Isavia Innanlandsflugvellir ehf. sér um rekstur íslenskra áætlunarflugvalla annarra en Keflavíkurflugvallar. Félagið rekur þrjá flugvelli sem tekið geta við millilandaflugi, Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll auk níu minni flugvalla og lendingarstaða fyrir reglubundið áætlunarflug innanlands. Félagið hefur einnig umsjón með 30 öðrum lendingarstöðum um land allt.
Skrifstofur Isavia Innanlandsflugvalla ehf. eru á Reykjavíkurflugvelli. Framkvæmdastjóri Innanlandsflugvalla er Sigrún Björk Jakobsdóttir.
Hjá félaginu vinnur samhentur hópur að fjölbreyttum verkefnum. Starfsemin nær allt frá almennri flugvallarþjónustu, flugumferðarþjónustu, flugvernd, umsjón með verklegum framkvæmdum auk öryggis og gæðamála. Reksturinn grundvallast á þjónustusamningi félagsins við innviðaráðuneyti sem ákvarðar þjónustustig flugvallanna, rekstur og viðhald, enda er um að ræða hluta af almennings samgöngukerfi sem er í eigu ríkisins.
Gildi Isavia Innanlandsflugvalla eru öryggi, þjónusta og samvinna.