Hoppa yfir valmynd

Hagaðilar

HAGAÐILAR

Isavia leggur áherslu á víðtækt samráð við þá hagaðila sem treysta á þjónustu félagsins og verða fyrir áhrifum af starfsemi þess.  Starfseminnar gætir um allt land og snertir alla landsmenn.  Félagið hefur skráð á annað hundrað hagaðila sem flokkast í viðskiptavini, starfsfólk, samfélag, stjórnvöld og birgja. 


VIÐSKIPTAVINIR

Helstu viðskiptavinir félagsins eru flugrekendur  sem nýta flugvelli og flugstjórnarsvæði, rekstraraðilar á flugvöllum, svo sem flugþjónustuaðilar, verslanir, veitingaaðilar, bílaleigur og hópflutningafyrirtæki, og síðast en ekki síst flugfarþegar.

Samskipti við notendur og rekstraraðila fara fyrst og fremst fram á reglulegum fundum. Samskipti við farþega eiga sér stað með beinum samskiptum starfsfólks félagsins á flugvöllunum og með öllum helstu samskiptaleiðum ásamt reglubundnum þjónustukönnunum.


STARFSFÓLK

Samskipti við og milli starfsfólks fara auk hefðbundinna leiða á vinnustað fyrst og fremst fram á reglubundnum starfsmannafundum forstjóra, innri vef félagsins og viðburðum á vegum starfsmannafélagsins. 

Stór hluti samskipta við starfsmenn fara fram á innri vef félagsins, Flugunni. Vefurinn er samfélagsmiðill sem tengir starfsmenn saman og geta allir sett inn færslur, myndir og myndbönd sem þeir vilja deila með samstarfsfólkinu. Starfsfólk getur einnig sótt þangað ýmis tæki og tól til notkunar við störf sín og haldið utan um skráningar á viðburði, námskeið og skemmtanir á vegum fyrirtækisins.


SAMFÉLAGIÐ

Umtalsverð samskipti eru við sveitarfélög og landshlutasamtök í nágrenni við flugvelli félagsins. Nauðsynlegt er að upplýsingagjöf til sveitarfélaga sé með fullnægjandi hætti þar sem starfsemi félagsins getur haft mikil áhrif á nærumhverfið. Sérstaklega á það við á Suðurnesjunum þar sem Keflavíkurflugvöllur er stærsti vinnustaðurinn. Það er mikið hagsmunamál að samskipti við sveitarfélögin séu góð og mikilvægt að mótuð sé framtíðarsýn fyrir þessi gríðarlegu mikilvægu samgöngumannvirki á hverjum stað.

Isavia á einnig víðtækt samstarf við aðila í ferðaþjónustunni eins og Samtök ferðaþjónustunnar (SAF), Ferðamálastofu, Íslandsstofu, Stjórnstöð ferðamála auk þess sem félagið er aðili að Íslenska ferðaklasanum. Þá heldur Isavia reglulega opna fundi til þess að miðla upplýsingum til almennings og aðila innan ferðaþjónustunnar um áform félagsins á Keflavíkurflugvelli s.s. framkvæmdir og umferðarspár innan ferðaþjónustunnar. 


STJÓRNVÖLD

Samskipti við stjórnvöld eru af margvíslegum toga. Ríkið er eigandi félagsins og fylgir það almennri eigandastefnu þess í rekstrinum. Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með hlutabréfið og fara formleg samskipti fram á hluthafafundum og árlegum aðalfundi. Samgöngu- og sveitastjórnaráðuneytið gegnir tvíþættu hlutverki í tengslum við starfsemi Isavia. Annars vegar sem fagráðuneyti flugmála og hins vegar sem viðskiptaaðili félagsins vegna reksturs innanlandsflugvallakerfisins og annarra þátta sem eru á ábyrgð stjórnvalda.

Isavia annast líka framkvæmd tveggja alþjóðasamninga um flugleiðsöguþjónustu. Annars vegar er það svonefndur „Joint Finance“-samningur sem fjallar um flugleiðsöguþjónustu innan íslenska flugupplýsingasvæðisins (Reykjavik FIR). Samningurinn er við 24 önnur ríki og er Alþjóðaflugmálastofnunin (ICAO) umsjónaraðili með honum. Hins vegar eru það samningar við dönsk stjórnvöld vegna flugleiðsöguþjónustu á hluta flugupplýsingasvæðis Grænlands

 Isavia hefur mikil samskipti við ríkisstofnanir vegna hinna margþættu verkefna félagsins. Mest er sambandið við Samgöngustofu sem gefur út starfsleyfi flugvalla og flugleiðsögu og annast viðeigandi eftirlit með framkvæmd og rekstri.  Isavia er einnig undir eftirliti og í samstarfi við erlenda aðila. Af þeim má helst telja Flugöryggisstofnum Evrópu, (EASA) sem m.a. tryggja samræmdar öryggiskröfur í flugi á Evrópusvæðinu og Alþjóðaflugmálastofnunina (ICAO) sem er undirstofnun Sameinuðu þjóðanna og setur alþjóðlega staðla fyrir alla helstu þætti almenningsflugs og fylgist með frammistöðu ríkja og þjónustuveitenda.


BIRGJAR

Þar sem Isavia er í eigu íslenska ríkisins fellur félagið undir lög um opinber innkaup en helstu innkaupum félagsins má skipta í verk-, þjónustu- og vörukaup. Árið 2017 urðu þær breytingar að Isavia varð kleift að nýta ákvæði reglugerðar nr. 340/2017 um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu. Sérstök áhersla hefur verið lögð á rafræn samskipti með það að markmiði að viðhalda og bæta rekjanleika við framkvæmd innkaupa.

Isavia hefur sett siðareglur fyrir birgja í samræmi við meginþætti UN Global Compact.  Í reglunum er gerð sú krafa að birgjar sem félagið skiptir við uppfylli siðareglurnar og sjái til þess að þeirra birgjar geri slíkt hið sama. Birgi skal, sé þess óskað,  geta staðfest að þessum siðareglum sé fylgt.