Hoppa yfir valmynd
22.3.2024
Nýir söfnunarbaukar komnir á flugvöllinn

Nýir söfnunarbaukar komnir á flugvöllinn

Keflavíkurflugvöllur er í stöðugri þróun sem miðar að því að bæta aðstöðu á flugvellinum og veita gestum enn betri upplifun. Mikill fjöldi gesta leggur leið sína um flugvöllinn en að meðaltali fara um 21 þúsund gestir daglega um völlinn. Keflavíkurflugvöllur vill láta gott af okkur leiða og hafa verið settir upp sex söfnunarbaukar fyrir góðgerðarfélög í flugstöðinni þannig að félögin geti notið góðs af fjárframlögum gesta.

Sex góðgerðarfélög fengu úthlutað

Einstök börn er stuðningsfélag barna með sjaldgæfa sjúkdóma og heilkenni

Keflavíkurflugvöllur leggur áherslu á jafnt aðgengi góðgerðarsamtaka að flugstöðinni til mögulegrar fjáröflunar fyrir góð málefni. Í ársbyrjun var opnað fyrir umsóknir góðgerðafélaga, sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, um söfnunarbauka sem eru staðsettir í flugstöðinni. Alls sóttu þrjátíu félög um söfnunarbauk og voru sex félög dregin út.

Góðgerðarfélögin sem voru dregin út í ár eru MS félag Íslands, Einstök börn, Hjálparstarf kirkjunnar, Barnaheill, SÁÁ og Vildarbörn ferðasjóður. Söfnunarbaukum þeirra hefur verið dreift á fjölfarna staði í flugstöðinni á mismunandi svæðum.

Söfnunarbaukarnir taka við seðlum og klinki frá ferðamönnum

Keflavíkurflugvöllur útvegar góðgerðarfélögum söfnunarbauk sem eru merktur viðkomandi félagi. Söfnunarbaukarnir voru hannaðir af auglýsingastofunni Brandenburg og smíðaðir hjá Irma Studio.

Úthlutað söfnunarbaukum árlega

Góðgerðarfélögin sem voru dregin út fengu öll úthlutað sínum söfnunarbauk til eins árs. Þau félög sem fengu úthlutað bauk geta síðan ekki sótt um í næstu úthlutun svo að önnur góðgerðarfélög komist að.

Úthlutað er á hverju ári söfnunarbaukum og verður opnað fyrir umsóknir í lok þessa árs fyrir næstu úthlutun árið 2025 á heimasíðu Keflavíkurflugvallar.