Hoppa yfir valmynd

Markmið

MARKMIÐ

Isavia hefur sett átta markmið í samfélagslegri ábyrgð fyrir árið 2018 og gert aðgerðaráætlanir fyrir hvert og eitt.  Við val á markmiðum og úrbótaverkefnum var horft sérstaklega til eðlis starfsemi fyrirtækisins og stefnu og hvað brýnast væri að vinna að.

 Fyrir utan að horfa til GRI þáttanna við val á markmiðum fyrir árið 2018, voru þau tengd við skuldbindingu félagsins við meginreglur UN Global Compact,  við hvatningaverkefnið „Ábyrg ferðaþjónusta“, sem  Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð og Íslenski ferðaklasinn stóðu að, heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og stefnu félagsins.  Air Transport Action Group (ATAG), sem eru samtök innan fluggeirans með það að markmiði að stuðla að sjálfbærum vexti, gaf út skýrslu árið 2017 þar sem þeir tengdu heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna við hugmyndir að úrbótaverkefnum fyrir fyrirtæki í flugtengdri starfsemi.  Tók félagið einnig mið af skýrslugerð ATAG við mótun markmiðanna en þau tengjast fimm af heimsmarkmiðunum sautján. 


HEIMSMARKMIÐ 3: HEILSA OG VELLÍÐAN

Félagið hefur sett sér markmið um að fækka slysum í á starfsmönnum sem leiða til fjarveru.  Markmiðið tengist heimsmarkmiði 3 óbeint og þá helst markmiði 3.6 sem gerir ráð fyrir að „helminga fjölda dauðsfalla og slysa vegna umferðarslysa“ fyrir árið 2020.  Í skýrslu Air Transport Action Group (ATAG) var þetta heimsmarkmið tengt síþjálfun í öryggisvitund í samhengi við fluggeirann og notar Isavia það viðmið.

HEIMSMARKMIÐ 5: JAFNRÉTTI KYNJANNA

Isavia hefur annars vegar sett sér markmið um sömu laun fyrir jafn verðmæt störf og hins vegar að fjölga kvenkyns stjórnendum í þriðja stjórnendaþrepi fyrirtækisins, þ.e. millistjórnendum.  Aðgerðir Isavia tengjast heimsmarkmiði 5.1 þar sem gert er ráð fyrir að „útrýma allri mismunun gagnvart konum og stúlkum alls staðar“ og einnig markmiði 5.5 þar sem gert er ráð fyrir að „tryggja fulla og skilvirka þátttöku kvenna og jöfn tækifæri til forystu á öllum stigum ákvarðanatöku í pólitík, efnahagslegu- og opinberu lífi“.  Unnið verður sérstaklega með undirmælikvarðann 5.5.2 sem mælir hlutfall kvenna í stjórnendastöðum, en í gögnum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa safnað frá 67 löndum kemur fram að minna en þriðjungur af stjórnunarstörfum eru í höndum kvenna.  

HEIMSMARKMIÐ 12: ÁBYRG NEYSLA

Isavia hefur sett sér það markmið að auka hlutfall flokkaðs úrgangs í starfseminni. Þetta tengist heimsmarkmið 12 um ábyrga neyslu og þá sérstaklega markmiði 12.6 sem tilgreinir að dregið verði „verulega úr úrgangi með forvörnum, minnkun, endurvinnslu og endurnotkun“ fyrir árið 2030.

Félagið hefur einnig sett sér markmið um að gera innkaup félagsins sýnilegri, rekjanlegri og aðgengilegri og innleiða í tengslum við það siðareglur birgja sem voru samþykktar af yfirstjórn á síðasta ári.  Þetta tengist markmiði 12.6 hjá Sameinuðu þjóðunum sem m.a. „hvetur fyrirtæki til að samþykkja sjálfbæra starfshætti“ og 12.7 sem gerir ráð fyrir að „stuðla að opinberum innkaupum sem eru sjálfbær, í samræmi við innlendar stefnur og forgangsröðun“.  

HEIMSMARKMIÐ 13: VERNDUN JARÐARINNAR

Félagið hefur sett sér það markmið að minnka notkun jarðefnaeldsneytis. Það tengist markmiði 13.2 undir heimsmarkmiði 13, að „samtvinna mælikvarða á loftslagsbreytingar inn í stefnumótun og áætlanagerð“.  Þá er Isavia þátttakandi í svonefndu Airport Carbon Accreditation kerfi á vegum Alþjóðasamtaka flugvalla. ACA er kolefnisvottun, hönnuð af flugvöllum fyrir flugvelli, og því sérsniðið að rekstri þeirra. Keflavíkurflugvöllur hefur verið þátttakandi í verkefninu í tvö ár. Sett hafa verið markmið til ársins 2030 um minnkun kolefnislosunar og unnið að ítarlegri aðgerðaráætlun til að styðja við það markmið.  

HEIMSMARKMIÐ 17: SAMVINNA UM HEIMSMARKMIÐIN

Aðgerðir Isavia tengdar samvinnu snúa að því að efla enn frekar samvinnu við hagaðila félagsins með markvissum og samræmdum samskiptum.  Það tengist markmiði 17.17 hjá Sameinuðu þjóðunum sem gerir m.a. ráð fyrir að félagið “hvetji til og efli skilvirkt samstarf almennings, opinberra- og einkaaðila“.