Hoppa yfir valmynd

ENDURVINNSLA

Sorpflokkun Isavia er mismunandi eftir starfsstöðvum. Algengast er að um fjögurra flokka flokkun sé að ræða, pappír, skilagjaldsskyldar umbúðir, plast og almennt sorp. Þó eru nokkrar starfsstöðvar sem eru komnar lengra á veg og flokka einnig lífrænan úrgang. Spilliefni eru flokkuð sér á öllum starfsstöðvum, lögum samkvæmt. Á síðustu árum hefur verið mikil aukning í magni úrgangs og þá aukningu má rekja beint til aukins farþegafjölda. Hluti af loftslagsmarkmiðum Isavia  er að minnka magn óflokkaðs úrgangs í starfseminni.

GRÆN SKREF

Isavia er þátttakandi í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri. Verkefnið snýst meðal annars um að gera starfsemi umhverfisvænni, auka vellíðan starfsmanna og bæta starfsumhverfi þeirra, draga úr rekstrarkostnaði og innleiða áherslur í umhverfismálum sem hafa verið samþykktar.

Starfsstöð Flugfjarskipta í Gufunesi er fyrsta starfsstöð Isavia til að ljúka innleiðingu á fimmta og loka Græna skrefinu með ISO14001 vottun frá BSI, Bresku staðlastofnuninni fyrir að starfrækja virkt umhverfisstjórnunarkerfi. Á starfstöðinni hefur m.a. verið gengið lengra í að draga úr úrgangsmyndum með því að halda hænur sem borða þann lífræna úrgang sem fellur til og er ekki nýttur til moltugerðar. 

Á lager Keflavíkurflugvallar við Grænás er tekið við húsbúnaði og nýtilegu byggingaefni sem verður til við breytingar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og öðrum byggingum sem tilheyra flugvellinum. Búnaður er endurnýttur ef þörf er á varahlutum eða sendur á aðra staði á landinu. Hluti af Grænu skrefunum sem Isavia er að innleiða er að vera vakandi yfir möguleikum á endurnýtingu húsbúnaðar og annars efnis innan fyrirtækisins.