Hoppa yfir valmynd

SAMFÉLAGIÐ

Umtalsverð samskipti eru við sveitarfélög og landshlutasamtök í nágrenni við flugvelli félagsins og má þar nefna sveitarfélögin á Suðurnesjum, Reykjavíkurborg, Akureyrarbæ, Ísafjörð, Fljótsdalshérað, Þórshöfn, Vopnafjörð, Húsavík og Vestmannaeyjabæ.

Nauðsynlegt er að upplýsingagjöf til sveitarfélaga sé með fullnægjandi hætti þar sem starfsemi félagsins getur haft mikil áhrif á nærumhverfið. Sérstaklega á það við á Suðurnesjunum þar sem Keflavíkurflugvöllur er stærsti vinnustaðurinn. Samskiptin hafa farið fram á fundum með bæjar- og sveitarstjórnarmönnum, auk annarra hagsmunaaðila. Einnig er náið samráð við markaðsstofur svæðanna á Norður- og Austurlandi þar sem t.d. er unnið að markaðssetningu á beinu flugi til Akureyrar og Egilsstaða í tengslum við Flugþróunarsjóð.

Isavia á einnig víðtækt samstarf við aðila í ferðaþjónustunni eins og Samtök ferðaþjónustunnar (SAF), Ferðamálastofu, Íslandsstofu, Stjórnstöð ferðamála auk þess sem félagið er aðili að Íslenska ferðaklasanum. Isavia er einnig virkur aðili í hafnar- og flutningahópi Íslenska sjávarklasans en það er samstarfsvettvangur fyrirtækja sem flest eru beintengd flutningum og hafnarstarfsemi.

Isavia hefur verið einn af bakhjörlum samráðsvettvangsins Arctic Circle frá upphafi og starfsmenn taka virkan þátt í umræðum um málefni norðurslóða, hvort heldur sem er í tengslum við flugumferð á norðurslóðum eða í tengslum við hugmyndir um uppbyggingu björgunarmiðstöðvar á Íslandi.

Þá heldur Isavia reglulega opna fundi til þess að miðla upplýsingum til almennings og aðila innan ferðaþjónustunnar um áform félagsins á Keflavíkurflugvelli s.s. framkvæmdir og umferðarspár innan ferðaþjónustunnar. Starfsfólk Isavia hefur einnig haldið erindi á fjölda opinna funda sem haldnir hafa verið á vegum annarra aðila.

Á sviði flugleiðsöguþjónustu á Isavia í nánu samstarfi við þjónustuaðila og aðliggjandi flugstjórnarmiðstöðvar. Félagið er þátttakandi í Borealis sem er samstarfsvettvangur níu flugleiðsöguþjónustuaðila í Norður-Evrópu.