Hoppa yfir valmynd
18.4.2024
Eitt stærsta sumarið á Keflavíkurflugvelli fram undan

Eitt stærsta sumarið á Keflavíkurflugvelli fram undan

Sumarið verður viðburðaríkt á Keflavíkurflugvelli (KEF) og munu 8,5 milljónir gesta fara um völlinn á árinu samkvæmt farþegaspá flugvallarins. Spáin gerir ráð fyrir að um 2,4 milljónir erlendra ferðamanna komi til landsins um flugvöllinn. Gangi spáin eftir verður árið í ár það þriðja stærsta í sögu KEF og það stærsta í komu erlendra ferðamanna til landsins.

Að meðaltali munu 178 flug fara daglega frá KEF yfir sumartímabilið. Hægt verður að fljúga til 82 áfangastaða og munu 26 flugfélög fljúga beint frá KEF í sumar. Flugfélögin bæta við áfangastöðum fyrir sumarið og verður hægt að fljúga beint til Pittsburg, Halifax og Vágar með Icelandair, Split og Vilnius með Play, Stuttgart með Eurowings og Newark með United. Auk þess bætist við nýtt flugfélag með nýjan áfangastað í sumar en kanadíska flugfélagið WestJet hefur flug til Calgaray.

Kanadíska flugfélagið WestJet hefur beint flug frá KEF til Calgary í sumar.

„Við hlökkum til að taka á móti enn fleiri gestum þetta sumarið. Farþegaspáin gerir ráð fyrir að yfir sumarmánuðina, apríl til október, muni farþegum fjölgi um 391 þúsund sem er 7,2% aukning á milli ára,“ segir Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar. „Það er líka gaman að sjá að flugfélögin hafi trú á Íslandi sem áfangastað, sem dæmi er WestJet að hefja beint flug til KEF frá Calgary, United frá Newark og Eurowings frá Stuttgart.“

Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar.

Íslensku flugfélögin boða breytingar í sumar. Icelandair mun slá öll met í fjölda flugferða frá upphafi hjá flugfélaginu. Flugferðum Icelandair mun fjölga um 8% frá sumrinu 2023 og 20% frá 2019. Þá mun sætaframboð aukast um 5% frá fyrra ári. Icelandair verður með þrjá nýja áfangastaði í sumar til Pittsburg, Halifax og Vágar í Færeyjum. Play mun einnig bjóða upp á flestar ferðir og sætaframboð frá upphafi hjá sér og mun þeim fjölga um 5% frá síðasta sumri. Tveir nýir áfangastaðir verða í boði í sumar hjá Play sem eru Vilnius og Split.

Hjá alþjóðlegu flugfélögunum verða sömuleiðis ýmsar breytingar í sumar. Flugfélagið WestJet hefur flug í fyrsta skipti frá kanadísku borginni Calgary í sumar. Finnair býður upp á 40% aukningu í fjölda ferða og sætaframboði frá síðasta sumri og mun fljúga daglega frá finnsku höfuðborginni Helsinki til KEF. Air Canada eykur flugferðir og sætaframboð um 43% frá fyrra ári, með því að bæta við 3 ferðum vikulega yfir sumarið. United Airlines hefur aftur flug frá Newark í New York eftir eins árs pásu. Eurowings bætir við Stuttgart sem áfangastað.

Flogið verður sex sinnum daglega til Kaupmannahafnar, London, París og New York yfir sumarið og fjórum sinnum dag hvern til Boston og Amsterdam. Hreyfingar til og frá Keflavíkurflugvelli í sumar, komur og brottfarir samanlagt, verða rúmlega 37 þúsund talsins. Það er 5% aukning frá því í fyrra og 36% aukning frá því sem var sumarið 2019. Heildarframboð sæta er 6,7 milljónir sem er 4% aukning frá því í fyrra og 26% aukning frá 2019.