Hoppa yfir valmynd

Ávarp stjórnarformanns

Ávarp stjórnarformanns

Áhrif kórónuveirufaraldursins á flugtengdan rekstur voru áfram veruleg árið 2021. Þegar áföll líkt og umræddur faraldur dynja yfir er öllum mikilvægt að draga andann og meta hvort fyrri áherslur séu enn gildar.  
Móðurfélag Isavia fer með rekstur Keflavíkurflugvallar. Stjórn og stjórnendur Isavia uppfærðu á síðasta ári stefnu félagsins með það að markmiði að geta blásið til sóknar í Keflavík að loknum heimsfaraldrinum. Sýnin er einföld; að tengja heiminn í gegnum Ísland. Í uppgangi ferðaiðnaðarins á árunum fyrir fall WOW Air var fjárfest á Keflavíkurflugvelli í kappi við öran vöxt flugs til og frá landinu. Í þetta sinn vill félagið byggja upp starfsemina áður en innviðirnir verða komnir að þolmörkum á nýjan leik. 

Samhliða nýrri uppbyggingaráætlun rýndi félagið og endurskoðaði á síðasta ári þá menningu sem ríkir innan félagsins. Eitt er að eiga og reka trausta innviði. Hitt er að mannauðurinn sem sinnir þessum innviðum – og veitir um þá grundvallarþjónustu – tryggi sem bestan árangur. Markmið þessarar áherslu á vinnustaðarmenningu Isavia er að draga úr sóun í þessari flóknu starfsemi og gera Isavia að betri samstarfsaðila en fyrr í flugvallarsamfélaginu. Jafnframt var lagt upp með að gera öllum starfsmönnum félagsins auðveldara en fyrr að takast á við daglegt amstur starfseminnar á uppbyggilegan hátt með áherslu á sjálfsþroska og velvild í garð hvers annars, auk öryggis og sjálfbærni í starfinu sjálfu.  

Framtíðarsýnin um að tengja heiminn í gegnum Ísland byggist á mikilvægi flugtenginga á 21. öldinni. Sem tengistöð verkar Keflavíkurflugvöllur sem hnútpunktur í þéttriðnu neti flugleiða um heiminn. Þannig bjóðast Íslendingum greiðir ferðamöguleikar langt umfram það sem okkar fámenna land gæti staðið undir eitt og sér. Um leið fá fleiri gestir að utan en ella auðveldan aðgang að okkar fallega og áhugaverða landi. Árið 2018, sem var það ár þegar flestar flugvélar lentu og tóku á loft á Keflavíkurflugvelli, voru 57 áfangastaðir með beinu flugi héðan allt árið um kring. Slíkt umfang er fáheyrt frá heimamarkaði sem taldi á þeim tíma einungis innan við 360 þúsund íbúa. Tenginet þetta býður auk þess upp á hraða vöruflutninga til og frá landinu, ýmsa afleidda uppbyggingarmöguleika á Suðurnesjum og annað framtak sem leiðir til aukins hagvaxtar. Öflug tengistöð eykur lífsgæði á Íslandi. 

En hvernig getur Isavia lagt grunninn að því að tengja heiminn gegnum Ísland til langrar framtíðar? Keflavíkurflugvöllur er miklu meira en bara Isavia. Á flugvellinum starfar fjöldi annarra fyrirtækja sem koma að því að þjónusta flugvélar, vörur og ferðamenn. Öll sú keðja þarf að vera vel smurð og samstillt til að ná megi þeim árangri sem stefnt er að. 

Það er einmitt út frá þeim áherslum sem uppfærður tilgangur móðurfélags Isavia varð til: „Við leiðum flugvallarsamfélag sem eykur lífsgæði og velsæld á Íslandi“. Með þessu erum við að minna á að það er flugvallarstarfsemin öll, bein og óbein, sem er grundvöllur sýnarinnar um að tengja heiminn gegnum Ísland. Isavia er það leiðandi afl í flugvallarsamfélaginu sem ber ábyrgð á að láta þetta allt saman gerast. 

Í dag gera áætlanir ráð fyrir um 50 milljarða króna fjárfestingum á næstu 5 árum. Þessa risavöxnu uppbyggingu teljum við nauðsynlega til að standa undir þeim sjálfbæru innviðum sem Isavia vill byggja upp, þeirri umferð sem við sjáum fyrir og þeirri gæðaupplifun sem við viljum tryggja þeim sem nýta stöðina. Geta félagsins til að takast á hendur slíkar framkvæmdir er vissulega löskuð eftir hrun í flugsamgöngum í faraldrinum. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur hins vegar fyrir hönd eigandans, íslenska ríkisins, lagt félaginu til aukið hlutafé, auk þess sem innlendir og erlendir lánveitendur telja Isavia traustan lántaka. Hafa þeir því veitt félaginu aðgang að hagkvæmu lánsfé til að skapa verkvang tenginga til framtíðar á Keflavíkurflugvelli. 

Horft fram í tímann teljum við að umbæturnar sem hafnar eru á Keflavíkurflugvelli haldist vel í hendur við þá blómlegu uppbygging afþreyingar og aðstöðu sem fram fer víða um land. Ísland verður áfram einstakt ferðamannaland, þar sem gæði og einstök upplifun verða í fyrirrúmi.

Rétt eins og stuðningur ríkisins sem eiganda Isavia hefur verið grundvöllur þess að byggja megi upp af fullum krafti er mikilvægt að ríkið sem löggjafi forðist að leggja óþarfa fjárhagslegar byrðar á félagið. Þannig skal hér varað við hugmyndum um að starfsemin í Keflavík, sem á í alþjóðlegri samkeppni alþjóðaflugvalla, fjármagni rekstrarhalla á innanlandsflugvöllum landsins. Flugvallakerfið innanlands er mikilvægt fyrir samgöngur innanlands og vill Isavia gjarnan vinna að uppbyggingu þess í samvinnu við ríkið, hér eftir sem hingað til. Flugvellirnir innanlands standa hins vegar ekki undir sér fjárhagslega og eru fjármagnaðir með framlögum úr ríkissjóði. Ef Isavia verður ætlað að jafna stöðu landsmanna óháð búsetu mun þurfa að draga úr framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli. Notkun innviðanna suður með sjó, sem gegna lykilhlutverki í íslensku hagkerfi, gæti þannig fari yfir þolmörk á ný, einmitt þegar endurreisnarstarfið á að rísa sem hæst. Þegar stærsti kúfur uppbyggingarinnar verður að baki verður Isavia í stöðu til að byrja að greiða arð, sem er hefðbundinn farvegur fyrir útflæði fjár úr félögum til eiganda síns. 

Hin hryllilegu stríðsátök í Úkraínu eru farin að setja mark sitt á flugsamgöngur og uppbyggingu flugvalla um allan heim, þar á meðal á Keflavíkurflugvelli. Helst finnum við nú fyrir að keðja aðfanga fyrir byggingarframkvæmdir er farin að hökta, sem gæti tafið fyrir uppbyggingu okkar. Olíuverð hefur einnig snarhækkað, en enn sem komið er hefur það ekki haft áhrif á fjölda flugfarþega. Horfur fyrir sumarið eru þannig enn vænlegar, en samsetning farþega gæti hins vegar tekið breytingum og mörg flugfélög meta nú hvort breyta eigi flugleiðum og verðlagningu. Samandregið eru hin mögulegu neikvæðu áhrif á rekstur okkar smávægileg miðað við þær hörmungar sem við höfum fyrir augunum dag hvern. 

Mig langar til að þakka stjórnendum félagsins og starfmönnum öllum fyrir vel unnin störf við erfiðar og síbreytilegar aðstæður. Við ætlum okkar að standa undir þeirri ábyrgð sem okkur er falin og hafa jákvæð áhrif á lífsgæði á Íslandi til framtíðar. 
 
Orri Hauksson, stjórnarformaður Isavia.