Hoppa yfir valmynd

Uppbygging á Keflavíkurflugvelli

Nýtt og spennandi tímabil uppbyggingar er hafið á Keflavíkurflugvelli. Flugvöllurinn gegnir lykilhlutverki í efnahagslífi þjóðarinnar og er forsenda fyrir víðtækum tengslum Íslendinga við aðrar þjóðir. Lega landsins skapar mikla möguleika í alþjóðaflugi og er það markmið Isavia að Keflavíkurflugvöllur verði áfram ein helsta miðstöð flugs um Norður-Atlantshaf. Stækkun mannvirkja, úrbætur á flugbrautakerfi og bætt aðkoma að flugstöð hjálpa til við að ná þessum markmiðum.

Mikil fjölgun farþega á síðustu árum hefur reynt á aðstöðu og starfsfólk á Keflavíkurflugvelli. Farþegar, flugfélög og þjónustufyrirtæki eins og verslanir og veitingastaðir þurfa meira rými. Þetta lá fyrir áður en heimsfaraldurinn skall á og blasir enn betur við nú og ljóst er að stíga þarf stór skref í uppbyggingu og þróun á næstu árum og áratugum. Ný uppbyggingaráætlun var samþykkt árið 2021 og framkvæmdir hófust við nýja viðbyggingu flugstöðvarinnar. Þessi viðbygging á eftir að stórbæta þjónustu við farþega. Þá er unnið af kappi að öðrum mikilvægum verkefnum, eins og endurnýjun akbrauta flugvéla og þjónustuvega. 

Hvað er framundan?

Byggt hefur verið við flugstöðina í mörgum áföngum til að mæta stóraukinni flugumferð og fjölgun ferðafólks. Í heild hefur flugstöðin stækkað meira en þrefalt frá vígslu hennar árið 1987.  Næsti áfangi er stækkunin til austurs og síðan tenging við núverandi aðalbyggingu. Þar verður til nýtt miðrými sem bætir til muna upplifun farþega og skapar nýja möguleika í þjónustu við ferðalanga. Í framhaldinu verður rauði landgangurinn að suðurbyggingunni breikkaður. Þessu fylgir fjölgun landgöngubrúa og endurbætur verða á akstursbrautum og stæðum.

AUSTURBYGGING

Framkvæmdir hófust í sumarbyrjun 2021 við nýja 20 þúsund fermetra viðbyggingu flugstöðvarinnar, sem felur í sér nærri 30% stækkun til austurs. Jarðvinnu er lokið og er nú unnið að burðarvirki. Þessi nýja austurbygging verður á þremur hæðum, auk kjallara. Hún verður að fullu tekin í notkun árið 2024.

Austurbyggingin er mikilvægur liður í uppbyggingaráætlun Keflavíkurflugvallar. Þjónusta við farþega og starfsumhverfi þeirra sem þarna vinna batnar verulega. Fyrsti áfangi þessarar nýju austurbyggingar felur í sér uppsetningu nýs og afkastamikils farangursmóttökukerfis á jarðhæð sem tilbúið verður árið 2022. Komusalur farþega verður mun rýmri og fríhöfnin stækkar. Á annarri hæð verður til nýtt verslunar- og þjónusturými og biðsvæði farþega stækkar umtalsvert.

STÆKKUN SUÐURBYGGINGAR

Viðbygging á tveimur hæðum án kjallara verður byggð við suðurbyggingu flugstöðvarinnar (Stæði 10). Þar verður bætt aðstaða farþega við brottfararhlið í austurenda suðurbyggingarinnar. Hluti af verkefninu er gerð nýrrar landgöngubrúar. Breyta þarf akstursleiðum flugvéla með aðgerðum á vellinum.

BREYTINGAR Á AFGREIÐSLU FARÞEGA UTAN SCHENGEN - SVÆÐISINS

Vegna innleiðingar Evrópureglugerðar á árinu 2022 þarf að gera breytingar á komu- og brottfararkerfi í flugstöðinni. Einnar hæðar viðbygging verður reist við suðurenda flugstöðvarinnar til að uppfylla þessar kröfur (Stæði 6).

Skrá þarf með nýjum hætti ferðir farþega til og frá landinu, halda utan um upplýsingar um synjanir um komu ríkisborgara frá löndum utan Schengen-svæðisins og ákveða skilyrði fyrir afgreiðslu í gegnum komu- og brottfararkerfið út frá sjónarmiðum löggæslu. Þetta miðlæga kerfi heldur utan um komur, brottfarir og dvalartíma íbúa utan Schengen-svæðisins og þarf ekki lengur að stimpla vegabréf. Öllum skráningum þarf að fylgja fingaför og mynd. Markmiðið er að auka gæði og bæta landamæraeftirlit.

Þessi viðbygging er þó aðeins til bráðabirgða. Hún verður síðar tekin niður og nýtt annars staðar þegar núverandi aðalbygging flugstöðvarinnar verður stækkuð í næsta áfanga.

FLUGBRAUTIR OG AKVEGIR

Stöðugt er unnið að viðhaldi og úrbótum á akbrautum flugvallarins og samgöngukerfinu í kringum hana. Nú er meðal annars unnið að gerð nýrrar 1200 metra akbrautar (Mike) fyrir flugvélar sem tengir saman flughlað flugstöðvarinnar við flugbraut, sem og uppsetning ljósabúnaðar. Markmiðið með framkvæmdinni er að bæta flæði og auka öryggi flugbrautakerfisins. Þá er unnið að 1500 metra löngum þjónustuvegi sem liggur að framkvæmdasvæði en nýtist til framtíðar fyrir flutning á vörum til og frá flugvallarsvæði og flugstöðinni.

Einnig er verið að búa til 500 metra hringtengingu sem tengir núverandi umferðarkerfi í forgarði flugstöðvarinnar við Reykjanesbraut. Með því eykst umferðaröryggi til muna og flöskuhálsum fækkar. Þá er í undirbúningi að reisa bílastæðahús, fjölga bílastæðum og almennt bæta aðkomu að flugstöðinni fyrir fólksflutningafyrirtæki og alla sem þangað þurfa að sækja.

STÆKKUN NORÐURBYGGINGAR OG TENGING VIÐ SUÐURBYGGINGU (SLN 18 PHASE 2)

Annar fyrirhugaður stóráfangi í uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar verður stækkun tengingar milli norður- og suðurbyggingar. Núverandi landgangur verður breikkaður og með nýju og björtu miðjurými skapast betri tenging milli álma flugstöðvarinnar, aðstaða komufarþega batnar með vegabréfaskoðun, nýrri fríhöfn og meira þjónusturými. Hönnunarvinna stendur yfir en fyrirhugað er að hefja framkvæmdir 2023.

Fréttir af framkvæmdum