Hoppa yfir valmynd

AIP Iceland appið

AIP ICELAND APPIР

22/04/2021: Vegna uppfærslu á kerfum er AIP Iceland appið ekki virkt. Í því er einungis að finna upplýsingar um NOTAM og slóð inn á https://eaip.isavia.is/. Fyrir frekari upplýsingar sjá AIC A 012 / 2021.

„AIP Iceland“ er smáforrit sem gefið er út með það að markmiði að auðvelda aðgengi að Flugmálahandbók Íslands (AIP), upplýsingabréfum (AIC) og NOTAM skeytum. Það er nú fáanlegt án endurgjalds í App Store fyrir IOS síma og í Play Store fyrir Android síma.

Flugmálahandbók Íslands er gefin út rafrænt á netinu, sjá  https://eaip.isavia.is/.

Í Flugmálahandbókinni eru birtar upplýsingar um íslensk flugmál, flugleiðsögukerfi og flugvelli. Flugmálahandbókin og smáforritið eru gefin út á ensku og íslensku.

Með smáforritinu má skoða HTML-útgáfu af Flugmálahandbók Íslands (AIP) og hlaða niður PDF-skjölum bókarinnar, kort eru þó einungis aðgengileg sem PDF-skjöl. Einnig má skoða NOTAM skeyti sem eru í gildi.

Til þess að virkja smáforritið þarf einungis að sækja það, engrar auðkenningar er krafist.

Eftir að smáforritið hefur verið sett upp er hægt að nálgast HTML-útgáfu Flugmálahandbókarinnar hvort sem að snjalltæki er í netsambandi eða ekki. Notandinn sér hvort nettenging er virk og stjórnar hann því hvaða gögn eru sótt til vistunar á snjalltækið. Sótt PDF-skjöl eru aðgengileg án netsambands.

Hægt er að „stjörnumerkja“ uppáhalds skjöl sem auðveldar aðgengi að þeim gögnum sem notandinn þarf helst að nálgast. Á auðveldan hátt má einnig leita í efni bókarinnar og NOTAM-skeytum.

Notandinn ber ábyrgð á því að uppfæra smáforritið en tilkynningar um nýjar útgáfur eiga að birtast í smáforritinu. Nánari notendaskilmála má sjá hér.

SPURT OG SVARAÐ

Í hvaða tækjum virkar Appið?

Appið virkar á tækjum sem keyra stýrikerfin Android 4.0 eða nýrra og iOS 7 eða nýrra.

Kostar Appið eitthvað?

Nei, Appið sjálft kostar ekkert. Þó skal tekið fram að gagnaflutningur með 3G/4G og WiFi-neti fer eftir verðskrá viðkomandi þjónustuaðila.

Notar Appið mikið gagnamagn?

Nei, Appið sjálft er um 4 Mb af stærð. Gögnin sem Appið sækir í byrjun eru í kringum 10 – 15 Mb (þ.e. Flugmálahandbókin (AIP) og NOTAM). Ef notandi kýs að vista gögn á PDF-sniði þá er gagnamagnið meira.

Appið virkar ekki hjá mér, hver er líklegasta útskýringin?

1. Stýrikerfi tækis of gamalt. Sjá nánar „Í hvaða tækjum virkar Appið“.

2. Ekki er pláss fyrir gögnin á tækinu. Hægt er að setja upp Appið og tækið kvartar ekki en það þarf að passa að pláss sé fyrir viðbótargögn. Ef þetta er ástæðan ætti Appið að koma með skilaboð um að ekki sé pláss á tækinu. Upplýsingar um gagnamagn má sjá undir „Notar Appið mikið gagnamagn“.

3. Tækið er tengt við WiFi-net en það nær samt ekki tengingu við internetið. Þetta getur gerst ef WiFi-netið er notendavarið og tengingar renna út.

Virkar Appið ekki án nettengingar?

Þegar Appið og gögn eru sótt í fyrsta sinn er nauðsynlegt að vera með nettengingu. Eftir það er hægt að nálgast flest gögn án nettengingar. Nauðsynlegt er að ná í kort á PDF-sniði ef nota skal kort án nettengingar.

Ef ný útgáfa af Flugmálahandbókinni (AIP) er gefin út þegar Appið er ekki tengt neti ættu skilaboð um það að birtast í Appinu.

NOTAM-skeyti uppfærast á 30 mínútna fresti ef nettenging er á, ef tækið er án nettengingar sjást einungis NOTAM-skeyti frá þeim tímapunkti sem tækið var síðast tengt. Appið á þó að láta vita ef NOTAM-skeyti eru orðin meira en fjögurra klukkustunda gömul.

Er hægt að skipta um tungumál í Appinu eftir að það er sótt?

Já það er gert með því að fara í „Stillingar“ og breyta því sem valið er undir tungumál.

Hvernig veit ég að ég sé með nýjustu útgáfu Flugmálahandbókarinnar?

Neðst í Appinu má sjá upplýsingar um þá útgáfu sem er í tækinu (Núverandi útgáfa). Einnig er hægt að sjá hvenær von er á nýrri (Næsta útgáfa).


Hvar finn ég kort?

Kort eru ekki á hefðbundnum stað undir köflunum sjálfum, heldur hefur þeim verið safnað saman í sér kortahluta. Hann er aðgengilegur frá fyrstu síðu Appsins.


Þarf ég að sækja PDF útgáfur af gögnunum?

Ef að tækið er tengt internetinu þá þarf ekki að sækja PDF útgáfur af gögnunum til vistunar. Ef nota skal Appið án netsambands þá er nauðsynlegt að vera búin að sækja þau kort sem á að nota.

Hvort önnur skjöl eru sótt á PDF-sniði er svo val notanda.

Hvernig sæki ég PDF útgáfur af skjölunum?

Inni í öllum skjölum er „PDF hnappur“ sem ýtt er á til þess að ná í PDF útgáfu af skjalinu. Þessi hnappur er efst til hægri. Þegar PDF útgáfa hefur verið vistuð verður þessi hnappur grár.

Öll vistuð PDF skjöl má finna undir „Sótt PDF skjöl“. Hægt er að tæma öll gögn úr „Sótt PDF skjöl“ með því að fara í stillingar.

Get ég nálgast þau skjöl sem ég nota oftast á auðveldan hátt?

Já hægt er að „stjörnumerkja“ skjöl og þá safnast þau saman undir „Mín skjöl“. Skjöl eru „stjörnumerkt“ með því að ýta á stjörnuna sem er bæði staðsett á stikunni við hliðina á nafni skjals, eða efst til hægri þegar skjal er opnað (við hlið PDF merkis). Fyllt stjarna merkir að skjalið hefur þegar verið valið og er að finna í „Mín skjöl“.

Tæma má allt úr „Mín skjöl“ með því að fara í stillingar.

Get ég treyst því að þau NOTAM sem ég sé í Appinu séu í gildi?

Þau NOTAM skeyti sem þú sérð í Appinu er gild á þeim tímapunkti sem síðast var uppfært á. Upplýsingar um það eru ávalt sjáanlegar á heimaskjá Appsins.


Appið uppfærir NOTAM á 30 mínútna fresti. Ef tæki hefur ekki verið nettengt í lengri tíma þá á Appið að láta vita ef NOTAM skeyti eru orðin meira en 4 klukkustunda gömul.