Hoppa yfir valmynd

Veitingatækifæri

Kaffihúsarekstur á Keflavíkurflugvelli

Isavia leitar eftir öflugum viðskiptafélögum til að reka kaffihús á Keflavíkurflugvelli. Í flóknu rekstrarumhverfi sem flugvöllurinn er, er sérstaklega leitað eftir aðila sem býr yfir mikilli fagmennsku í rekstri og getur brugðist hratt og vel við breytilegum aðstæðum.

Tækifærið sem um ræðir er rekstur á kaffihúsi á þremur svæðum á Keflavíkurflugvelli. Svæðin þrjú sem um ræðir eru á annarri hæð norðurbyggingar sem er aðal verslunar- og veitingasvæðið eftir öryggisleit brottfararfarþega, á annarri hæð suðurbyggingar þar sem tengi- og brottfararfarþegar fara í gegn og á fyrstu hæð norðurbyggingar sem er utan haftasvæðis þar sem brottfarar- og komufarþegar hafa greiðan aðgang að, ásamt starfsfólki flugvallarins.

Leitað er eftir aðila sem getur boðið upp á gæðakaffi, ferskt brauð og bakkelsi, léttari mat (t.d. salat, súpur og hollar skálar), djúsa og hristinga, ásamt áfengum og óáfengum drykkjum fyrir breiðan hóp viðskiptavina. Gert er ráð fyrir að viðskiptavinahópurinn vilji bæði geta haft þann kostinn að neyta veitinganna inn á staðnum eða taka með sér.

Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu og áhugasamir geta nálgast gögnin hér. Boðið verður upp á kynningarfund og heimsókn á KEF miðvikudaginn 17. ágúst klukkan 10. Áhugasamir eru vinsamlega beðnir um að skrá sig í gegnum netfangið [email protected].

Tveir veitingastaðir á 2. hæð norðurbyggingar

Isavia leitar nú að öflugum viðskiptafélögum með víðtæka reynslu af veitingarekstri til að taka þátt í útboði um rekstur tveggja veitingastaða á 2.hæð í norðurbyggingu Keflavíkurflugvallar. Veitingastaðirnir tveir verða með ólíku sniði og nálgun en reknir af sama rekstraraðila. Annar staðurinn verður stór og þarf að ná til breiðs hóps af fólki, bæði þeirra sem eru að flýta sér og þeirra, sem hafa lengri tíma. Hinn staðurinn verður smærri og þar verður horft til afslappaðrar stemningar og veitingaúrvalið tengt við skandinavíska matargerð.

Útboðið var auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Útboðsgögnin voru gefin út 28. mars sl. og útboðsferlið er því hafið.