Hoppa yfir valmynd
29.4.2015
Nýtt gjaldafyrirkomulag vegna leigubíla við Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Nýtt gjaldafyrirkomulag vegna leigubíla við Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Nýtt gjaldafyrirkomulag verður tekið í notkun vegna leigubíla við Flugstöð Leifs Eiríkssonar 5. maí næstkomandi. Gjaldið er sett á til að stýra betur umferðarskipulagi í kringum flugstöðina, ásamt því að bæta aðstöðu fyrir bílstjóra. Aðgangsstýrt svæði hefur verið sett upp ætlað leigubílstjórum og  aðeins þeir sem hafa leyfi til aksturs leigubifreiða geta keypt aðgang þar að. Þannig er verið að koma til móts við það sem leigubílstjórar hafa óskað eftir, að aðeins þeir sem hafa réttindi til aksturs leigubíla gefið út af Samgöngustofu fái aðstöðu upp við flugstöðina.

Gjaldinu stillt í hóf

Gjaldskráin sem sett hefur verið upp býður upp á þrjá mismunandi valkosti og er gjaldinu stillt í hóf. Fyrsti valkosturinn er árskort sem kostar 120.000 krónur, kostur tvö er mánaðarkort fyrir 15.000 krónur og þriðji kosturinn er stök ferð sem kostar 490 krónur. Gera má ráð fyrir að kostnaður fyrir þá bílstjóra sem aka hvað mest verði um 100-150 krónur á ferð kaupi þeir árskort. Flestir flugvellir í kringum okkur taka gjöld fyrir sambærilega þjónustu, en þeirra gjöld eru þó mun hærri.  

Gott samstarf

Isavia hefur verið í viðræðum við bifreiðastjórafélögin um nokkurt skeið og hefur haldið fundi með þeim öllum. Samstarfið hefur verið gott og úr þessu samráði komu félögin meðal annars með hugmyndir að breytingu á fyrstu drögum að gjaldskránni sem tekið var tillit til og bætti gjaldskrána. Sala á aðgangskortum fyrir leigubílstjóra er þegar hafin og hefur farið vel af stað og hafa leigubílstjórar frá öllum leigubílastöðvum keypt aðgang.