðin ár hefur tekist vel til hjá Isavia, stjórnvöldum, flugfélögum og öðrum hagsmunaaðilum að kynna Keflavíkurflugvöll sem áfangastað, sérstaklega utan háannatíma. Farþegafjöldi utan háannar hefur vaxið hlutfallslega miklu hraðar en á háönn.

Keflavíkurflugvöllur er stærsta gátt ferðamanna inn í landið og er einn mikilvægasti einstaki þátturinn í innviðum ferðaþjónustunnar. Mikilvægt er að vandað verði til verka við þau stækkunaráform á Keflavíkurflugvelli sem nauðsynleg eru til að flugvöllurinn geti staðið undir vaxandi farþegafjölda á komandi árum.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli var vígð og tekin í notkun í apríl 1987. Hún var þá ríflega 20 þúsund fermetrar að stærð. Nú er hún 73 þúsund fermetrar og því 3,5 sinnum stærri en við opnun. Á sama tíma hefur fjöldi farþega um flugvöllinn þrettánfaldast. 

Fjölmargir farþegar nýta sér Keflavíkurflugvöll sem tengiflugvöll á leið milli Evrópu og Norður Ameríku. Lágmarkstengitími farþega á Keflavíkurflugvelli eru 25 mínútur.

Isavia hefur með aðstoð hvatakerfis orðið allvel ágengt við að fá flugfélög til þess að fljúga til landsins að vetrinum.  Félagið hefur einnig markaðssett afgreiðslutíma utan mestu álagstíma á hverjum sólarhringi með það að markmiðið að nýta betur aðstöðuna á flugvellinum.

SIÐAREGLUR BIRGJA

Isavia er aðili að Global Compact alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna  og skuldbindur félagið sig til að stefna og starfshættir séu í samræmi við tíu meginþætti Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, vinnumál, umhverfismál og aðgerðir gegn spillingu. 

Isavia hefur sett siðareglur fyrir birgja í samræmi við meginþættina tíu.   Gerð er sú krafa að birgjar sem félagið skiptir við uppfylli siðareglurnar og sjái til þess að þeirra birgjar geri slíkt hið sama. Birgi skal, sé þess óskað,  geta staðfest að þessum siðareglum sé fylgt.