Hoppa yfir valmynd

Aldarafmæli flugs á Íslandi

Margvíslegir viðburðir í tengslum við aldarafmæli flugs á Íslandi.

Hinn þriðja september n.k. verða 100 ár liðin síðan flugvél hóf sig í fyrsta sinn á loft á Íslandi. Flugið og flugstarfsemi eru síðan orðin stór hluti af sögu þjóðarinnar og skipa merkan sess í samgöngu- og atvinnuþróun landsins. Vagga flugsins stóð í Vatnsmýrinni í Reykjavík og þar var gerður flugvöllur sem lengi hefur verið miðstöð flugstarfsemi í landinu.

 Reykjavíkurflugvöllur og Isavia munu í samstarfi við Flugmálafélag Íslands minnst þessara merku tímamóta í sögu þjóðarinnar með margvíslegum hætti.

21. maí: Tólf gamlar DC- 3/C-47 flugvélar til sýnis á Reykjavíkurflugvelli

Þriðjudaginn 21. maí  verða allmargar gamlar flugvélar af gerðinni DC- 3/C-47 almenningi til sýnis á Reykjavíkurflugvelli. Flugvélarnar hafa þar viðdvöl líkt og í síðari heimsstyrjöldinni á leið sinni frá Bandaríkjunum til Normandí í Frakklandi til þátttöku í hátíðahöldum í tilefni af því að 6. júní nk. verða liðin 75 ár frá innrásinni í Normandí.23. maí: Fyrirlestur Arnþórs Gunnarssonar um sögu Reykjavíkurflugvallar 
 

Fimmtudaginn 23. maí flytur Arnþór Gunnarsson sagnfræðingur, og höfundur bókarinnar Saga flugvalla og flugleiðsögu á Íslandi, erindi um sögu Reykjavíkurflugvallar. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrarsal Hótels Reykjavík Natura (áður Hótel Loftleiðir) á Reykjavíkurflugvelli kl 17:30 og er öllum opinn.

Fjallað verður um flugvallargerðina á árum síðari heimsstyrjaldar, þróun flugvallarins og langvinnar deilur um staðsetningu og starfsemi Reykjavíkurflugvallar allt frá því að Bretar gerðu flugvöllinn. Arnþór mun varpa nýju og skýrara ljósi á ýmsa þætti málsins, meðal annars áhrif flugvallarins á þróun miðbæjarins. Að lokum verður vikið að stöðu flugvallarmálsins í dag og spurt, í ljósi sögunnar, hvort raunhæf lausn sé í sjónmáli.

Arnþór Gunnarsson er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur. Hann er með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og MS-próf í ferðamálafræði frá sama skóla. Arnþór hefur ritað greinar og bækur um söguleg efni, m.a. Sögu Hafnar í Hornafirði (1997 og 2000), Guðna í Sunnu. Endurminningar og uppgjör (2006) og Lífæðina/Lifeline (2017) ásamt portúgalska ljósmyndaranum Pepe Brix. Arnþór vinnur nú að ritun Hæstaréttar Íslands.

 Bókin Saga flugvalla og flugleiðsögu á Íslandi fjallar með ítarlegum hætti um þá mikilvægu þætti í heillar aldar sögu flugs í landinu. Bókin kom út á síðasta ári og hlaut mjög góðar viðtökur. Hún er öllum aðgengileg að kostnaðarlausu á veffanginu: https://rafhladan.is/handle/10802/16752

28. maí:  Söguganga undir leiðsögn Friðþórs Eydal  

Þriðjudaginn 28. maí bíður Isavia öllu áhugafólki um þessa sögu í fræðslugöngu um Öskjuhlíð og Nauthólsvík undir leiðsögn Friðþórs Eydal, sem er starfsmaður félagsins og hefur ritað fjölda bóka um hersetuna og umsvif erlendra herja á Íslandi. Upphaf Reykjavíkurflugvallar má rekja til hersetu landsins í síðari heimsstyrjöld. Hann er raunar, ásamt Keflavíkurflugvelli, minnismerki um þá víðsjárverðu tíma sem skópu örlög heimsins og íslensku þjóðarinnar. Á flugvellinum og í næsta nágrenni við hann eru víða merki um margvísleg umsvif á stríðsárunum, einkum í Öskjuhlíð og Nauthólsvík þar sem allmargar minjar um þessa merku sögu hafa verið merktar á viðeigandi hátt með glæsilegum söguskiltum.

Gangan hefst við flugturninn á Reykjavíkurflugvelli kl. 17.30 og lýkur á sama stað kl. 19.

1. júní: Flugdagurinn 2019

Flugdagurinn er haldinn hátíðlegur á Reykjavíkurflugvelli af tilefni aldarafmæli flugs á Íslandi.