Saga Isavia

Flugmálastjórn Íslands

Flugmálastjórn Íslands var stofnuð árið 1945 og tók við rekstri Reykjavíkurflugvallar og flugstjórnarmiðstöðvarinnar af breska flughernum árið eftir. Við tímabundið brotthvarf bandaríska herliðsins frá Keflavíkurflugvelli árið 1947 tók Flugmálastjórn einnig við ýmsum þáttum í rekstri flugvallarins með bandaríska flugvallarfyrirtækinu svo sem hluta flugumferðarstjórnar og rekstur flugstöðvarinnar. Þetta skipulag hélst til ársins 1953 er öll umsvif íslenska ríkisins á Keflavíkurflugvelli og umsjón með samskiptum við bandaríska varnarliðið færðust til utanríkisráðuneytisins.

Aðskilnaður flugleiðsögu og flugvallareksturs frá stjórnsýslu og eftirliti

Skipan flugmála á Íslandi breyttist árið 2006 með lögboðnum aðskilnaði flugleiðsöguþjónustu og flugvallareksturs frá stjórnsýslu- og eftirlitsstarfsemi Flugmálastjórnar. Breytinguna má rekja til breytinga sem orðið höfðu í umhverfi flugsamgangna og nýrra krafna Alþjóðaflugmálastofnunarinnar og Evrópusambandsins um aðskilnað rekstrar- og eftirlitshlutverks í flugþjónustu. Nýtt opinbert hlutafélag, Flugstoðir ohf., tók við rekstri íslenskra flugvalla og flugleiðsöguþjónustu utan Keflavíkurflugvallar í ársbyrjun 2007, þar með talið flugleiðsöguþjónustu í alþjóðaflugi.

Sameining Keflavíkurflugvallar og Flugstoða

Skömmu eftir stofnun Keflavíkurflugvallar ohf. skipaði samgönguráðherra starfshóp til þess að kanna kosti sameiningar Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstoða ohf. með tilliti til aukinnar hagkvæmni, skilvirkni, fagþekkingar og þjónustu í stjórnun flugvalla og flugleiðsöguþjónustu ásamt jákvæðri byggðaþróun í landinu. Lagði starfshópurinn til að stefnt skyldi að sameiningu félaganna sem fyrst og voru lög þess efnis samþykkt á Alþingi í desember 2009.

Isavia ohf.

Samgönguráðherra gekkst fyrir stofnun nýs opinbers hlutafélags, Isavia ohf., sem tók við öllum rekstri, eignum og skuldbindingum Flugstoða og Keflavíkurflugvallar hinn 1. maí 2010. Félagið rekur alla flugvelli og flugleiðsöguþjónustu landsins og annast uppbyggingu þeirra með tilheyrandi flugstöðvum og mannvirkjum ásamt því að byggja upp og annast rekstur starfsemi sem er í beinum tengslum við flugrekstur. Fjármálaráðherra fer með hlut ríkisins í félaginu en innanríkisráðherra ber ábyrgð á faglegri stefnumótun í samvinnu við stjórn félagsins. Samgöngustofa fer með stjórnsýslu og eftirlit með loftferðastarfsemi félagsins.  

Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum Isavia gullmerki PWC Tern Systems Fríhöfnin