LOFT

Við erum meðvituð um þá ábyrgð sem hvílir á okkur varðandi loftslagsmál og losun gróðurhúsalofttegunda og vinnum með virkum og skipulögðum hætti að aðgerðum til þess að minnka kolefnisspor okkar.

LOFTSLAGSSÁTTMÁLI REYKJAVÍKURBORGAR OG FESTU

Árið 2015 skrifaði forstjóri Isavia undir yfirlýsingu um aðgerðir í loftslagsmálum sem Reykjarvíkurborg og Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, efndu til. Í kjölfar undirritunarinnar setti Isavia sér eftirfarandi markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi sinni og sýna þannig frumkvæði og ábyrgð gagnvart umhverfinu og samfélaginu.

  • Árið 2015 var losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi Isavia 0,6kg/CO2 ígildi á hvern farþega. Það er markmið Isavia að árið 2020 hafi losun gróðurhúsalofttegunda lækkað um 10% á hvern farþega miðað við árið 2015 og um 29% árið 2030 miðað við árið 2015.
  • Árið 2015 var hlutfall flokkaðs úrgangs 19% hjá Isavia og losun óflokkaðs úrgangs um 0,17 kg á hvern farþega. Það er markmið Isavia að hlutfall flokkaðs úrgangs verði 70% árið 2030 og að magn óflokkaðs úrgangs á farþega hafi lækkað um 63%.

Lækkun varð á losun gróðurhúsalofttegunda milli áranna 2015 og 2016, úr 0,6 kg CO2 ígilda í 0,46 kg CO2 ígilda á hvern farþega. Við útreikning var tekið tillit til losunar CO2 við brennslu jarðefnaeldsneytis, framleiðslu raforku og urðunar sorps.

Isavia hlaut hvatningarverðlaun Reykjavíkurborgar og Festu í loftslagsmálum árið 2017. Í tengslum við Ábyrga ferðaþjónustu setti fyrirtækið sér markmið fyrir 2018, tvö sem snúa að loftslagmálum. Annars vegar að minnka notkun jarðefnaeldsneytis um 4% á hvern farþega frá árinu 2017 og hins vegar að auka hlutfall flokkaðs úrgangs um að minnsta kosti 5% á hvern farþega miðað við 2017.