Hoppa yfir valmynd

MANNAUÐUR ISAVIA

MANNAUÐUR 

Hjá móðurfélagi Isavia starfar fjölbreyttur hópur starfsmanna á hinum ýmsu starfsstöðvum um allt land. Í lok árs 2017 voru 1.202 starfsmenn í starfi, þar af voru konur þriðjungur starfsmanna félagsins. Meðalaldur starfsmanna er 40,6 ár og meðalstarfsaldur starfsmanna er 7,32 ár.

Starfsmannaveltan var 11,28% á árinu. Starfsmannaveltan er misjöfn eftir störfum og sviðum. Starfsmannahópurinn fer ört stækkandi og voru 504 starfsmenn ráðnir árinu, þar af 300 starfsmenn voru ráðnir í sumarstörf.

FRÆÐSLA

Fræðsla, endurmenntun og reglubundin þjálfun er hluti af daglegur störfum starfsmanna. Skipulögð þjálfun og fræðsla fer fram allt árið. Félagið stendur fyrir umfangsmiklu og metnaðarfullu fræðslustarfi með það að markmiði að byggja upp þekkingu og færni starfsmanna sé í samræmi við stefnu og gildi félagsins. Fræðslustarfinu er skipt upp í tvo flokka, sérhæfða og almenna fræðslu.

Fræðslustundir námu 24.225 klukkustundir árið 2017 og jafngildir því að allir starfsmenn félagsins hafi hlotið 20 klukkustundir í þjálfun á árinu. Um 90% af fræðslustundum ársins er vegna grunnþjálfunar, endurmenntunar, starfs- og síþjálfunar sem starfsmenn þurfa á að viðhalda réttindum og hæfni til að sinna störfum sínum, þetta eru starfsmenn flugleiðsögu, flugverndar og flugvallarþjónustu.

VINNUMARKAÐURINN

Isavia starfar á almennum vinnumarkaði og fylgir almennum kjarasamningum sem Samtök atvinnulífsins hafa gert fyrir hönd félagsins við fjölmörg stéttarfélög. Sérstakir kjarasamningar eru við Landssamband slökkviliðsmanna (LSS), Félag flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR), Stéttarfélag í almenningaþjónustu (SFR) og Félag íslenskra flugumferðastjóra (FÍF).

Félagið fylgir lögum og reglum um vinnuvernd, mannréttindi og barnaþrælkun. Félagið ræður ekki starfsmenn undir 18 ára aldri og greiðir öll opinbergjöld, engin svört vinna er í boði hjá félaginu.

Uppsagnarfrestur starfsmanna er samkvæmt viðeigandi kjarasamningum en ólíkur eftir starfs- og lífaldri. Uppsagnarfrestur er gagnkvæmur og eru allar uppsagnir skriflegar.

FÉLAGSLEGT UMHVERFI

Í siðareglum félagsins kemur fram að við berum virðingum fyrir störfum hvers annars og við  mismunum ekki hvert öðru eða viðskiptavinum okkar vegna kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis, fötlunar, aldurs eða stöðu að öðru leyti.

Á árinu 2017 bárust 4 formlegar tilkynningar um brot á jafnrétti, einelti eða áreitni. Unnið var úr þeim skv. áætlunum félagsins og fengust úrlausnir í öllum málunum.

JAFNRÉTTI 

Isavia hlaut gullmerki jafnlaunaúttektar PWC árið 2017 og hefur hlotið gullmerkið þrjú ár í röð. Úttektin staðfestir að launajafnrétti er hjá Isavia og munur innan við 3,5% á milli kynja. Isavia hefur lagt ríka áherslu á jöfn laun kvenna og sú áhersla hefur skilað árangri.

JAFNLAUNAVOTTUN

Isavia vinnur nú að innleiðingu á jafnlaunastaðlinum. Markmið með innleiðingu jafnlaunakerfisins skv. jafnlaunastaðlinum (ÍST:85 2012) er að viðhalda launajafnrétti og uppfylla skyldur atvinnurekenda skv. III kafla laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Áætlað er að fyrirtækið verði tilbúið til innri úttektar um mitt sumar og vottun fáist á haustmánuðum 2018.

HEILSA OG VINNUUMHVERFI

Lögð er áhersla á að efla vitund starfsmanna um mikilvægi þess að lifa heilbrigðu lífi og sýna með þeim hætti fram á, að félaginu er annt um heilsu og öryggi starfsmanna sinna. Markmið félagsins er að stuðla að aukinni andlegri og líkamlegri vellíðan starfsfólks, að búa starfsmönnum gott vinnuumhverfi og að mæta andlegum, félagslegum og líkamlegum þörfum starfsmanna á vinnustaðnum. Félagið styrkir starfsmenn sína fjárhagslega til að stunda sína líkamsrækt.

Starfsmenn geta leitað til þjónustuvers Vinnuverndar og fengið ráðleggingar vegna eigin veikinda eða fjölskyldumeðlima, einnig eru hjúkrunarfræðingar Vinnuverndar reglulega til viðtals á stærstu starfsstöðvum félagsins.

VINNUVERND

Mikil áhersla er lögð á öryggi starfsmanna á vinnustað. Ef slys verður er það skráð sérstaklega og sér vinnuverndarfulltrúi Isavia um að greina slysið og leggur til úrbætur á aðbúnaði eða verklagi til að koma í veg fyrir að slys endurtaki sig. Slys eru skráð rafrænt og einnig var sérstakt átak gert í að gera starfsmenn meðvitaðri um „næstum slys“ með sérstökum hnapp á  innri vef félagsins og plakötum var komið fyrir í hverju horni. Öryggisnefnd sem í sitja fulltrúar starfsmanna og fyrirtækisins fjallar um öll mál sem tengjast vinnuvernd starfsmanna.

Áhættumat hefur verið gert á vinnuaðstæðum. Isavia vann áhættumat í samstarfi við utanaðkomandi ráðgjafa vegna nýrra starfsstöðva í þjónustuhúsnæði á Keflavíkurflugvelli og í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Tilkynningum um vinnuslys hefur fjölgað milli ára samhliða auknum umsvifum og fjölgun starfsmanna. Á síðasta ári voru 62 vinnuslys tilkynnt.

STARFSLOK

Starfslok starfsmanna miðast við lok þess mánaðar sem 70 ára lífaldri er náð, en félagsmenn Félags íslenskra flugumferðarstjóra ljúka störfum við 63 ára aldur. Félagið býður upp á starfslokanámskeið sem ætlað þeim sem nálgast starfslokaaldur og er mökum boðið með á námskeiðið. Á námskeiðinu er farið yfir gagnlegar upplýsingar og fjallað um þessi tímamót á starfsævinni. Árið 2017 sóttu 11 starfsmenn slíkt námskeið.