Hoppa yfir valmynd

LOFT

Við erum meðvituð um þá ábyrgð sem hvílir á okkur varðandi loftslagsmál og losun gróðurhúsalofttegunda og vinnum með virkum og skipulögðum hætti að aðgerðum til þess að minnka kolefnisspor okkar.

Isavia vinnur með virkum og skipulögðum hætti að aðgerðum í loftslagsmálum. Árið 2015 skrifaði forstjóri Isavia undir yfirlýsingu um aðgerðir í loftslagsmálum sem Reykjarvíkurborg og Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, efndu til. Í kjölfar undirritunarinnar setti Isavia sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi sinni og sýna þannig frumkvæði og ábyrgð gangvart umhverfinu og samfélaginu. Þau markmið sem sett voru í upphafi eru:

  • Árið 2015 var losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi Isavia 0,6kg/CO2 ígildi á hvern farþega. Það er markmið Isavia að árið 2020 hafi losun gróðurhúsalofttegunda lækkað um 10% á hvern farþega miðað við árið 2015 og um 29% árið 2030 miðað við árið 2015.
  • Árið 2015 var hlutfall flokkaðs úrgangs 19% hjá Isavia og losun óflokkaðs úrgangs um 0,17 kg á hvern farþega. Það er markmið Isavia að hlutfall flokkaðs úrgangs verði 70% árið 2030 og að magn óflokkaðs úrgangs á farþega hafi lækkað um 63%.

Lækkun varð á losun gróðurhúsalofttegunda milli áranna 2015 og 2017, úr 0,6 kg CO2 ígilda í 0,37 kg CO2 ígilda á hvern farþega. Við útreikninga var tekið tillit til losunar CO2 við brennslu jarðefnaeldsneytis, framleiðslu raforku og urðunar sorps.

Isavia hlaut hvatningarverðlaun Reykjavíkurborgar og Festu í loftslagsmálum árið 2017. Í tengslum við Ábyrga ferðaþjónustu setti fyrirtækið sér markmið fyrir 2018, tvö sem snúa að loftslagmálum. Annars vegar að minnka notkun jarðefnaeldsneytis um 4% á hvern farþega frá árinu 2017 og hins vegar að auka hlutfall flokkaðs úrgangs um að minnsta kosti 5% á hvern farþega miðað við 2017.

Alþjóðlega samtök flugvalla (ACI) standa saman að kerfi sem miðar að því að minnka kolefnislosun á flugvöllum. Keflavíkurflugvöllur er þátttakandi í þessu starfi og lauk fyrsta skrefi í kolefnisvottun flugvallarins árið 2016. Með því að ljúka fyrsta skrefinu hefur kolefnisspor starfseminnar verið kortlagt og umhverfisáhrif reksturs flugvallarins á nærumhverfið verið greind. Fyrsta skrefið var endurnýjað vorið 2017. Hafin er vinna við annað skref vottunarinnar og er stefnt að því að ljúka því árið 2018.  Í skrefi tvö þarf flugvöllurinn að leggja fram aðgerðaáætlun til þess að minnka kolefnislosun frá starfseminni.

Vel er fylgst með losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi Isavia og skilar Isavia árlega Grænu bókhaldi til Umhverfisstofnunar.

Beina losun gróðurhúsalofttegunda Isavia má rekja beint til eldsneytisnotkunar. Árið 2017 var bein losun gróðurhúsalofttegunda vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti 2458 t CO2e . Bein losun gróðurhúsalofttegunda vegna brennslu jarðefnaeldsneytis var 0,257 kg á farþega árið 2017.

Farþegafjöldi 20179.577.921
Heildar CO2 losun v/ eldsneytis 20172.458.376kg
CO2 losun per farþega 20170,257kg


Lítil sem engin óbein losun gróðurhúsalofttegunda er í gegnum orkunotkun Isavia. Öll orka sem Isavia notar kemur annað hvort frá fjarvarmaveitum (jarðvarma) eða vatnsaflsvirkjunum. Í báðum tilfellum er um að ræða endurnýjanlega orkugjafa sem valda engri eða mjög lítilli losun gróðurhúsalofttegunda. Óbein losun vegna hita og rafmagns er því lítil sé horft til framleiðslu rafmagns með öðrum leiðum. Samkvæmt Orkustofnun er meðal losun raforkuframleiðslu 11,8 gr. kolefnisígilda á hverja kílóvattstund. Óbein losun Isavia í gegnum raforkunotkun árið 2017 eru 347 tonn  CO2.

Til annarrar óbeinnar losunar gróðurhúsalofttegunda má meðal annars telja losun vegna urðunar sorps. Á árinu 2017 fór 1.235.220 kg. af óflokkuðum úrgangi til urðunar. Losun kolefnis við urðun á sorpi Isavia voru 717 tonn árið 2017.

Verkfræðistofan Efla hefur í samstarfi við Háskólann í Aveiro í Portúgal unnið skýrslu vegna mats á loftgæðum vegna starfsemi á Keflavíkurflugvelli.  Skoðuð voru 2 tilfelli, annars vegar útreiknuð mengun miðað við umferð um flugvöllinn árið 2015 og hins vegar áætlun fyrir 2025.  Í skýrslunni segir: „Styrkleiki allra mengunarefna uppfyllir kröfur sem gerðar eru til loftgæða í reglugerð nr. 251/2002 hvort sem um er að ræða árið 2015 eða 2025. Reglugerðin tilgreinir fjölda skipta sem styrkur mengunarefna má fara yfir viðmiðunarmörk. Samkvæmt líkindaútreikningum getur klukkustundargildi köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) fyrir báðar sviðsmyndir farið yfir viðmiðunarmörk reglugerðar 251/2002, en fjöldi þeirra tilvika er langt undir þeim fjölda sem leyfilegt er.“ Í kjölfarið hefur Isavia vaktað losun köfnunarefnisdíoxíðs í nærumhverfi flugvallarins.