
MIÐPUNKTUR FLUGS Í NORÐUR-ATLANTSHAFI
Keflavíkurflugvöllur er samgöngumiðstöð milli Evrópu og Norður-Ameríku og í stuttri fjarlægð frá höfuðborg Íslands. Aukin umsvif við flugvöllinn kalla á uppbyggingu stoðþjónustu en að sama skapi ýtir uppbygging Keflavíkurflugvallar undir að svæðið verði segull fyrir hvers konar starfsemi. Flugtengd starfsemi svo sem flutningastarfsemi eða flugþjónusta, gistirekstur, verslun og fleira eru tækifæri fyrir nágrannasveitarfélög og rekstraraðila sem eflast með aukinni umferð um svæðið.
ÖFLUGAR FLUGTENGINGAR
Isavia gegnir mikilvægu hlutverki bæði samfélagslega sem og í efnahagslegu samhengi. Flugvellir Isavia, og þá sér í lagi Keflavíkurflugvöllur, skapa verðmæti fyrir samfélagið og hagkerfið, bæði á Íslandi og annarsstaðar í heiminum. Beinar flugtengingar eru gríðarlega mikilvægar, bæði út frá efnahagslegum þáttum sem og mannlegum þáttum. Hverskonar tengingar leiða af sér sjálfbæran vöxt. Því fleiri beinar tengingar í flugi frá Íslandi til helstu borga í heiminum því auðveldara verður fyrir íslensk fyrirtæki að stunda viðskipti á erlendri grundu og afla sér alþjóðlegrar þekkingar.
AIRPORT CITY
Tengingar auka hagsæld. Þær auka áhuga erlendra fyrirtækja á því að hefja starfsemi á Íslandi. Mannlegi þátturinn snýst um að veita fólki frá mismunandi löndum tækifæri til að hittast og tengjast. Þannig stuðla tengingar að velferð einstaklinga og samfélaga í öllum heimshlutum. Lega landsins á milli Norður-Ameríku og Evrópu býður þannig upp á möguleika á að þróa aerotropolis, líkt og gert hefur verið á Schiphol og fleiri flugvöllum. Isavia hefur, m.a. í vinnu við gerð þróunaáætlunar til 2040, skoðað möguleika á uppbyggingu á starfssvæði flugvallarins, sem kalla mætti flughafnarborg (Airport City), en það er vísun í svæði sem nær til flugvallarins, flugstöðvarinnar, fraktsvæða, skrifstofubygginga, verslunar og þjónustu, sem og hótela. Þar gæti byggst upp starfsemi, bæði flugtengd og óflugtengd, sem sækist eftir því að vera staðsett við alþjóðlegan flugvöll með öflugar flugtengingar. Slík uppbygging á Keflavíkurflugvelli er raunhæf, en nefna má að framboð á beinu flugi frá Íslandi til Bandaríkjanna og Kanada að sumri til er svipað og samanlagt framboð á öllum stóru alþjóðaflugvöllunum í Skandinavíu (Osló, Kaupmannahöfn, Helsinki og Stokkhólmur).
AUKIN HAGSÆLD MEÐ FLUGTENGINGUM
Ljóst er að mikil tækifæri felast í uppbyggingu af þessu tagi. Flughafnarborgin er oft kölluð hjartað í Aerotropolis sem nær yfir þéttbýlið sem myndast í kringum flugvöllinn og nýtir flugtengingar til að öðlast samkeppnislega sérstöðu. Þannig verða borgirnar samkeppnishæfari með því að tengja þær við aðra staði á sem hraðvirkastan hátt og þannig draga þær til sín fjármagn og fjárfesta. Flugvellir eru ekki lengur bara staðir þar sem fólk kemur og fer, heldur vaxtarsvæði fyrirtækja sem njóta góðs af nálægðinni við flugvöllinn. Skýr stefna í þá átt að nýta flugtengingar til að öðlast samkeppnislega yfirburði getur skilað auknum vöru- og þjónustuviðskiptum, laðað til landsins í auknu mæli erlenda fjárfestingu, fjölgað verðmætum störfum og aukið hagsæld íbúa landsins alls. Reynsla frá Dubai, Hong Kong og Singapore sýnir okkur að litlar þjóðir og lönd geta keppt við stærri lönd og borgir með því að nýta styrkleika í flugvöllum og flugfélögum sem bjóða upp á tengimöguleika og þannig laðað til sín í auknum mæli alþjóðleg fyrirtæki og starfsemi.