Hoppa yfir valmynd

Þjónusta við farþega

VIP ÞJÓNUSTA Á KEFLAVÍKURFLUGVELLI

Áhugasamir lögaðilar sem uppfylla hæfisskilyrði og eru tilbúnir til að uppfylla aðrar kröfur sem að rekstrarleyfinu snúa, geta óskað eftir því að gera rekstrarleyfissamning við Isavia ohf. (rekstrarleyfisveitandi) um VIP þjónustu á Keflavíkurflugvelli. Rekstrarleyfi er veitt hæfum aðilum sem þess óska til eins árs.
Áhugasamir skulu skila inn staðfestingu á hæfi  ásamt þeim fylgigögnum sem áskilin eru skv. lýsingu í skjalinu. Staðfesting, ásamt fylgigögnum, skal send á netfangið opportunities@isavia.is, merkt „VIP þjónusta“. Umsækjanda verður svarað með tölvupósti innan tveggja vikna frá skilum á staðfestingu á hæfi. Umsækjanda, sem ekki telst hæfur, verður synjað um rekstrarleyfi. Umsækjanda, sem telst hæfur, verður boðið að ganga til samninga um rekstrarleyfi.

Fyrirspurnir vegna viðskiptatækifærisins skal einnig senda á opportunities@isavia.is. Fyrirspurnum er svarað eins fljótt og kostur er.

VIP ÞJÓNUSTA

Rekstrarleyfishafi skuldbindur sig til að sinna eftirfarandi þjónustu að lágmarki:

Móttaka skiptifarþega

 • Aðstoð með töskur og innritun í tengiflug
 • Tekið á móti farþega við landgang og fylgt að brottfararhliði

Móttaka komufarþega

 • Tekið á móti komufarþega við landgang
 • Fylgd í gegnum flugstöðina
 • Aðstoð með töskur
 • Fylgt inn í komusal til bílstjóra eða rútufyrirtækis eftir því sem við á

Móttaka brottfararfarþega

 • Tekið á móti farþega við bílastæði brottfararmegin
 • Aðstoð með töskur og innritun
 • Fylgd gegnum öryggisleit
 • Fylgd gegnum flugstöðina og að brottfararhliði

Akstursþjónusta

 • Að lágmarki þrjár þjónustuleiðir eftir stærð ökutækis

Sérsniðin þjónusta

 • Þjónusta sniðin að séróskum farþega

Að öðru leyti eru þjónustuleiðir samningsatriði milli rekstrarleyfishafa og rekstrarleyfisveitanda.

FYRIRVARI

Rekstrarleyfisveitandi áskilur sér rétt til að breyta kröfum og hæfisskilyrðum á samningstíma.
Rekstrarleyfisveitandi áskilur sér rétt til að rifta samningi um rekstrarleyfi ef rekstrarleyfishafi, þ.m.t. starfsmenn og aðrir einstaklingar á hans vegum, verður uppvís að því að misnota heimildir þær sem í rekstrarleyfinu felast.

Rekstrarleyfisveitandi áskilur sér rétt til að rifta samningi um rekstrarleyfi ef rekstrarleyfishafi uppfyllir ekki ákvæði rekstrarleyfissamnings og gerir ekki nauðsynlegar úrbætur eftir ábendingar rekstrarleyfisveitanda. Ef rekstrarleyfishafi verður uppvís að því að brjóta ákvæði samnings um upplýsingaskyldu áskilur rekstrarleyfisveitandi sér rétt til að rifta samningi fyrirvaralaust.

Rekstrarleyfisveitandi áskilur sér rétt til að rifta samningi um rekstrarleyfi ef rekstrarleyfishafi kemur illa út úr þjónustukönnunum eða ef ítrekaðar kvartanir viðskiptavina berast og rekstrarleyfishafi gerir ekki nauðsynlegar úrbætur eftir ábendingar rekstrarleyfisveitanda.

Rekstrarleyfishafi veitir rekstrarleyfisveitanda leyfi til að nota þær upplýsingar sem rekstrarleyfishafi skilar inn samkvæmt rekstrarleyfissamningi, m.a. til upplýsingar um veltu og umfang, eftir að samningur þessi fellur úr gildi, m.a. í tengslum við útboð eða forval á þjónustunni.

Rekstrarleyfisveitandi áskilur sér rétt til að rifta öllum samningum og bjóða þjónustuna út komi til þess að heildarvelta allra rekstrarleyfa vegna þjónustunnar fari yfir viðmiðunarfjárhæðir um útboðsskyldu skv. 23. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

HÆFISSKILYRÐI

Hæfisskilyrði koma fram í skjali „staðfesting á hæfi“.

Gerðar eru eftirfarandi tækni- og virknikröfur til umsækjanda:

 • Rekstrarleyfishafi skal vera lögaðili með að lágmarki tveggja ára reynslu af ferðaþjónustu sem miðuð er að sterk efnuðum hópum og er sérsniðin að hverjum viðskiptavini.
 • Rekstrarleyfishafi skal uppfylla öll skilyrði laga og reglna sem um reksturinn gilda og hafa nauðsynleg leyfi til að reka þjónustuna, m.a.: 
  • Rekstrarleyfishafi skal hafa gilt rekstrarleyfi til fólksflutninga, leyfi vegna hópbifreiða skráðar fyrir 9 farþega eða fleiri auk eðalvagnaleyfis bifreiða skráðar fyrir 8 farþega eða færri, útgefnum af samgöngustofu.
  • Rekstrarleyfishafi skal hafa gilt leyfisbréf ferðasala dagsferða, útgefið af Ferðamálastofu.
  • Rekstrarleyfishafi skal hafa gilt vsk númer.

Áhugasamir skulu fylla út og undirrita staðfestingu á hæfi og að viðkomandi uppfylli þær kröfur sem eru gerðar, sbr. „staðfesting á hæfi“. Staðfesting á hæfi ásamt þeim fylgigögnum sem áskilin eru skv. lýsingu í skjalinu skal send á netfangið opportunities@isavia.is, merkt „VIP þjónusta“.

ALMENNT UM REKSTRARLEYFIÐ

 • Rekstrarleyfishafi skuldbindur sig til að veita viðskiptavinum flugstöðvarinnar aðgang að þjónustu samkvæmt samningi gegn gjaldi.
 • Rekstrarleyfi takmarkast við þá þjónustuþætti sem samningsaðilar verða sammála um, en rekstrarleyfishafi skal þó uppfylla kröfur um lágmarksþjónustu. Rekstrarleyfishafa er ekki heimilt að gera breytingar á þjónustuframboði nema með samþykki rekstrarleyfisveitanda.

ÖKUTÆKI

 • Rekstrarleyfishafi skal bjóða þjónustu eðalvagna af eftirfarandi gerðum:
  • Fólksbifreiðar
  • Skutbifreið (e. mini-van)
  • Jeppabifreið
 • Eðalvagnar skulu ekki vera eldri en 5 ára.

AÐSTAÐA

 • Með rekstrarleyfi fær rekstrarleyfishafi aðgang að flugstöðinni til að sinna þeirri þjónustu sem rekstrarleyfið felur í sér.
 • Rekstrarleyfi fylgir ekki föst aðstaða á Keflavíkurflugvelli.
 • Rekstrarleyfishafi skal leigja fast bílstæði sem næst flugstöðinni til afnota vegna þjónustunnar sem hluti af heildarupplifun viðskiptavina.

KRÖFUR VEGNA MANNAUÐSMÁLA

 • Ráðningarsamningur skal vera til staðar milli rekstrarleyfishafa og þeirra starfsmanna hans sem fá aðgangsheimild að haftasvæði.
 • Rekstrarleyfishafi ber ábyrgð á að starfsmenn hans, sem sinna þjónustu er fellur undir rekstrarleyfið, uppfylli öll ákvæði rekstrarleyfissamnings sem að störfum þeirra snúa með beinum eða óbeinum hætti.
 • Aðgangsheimildir verða aðeins veittar þeim starfsmönnum rekstrarleyfishafa sem þurfa þær starfs síns vegna.
 • Rekstrarleyfishafi skal á sinn kostnað afla bílstjórum sem sinna þjónustunni lögmæts akstursleyfis inn á flughlað (G-3 heimild).
 • Rekstrarleyfishafi og allir þeir starfsmenn sem starfa í nafni rekstrarleyfishafa þurfa að standast bakgrunnsskoðun hjá lögreglu. Að öðrum kosti fæst ekki aðgangsleyfi inn á haftasvæðið.
 • Starfsmenn rekstrarleyfishafa skulu vera snyrtilegir til fara, klæðast einkennisfatnaði og bera merkingu innan Flugstöðvar sem aðgreinir þá frá farþegum og öðrum starfsmönnum.
 • Starfsmenn skulu ávallt gæta kurteisi og lipurðar í framkomu í störfum sínum gagnvart farþegum og öðrum starfsmönnum innan flugstöðvarinnar.
 • Rekstrarleyfishafi er bundinn af öllum reglum sem rekstrarleyfisveitandi setur í og við Flugstöðina.

FRAMLAG REKSTRARLEYFISHAFA Á SAMNINGSTÍMA

 • Rekstrarleyfishafi skal sjá til þess að ávallt verði viðbúnaður til að aðlaga þjónustu til viðskiptavina að flugumferð, álagi, seinkunum og öðru raski á flugi og aðstæðum.
 •  Rekstrarleyfishafi skal, innan þriggja mánaða frá undirritun samnings, leggja til verklagsreglur um veitingu þjónustunnar, sem fjalla m.a. um hvernig þjónusta er framkvæmd, faglega framkomu starfsmanna við viðskiptavini og þagnarskyldu.
 •  Rekstrarleyfishafi skal, innan þriggja mánaða frá undirritun samnings, leggja til þjálfunaráætlun starfsfólks, þar sem starfs- og verklagsþjálfun starfsmanna er lýst.
 •  Rekstrarleyfishafi skal ávallt halda á lofti góðri ímynd sinni sem þjónustufyrirtækis.
 • Rekstrarleyfishafi skal útbúa og kosta allt markaðs- og kynningarefni um þjónustuna. Markaðs- og kynningarefni tengt þjónustunni er háð samþykki rekstrarleyfisveitanda.
 • Rekstrarleyfishafi skal halda úti, reka og viðhalda sinni eigin heimasíðu í nafni viðkomandi fyrirtækis þar sem þjónustan er auglýst.
 •  Rekstrarleyfishafi skal veita rekstrarleyfisveitanda eftirfarandi upplýsingar í hverjum mánuði:
  • Fjölda þjónustutilvika, skipt niður eftir þjónustuþáttum.
  • Upphæð veltu skipt niður eftir einstaka þjónustuþáttum.
  • Upplýsingar um aðra samninga/tilboð sem rekstrarleyfishafi hefur gert við þriðja aðila fyrir utan fyrir fram skilgreindar þjónustuleiðir og inniheldur þjónustu samkvæmt rekstrarleyfi.
 • Rekstrarleyfishafi skal sækja reglulega stöðufundi með rekstrarleyfisveitanda.
 • Samningsaðilar setja sér sameiginleg markmið m.a. um rekstrarárangur, þjónustu við viðskiptavini, mönnun og áherslur í markaðssetningu. Farið verður yfir árangurinn á sameiginlegum stöðufundum.

VERÐ ÞJÓNUSTU OG REKSTRARLEYFISGJALD

 • Rekstrarleyfishafi skal kynna verðskrá þjónustunnar og skulu verð vera samkeppnishæf.
 • Verðupplýsingar um þjónustuna á heimasíðu rekstrarleyfishafa skulu vera í samræmi við gildandi verðskrá samkvæmt samningi á hverjum tíma.
 • Rekstrarleyfisgjald er veltutengt. Rekstrarleyfishafi greiðir til rekstrarleyfisveitanda 10% af allri veltu rekstrarleyfishafa af þeirri þjónustu sem felst í rekstrarleyfi þessu, en þó aldrei lægri upphæð en sem nemur lágmarks rekstrarleyfisgjaldi. Ofan á veltutengt gjald leggst virðisaukaskattur, eins og hann er á hverjum tíma, sem rekstrarleyfishafi greiðir.
 • Lágmarks rekstrarleyfisgjald, sem rekstrarleyfishafa ber að greiða rekstrarleyfisveitanda, er 150.000 kr. á rekstrarári. Takist rekstrarleyfishafa ekki að skila inn lágmarksveltu á ársgrundvelli, ber honum eigi að síður að greiða lágmarksgjald í lok rekstrarárs til rekstrarleyfisveitenda fyrir rekstrarleyfið.

ÓSK UM AÐ GERA REKSTRARSAMNING

 Áhugasamir skulu fylla út og undirrita staðfestingu á hæfi og að viðkomandi uppfylli þær kröfur sem eru gerðar, sbr. „staðfesting á hæfi“. Staðfesting á hæfi ásamt þeim fylgigögnum sem áskilin eru skv. lýsingu í skjalinu skal send á netfangið opportunities@isavia.is, merkt "VIP þjónusta".