Hoppa yfir valmynd

100 ára afmæli flugs á Íslandi

Stiklað á stóru í flugsögunni

ÁÆTLUNARFLUG Á ÍSLANDI 1928

Upp úr miðjum þriðja áratugnum komst aftur hreyfing á íslensk flugmál. Dr. Alexander Jóhannesson kennari við Háskóla Íslands og síðar rektor skólans var óþreytandi að berjast fyrir framgangi flugs. Íslendingar ferðuðust mikið með strandferðaskipum á milli landshluta og fóru fótgangandi eða ríðandi. Opinberir aðilar sýndu málinu ekki þann áhuga sem Alexander vænti sneri hann sér til þýska flugfélagsins Deutsche Luft Hansa og þýska atvinnumálaráðuneytisins með þeim árangri að félagið tók að sér að starfrækja á eigin kostnað reglubundið áætlunarflug á Íslandi sumarið 1928 undir merkjum Flugfélags Íslands. Íslensk stjórnvöld lögðu þó framtakinu lið í formi hlutafjár.

 Næstu þrjú ár starfrækti félagið eina og stundum tvær sjóflugvélar með flotholtum af gerðinni Junkers F-13 en víða voru hentugir lendingarstaðir inni á fjörðum, víkum og vogum. Á starfstíma félagsins flutti það samtals tæplega 2000 farþega (fyrir utan útsýnisflug) og lentu flugvélarnar á 40–50 stöðum. Flugfélagið komst í þrot árið 1931 og lagðist flugstarfsemi niður um nokkurra ára skeið í kjölfarið.

 Á myndinni má sjá veiðibjölluna, Junkers F-13 flugvél Flugfélags Íslands sem starfrækt var á árunum 1928–1931. Félagið notaði eingöngu sjóflugvélar af þessari gerð. Þetta voru sterkbyggðar einþekjur úr málmi, tóku fjóra farþega í lokaðan klefa og voru með tveggja sæta hálflokaðan stjórnklefa. Junkers F-13 var mikið notuð í almennu flugi víða um heim á millistríðsárunum og var ýmist búin hjólum, flotholtum eða skíðum.

1931

Í upphafi flugvélaaldar lá mesta flutningaleið úthafanna um Norður-Atlantshaf. Þótt flugrekendur næðu aðeins broti af viðskiptum skipafélaganna var eftir miklu að slægjast. Af öryggisástæðum var talið æskilegt að fljúga sem minnst yfir opnu hafi og beindi það sjónum manna að svokallaðri norðurleið um Kanada, Grænland og Ísland. Varð hnattflugsleiðangur Bandaríkjahers fyrstur til að fljúga þessa leið árið 1924. Í kjölfarið lögðu nokkrir flugkappar og flugsveitir leið sína til Íslands. Í sumum tilvikum voru á ferðinni flugmenn í ævintýraleit en aðrir leiðangrar voru gagngert farnir til að kanna norðurleiðina.

 Sjóflugvél Transamerican Airlines Corporation af gerðinni Bellanea CH-200 Pacemaker við Zimsenbryggju í Reykjavíkurhöfn 7. ágúst 1931. Kolakraninn í baksýn. Flugmaðurinn, Parker Cramer, var sendur til að kanna skilyrði til flugs yfir norðanvert Atlantshaf en mistókst að ljúka ætlunarverkinu og fórst í Norðursjó ásamt Oliver Paquette loftskeytamanni.

Flugmálaráðunautur ríkisins 1936

Árið 1936 lauk liðlega tvítugur Íslendingur, Agnar Eldberg Kofoed-Hansen, flugnám hjá danska flotanum, og réði atvinnu- og samgöngumálaráðherra hann til embættis flugmálaráðunauts ríkisins. Agnar var óþreytandi að kynna flugmál fyrir landsmönnum og hvetja þá til dáða í að innleiða þessa nýju samgöngutækni.

Umsvif í flugi árið 1938

Árið 1938 voru mikil umsvif í flugi á Íslandi. Þýskur svifflugleiðangur kom til landsins í júnímánuði með svifflugur og eina vélflugu í boði Svifflugfélags Íslands. Við brottför Þjóðverjanna keypti íslenska ríkið og Flugmálafélag Íslands vélfluguna, eins hreyfils landflugvél af gerðinni Klemm KL-25. Hafði Agnar Kofoed Hansen, flugmálaráðunautur ríkisins forgöngu um leit að heppilegum lendingarstöðum fyrir landflugvélar í september sama ár.

 Agnar Kofoed Hansen og Bergur G. Gíslason urðu fyrstir til að lenda landflugvél í Vestmannaeyjum 1. október 1938.

Hópflug C-47 flugvéla sumarið 1942

Hópflug C-47 flugvéla sumarið 1942.  Á myndinni sjást m.a. allmargar C-47 flutningaflugvélar og B-17 sprengjuflugvélar 8. flughersins sem höfðu viðdvöl á Reykjavíkurflugvelli á leiðinni til Bretlands 23. júlí 1942. Margar slíkar fóru einnig um Pattersonflugvöll í Njarðvíkum þetta sumar en millilandaflug Bandaríkjahers fluttist síðan að langmestu leyti til Meeksflugvallar á Háaleiti (Keflavíkurflugvallar) þegar hann var tekinn í notkun sumarið eftir. 

1940

Erlendir flugleiðangrar höfðu alloft viðdvöl hér á landi á fjórða áratugnum en atvinnuflug lá niðri til ársins 1938. Það ár keypti Flugfélag Akureyrar, sem stofnað hafði verið árið áður, fimm manna Waco YKS-7 Cabin-flugvél frá Bandaríkjunum. Flugvélin var búin með flotum til lendingar á sjó. Félagið var lagt niður í mars 1940 og endurreist sem Flugfélag Íslands hið þriðja síðar sama ár.

 Kristinn Jónsson afgreiðslumaður Flugfélags Akureyrar (t.v.) og Agnar Kofoed-Hansen flugmaður bera póstpoka í land úr Wacoflugvél flugfélagsins, TF-ÖRN.

Hermann Jónasson forsætisráðherra hafnar beiðni Þjóðverja um flugréttindi á Íslandi í aðdraganda síðari heimsstyrjaldar.

Lífseig er sagan um hugprýði Íslendinga í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar þegar Hermann Jónasson þáverandi forsætisráðherra á að hafa spyrnt við fótum gegn ágangi Þriðja ríkisins. Reyndar er nokkuð til í sögunni en ekki á svo einfaldan hátt sem oft hefur verið látið liggja að.  

Grunnur var lagður að reglubundnum flugferðum yfir Atlantshaf á fjórða áratugnum að frumkvæði breskra, bandarískra og kanadískra flugfélaga og stjórnvalda sem gerðu með sér samkomulag um flug á þessari leið árið 1935. Nægilega stórar og langdrægar landflugvélar höfðu þá ekki verið smíðaðar en stórir flugbátar voru notaðir í farþega- og póstflugi á fjarlægum leiðum. Hófst flug á flugbátum yfir Atlantshaf í tilraunaskyni í júlí 1937. Flugleiðin var um 1.900 sjómílur og tók að jafnaði 15 klukkustundir.

 Þýska flugfélagið Lufthansa hafði veitt Flugfélagi Íslands hinu fyrsta ýmsa aðstoð og fyrirgreiðslu í lok þriðja áratugarins og hafði félagið fengið svonefnd bestukjararéttindi til flugs til landsins og í íslenskri lofthelgi. Réttindin féllu niður þegar Flugfélag Íslands hætti starfsemi sinni en Lufthansa fékk þau framlengd árið 1932 með ákveðnum skilyrðum til ársins 1940.

 Árið 1932 var bandaríska flugfélaginu Trans-American Airlines einnig veitt heimild til loftferða á Íslandi. Félagið framseldi heimildina Pan American Airways Company en hún féll niður í árslok 1936 þar sem félagið hafði þá ekki hafið áætlunarflug milli Íslands og annarra landa. Var félaginu veitt nýtt leyfi árið eftir til 50 ára að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem félagið uppfyllti þó aldrei.

 Svo lengi sem amerísku flugfélögin höfðu umrædd réttindi, sem veitt voru með sérstakri lagasetningu, hafði þýska flugfélagið Lufthansa átt tilkall til sams konar réttinda. Gerði félagið tilkall til flugréttinda árið 1939. Hugðist það hefja flug til Norður-Ameríku á fjögurra hreyfla landflugvélum af gerðinni Focke-Wulf Fw 200 Condor og sendi viðræðunefnd til landsins í marsmánuði sama ár. Mál sitt byggðu ráðamenn Lufthansa á bestukjararéttindunum frá 1932 en ríkisstjórnin hafnaði því að um forgangsrétt hefði verið að ræða enda skilyrði ekki uppfyllt. Ekkert erlent flugfélag hefði slíkan rétt og stefna ríkisstjórnarinnar væri sú að veita engin flugréttindi að svo stöddu sökum þess hversu ófriðlega horfði í heiminum.

 Málið vakti mikla athygli, m.a. sökum þess að kurteisisheimsókn skólaskips þýska flotans og tveggja kafbáta til Reykjavíkur bar að á svipuðum tíma. Auk þess fréttist af fyrirhuguðum þýskum vísindaleiðangri til landsins þá um sumarið. Voru heimsóknirnar tengdar saman og gjarna túlkaðar sem þrýstingur á íslensk stjórnvöld til þess að veita Þjóðverjum aðstöðu til flugs sem mikilvæg gæti reynst þeim í væntanlegri styrjöld og sókn til heimsyfirráða. Slíkt var orðum aukið en fréttir af synjun íslenskra stjórnvalda flugu víða. Hlaut Hermann Jónasson forsætisráðherra hrós í erlendum fjölmiðlum fyrir að standa uppi í hárinu á Þjóðverjum sem höfðu þá rétt lokið við að innlima Tékkóslóvakíu þrátt fyrir loforð um hið gagnstæða frá árinu áður.

 Mynd: Hermann Jónasson fylgir Winston Churchill forsætisráðherra Breta til skips eftir stutta heimsókn hans til Reykjavíkur sumarið 1941.