Hoppa yfir valmynd

Stækkun flugvallarins

Nýtt og spennandi tímabil uppbyggingar er hafið á Keflavíkurflugvelli. Flugvöllurinn gegnir lykilhlutverki í efnahagslífi þjóðarinnar og er forsenda fyrir víðtækum tengslum Íslendinga við aðrar þjóðir. Lega landsins skapar mikla möguleika í alþjóðaflugi og er það markmið Isavia að Keflavíkurflugvöllur verði áfram ein helsta miðstöð flugs um Norður-Atlantshaf. Stækkun mannvirkja, úrbætur á flugbrautakerfi og bætt aðkoma að flugstöð hjálpa til við að ná þessum markmiðum.

Mikil fjölgun farþega á síðustu árum hefur reynt á aðstöðu og starfsfólk á Keflavíkurflugvelli. Farþegar, flugfélög og þjónustufyrirtæki eins og verslanir og veitingastaðir þurfa meira rými. Þetta lá fyrir áður en heimsfaraldurinn skall á og blasir enn betur við nú og ljóst er að stíga þarf stór skref í uppbyggingu og þróun á næstu árum og áratugum. Ný uppbyggingaráætlun var samþykkt árið 2021 og framkvæmdir hófust við nýja viðbyggingu flugstöðvarinnar. Þessi viðbygging á eftir að stórbæta þjónustu við farþega. Þá er unnið af kappi að öðrum mikilvægum verkefnum, eins og endurnýjun akbrauta flugvéla og þjónustuvega. 

Hvað er framundan?

Byggt hefur verið við flugstöðina í mörgum áföngum til að mæta stóraukinni flugumferð og fjölgun ferðafólks. Í heild hefur flugstöðin stækkað meira en þrefalt frá vígslu hennar árið 1987.  Næsti áfangi er stækkunin til austurs og síðan tenging við núverandi aðalbyggingu. Þar verður til nýtt miðrými sem bætir til muna upplifun farþega og skapar nýja möguleika í þjónustu við ferðalanga. Í framhaldinu verður rauði landgangurinn að suðurbyggingunni breikkaður. Þessu fylgir fjölgun landgöngubrúa og endurbætur verða á akstursbrautum og stæðum.

Sjá nánar hér