Hoppa yfir valmynd

Mannauðs- og jafnréttisstefna

Tilgangur og umfang

Mannauðs- og jafnréttisstefnan tekur til allrar starfsemi Isavia og dótturfélaga, starfsfólk skal virða hana í öllum störfum sínum fyrir félagið. Mannauðs- og jafnréttisstefnan byggir á stefnu Isavia og uppfyllir kröfur í lögum og reglugerðum.


Stefna og markmið

Félagið leggur áherslu á að starfsfólk sýni hvert öðru virðingu og sé heiðarlegt gagnvart sjálfu sér og öðrum. Félagið er í fararbroddi sem vinnustaður þar sem jafnrétti og traust ríkir. Stefna okkar í mannauðs- og jafnréttismálum er að skapa gott starfsumhverfi þar sem starfsfólk er hvatt til að viðhalda gleðinni, vera hugrakt, uppbyggilegt og um leið að taka ábyrgð á eigin frammistöðu. Við náum árangri sem ein heild.

Öflug stjórnun

Við gerum kröfu til allra sem sinna stjórnunar- og leiðtogahlutverki að þau komi fram af virðingu, stuðli að valdeflingu,séu hvetjandi og byggi upp traust og góða liðsheild. Stjórnendur og leiðtogar ganga fram með góðu fordæmi með því að hafa skýra framtíðarsýn og veita
reglulega og uppbyggilega endurgjöf til starfsfólks um stefnu, hlutverk, árangur og markmið í starfi.

Ráðningar

Við vöndum vinnubrögð í ráðningum og gætum ávallt hlutleysis. Við leitumst eftir að hafa starfsfólk með fjölbreyttan bakgrunn þegar litið er til kyns, aldurs, menntunar og reynslu. Við val á starfsfólki er horft til þessara þátta en einnig til ríkjandi kynjahlutfalls í starfsmannahópum með það að markmiði að stuðla að fjölbreytileika mannauðs.

Við gerum starfsfólki kleift að þróast í starfi með tilfærslum milli starfa og með því að auglýsa öll laus störf, nema annað sé sérstaklega ákveðið í samræmi við verklag félagsins.

Móttaka starfsfólks og starfslok

Við tökum vel á móti nýju fólki og tryggjum að það fái viðeigandi upplýsingar, þjálfun og aðföng til að sinna starfi sínu vel frá fyrsta degi. Við kveðjum þau sem láta af störfum hjá félaginu með virðingu og leitumst við að hagsmunir starfsfólks og félagsinsfari saman við starfslok.

Þekking, fræðsla og starfsþróun

Við tryggjum að starfsfólk fái markvissa þjálfun svo það geti tekist á við störf sín af öryggi og ánægju. Fræðsla og þjálfun byggja á fyrirliggjandi kröfum og stefnu félagsins.

Við sköpum lærdómsmenningu með öflugu fræðslustarfi og hvatningu til starfsfólks til að taka ábyrgð á eigin þekkingu og hæfni. Öllu starfsfólki stendur til boða styrkir til náms utan fyrirtækisins til að efla sig enn frekar í starfi.

Starfsumhverfi

Við erum líflegur og áhugaverður vinnustaður þar sem aðbúnaður og aðstaða er eins og best verður á kosið. Við sköpum starfsumhverfi sem einkennist af gagnkvæmum sveigjanleika þar sem þarfir starfs- og fjölskylduábyrgðar fara saman.

Við sköpum og viðhöldum fyrirtækjamenningu sem einkennist af trausti þar sem starfsfólk fær umboð til athafna og tekur ábyrgð á eigin frammistöðu.

Samskipti og liðsheild

Samskipti okkar eru opin og heiðarleg og við komum fram við hvert annað af virðingu og leggjum hvert öðru lið við dagleg störf. Okkur er umhugað um líðan hvers annars og leggjum áherslu á jafnrétti, traust og heilsusamlegt starfsumhverfi. Við líðum hvorki né tökum þátt í
einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða annarskonar ofbeldi.

Við leggjum okkur fram við tryggja ánægju starfsfólks, fögnum sigrum og höfum gleðina ávallt að leiðarljósi.

Jafnrétti

Við stuðlum að jafnrétti í öllu okkar starfi og tryggjum að allt starfsfólk fái jöfn tækifæri og möguleika á að nýta hæfileika sína í starfi. Við leitum leiða til að tryggja jafnt kynjahlutfall bæði í hópi stjórnenda og starfsfólks.

Jöfn starfskjör

Við gætum fyllsta réttlætis við ákvörðun launa og tryggjum að allt starfsfólk fái greidd jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf óháð kyni.

Við skuldbindum okkur til að innleiða, skjalfesta og viðhalda jafnlaunakerfi í samræmi við
kröfur jafnlaunastaðalsins og íslenskra laga hverju sinni.