Hoppa yfir valmynd
18.11.2021
Isavia hlýtur ISO 14001 umhverfisvottun

Isavia hlýtur ISO 14001 umhverfisvottun

Isavia hlaut á dögunum ISO 14001 umhverfisvottun. Við innleiðingu á þessum umfangsmikla umhverfisstjórnunarstaðli voru umhverfisþættir í starfsemi fyrirtækisins greindir, komið á vöktun og stýringu fyrir hvern þeirra og sett markmið um að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum.

„Vöktun á umhverfisþáttum sem tengdir eru rekstri Isavia eru órjúfanlegur hluti af starfsemi fyrirtækisins,“ segir Hrönn Ingólfsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Isavia. „Umhverfisstjórnunarkerfið myndar heildstæða umgjörð um þessa þætti og með því lágmörkum við áhættuna af því að starfsemi Isavia valdi neikvæðum umhverfisáhrifum.“

Innleiðing á ISO 14001 umhverfisstjórnunarstaðlinum er afar krefjandi ferli fyrir öll fyrirtæki, sér í lagi þau sem eru með umfangsmikinn og flókinn rekstur. „Að slíkri innleiðingu koma starfsmenn á öllum stigum og hver og einn verður að leggja sitt af mörkum til að sem mestur árangur náist fyrir fyrirtækið og samfélagið. Ég vil þakka öflugu starfsfólki Isavia fyrir þann góða árangur sem við höfum náð í umhverfismálum,“ segir Hrönn.

„Isavia hefur sett sér metnaðarfull markmið varðandi sjálfbærni og þá er virkt umhverfisstjórnunarkerfi mjög góð leið til að vinna stöðugt að þeim,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. „Með þessari nýju vottun er tryggt að við missum ekki sjónar á okkar skýru markmiðum. Við vinnum með skipulögðum hætti að stöðugum umbótum í umhverfismálum. Markmiðið er að starfsemi okkar á  Keflavíkurflugvallar verði kolefnislaus árið 2030.“

„Það skiptir miklu máli fyrir Isavia að hafa vottað umhverfisstjórnunarkerfi. ISO 14001 vottunin nær þó ekki bara yfir núverandi starfsemi Isavia heldur einnig til þeirra framkvæmda sem nú standa yfir á Keflavíkurflugvelli,“ segir Hrönn Ingólfsdóttir. „Vottunin er enn ein staðfestingin á því að Isavia leggur mikla áherslu á sjálfbærni í starfseminni."