
Isavia ohf. annast rekstur og þróun Keflavíkurflugvallar en hjá félaginu starfa um 800 einstaklingar í áhugaverðum og skemmtilegum verkefnum. Starfsemin innan flugvallarins er mjög fjölbreytt og innan Isavia eru ríflega 100 starfsheiti.
Hjá okkur starfar frábært fólk og við leggjum mikla áherslu á að bjóða upp á gott og fjölskylduvænt starfsumhverfi, öfluga fræðslu og þjálfun og jákvæðan starfsanda.
Vinnustaðurinn
Við erum líflegur og áhugaverður vinnustaður þar sem aðbúnaður og aðstaða er eins og best verður á kosið. Við sköpum starfsumhverfi sem einkennist af gagnkvæmum sveigjanleika þar sem þarfir starfs- og fjölskylduábyrgðar fara saman.
Við sköpum og viðhöldum fyrirtækjamenningu sem einkennist af trausti þar sem starfsfólk fær umboð til athafna og tekur ábyrgð á eigin frammistöðu.
Starfstöðvarnar okkar eru tvær, höfuðstöðvarnar sem eru í Dalshrauni 3 í Hafnarfirði og svo hjartað í starfseminni sem er Keflavíkurflugvöllur.
Skrifstofur okkar eru að mestu leyti opið vinnurými. Allt skrifstofufólk er með fartölvur, tvo skjái og síma eftir þörfum. Allt flugvallarstarfsfólk fær viðeigandi fatnað og þann búnað sem það þarf til að sinna starfi sínu.
Líkamsrækt
Við leggjum ríka áherslu á bæði líkamlegt og andlegt heilsufar starfsfólks okkar. Við vinnum saman sem ein heild og styðjum hvert annað.
Allt okkar starfsfólk getur valið um að mæta sér að kostnaðarlausu í líkamsræktarstöðvar. Starfsmenn sem eru fastráðnir hafa einnig val um að fá árlegan líkamsræktarstyrk.
Í Dalshrauni er búningsaðstaða á 1. hæðinni með skápum og sturtuaðstöðu.
Á Keflavíkurflugvelli er líkamsræktaraðstaða fyrir starfsfólk.
Félagslífið
Það er nóg um að vera hjá okkur og við erum með öflugt starfsmannafélag, Staffið, sem sér um að okkur leiðist ekki. Dæmi um viðburði eru jólahlaðborð, pub - quiz, októberfest, golf, boð í leikhús, fjölskyldudagur og árlega árshátíðin okkar þar sem öllu er tjaldað til.
Samgöngur
Starfsfólk Isavia sem búsett er á höfuðborgarsvæðinu eða á Suðurnesjum eiga kost á að nýta vistvænan ferðamáta fram og tilbaka í vinnu.
Isavia rútan gengur alla virka daga frá höfuðborgarsvæðinu og á flugvallarsvæðið. Isavia rútan hentar helst þeim sem starfa í dagvinnu.
Starfsfólk sem er í vaktavinnu stendur einnig til boða að nýta sér áætlunarferðir Airport Direct sér að kostnaðarlausu. Rútan fer frá Skógarhlíð en stoppar einnig í Hamraborg í Kópavogi en einnig er hægt að nýta sér Pick-Up þjónustu til að komast í Skógarhlíð og þaðan til Keflavíkurflugvallar.
Mötuneyti
Á Keflavíkurflugvelli erum við með veitingastað í bistro anda fyrir starfsfólkið okkar og í Dalshrauni höfum við aðgang að frábæru mötuneyti hússins. Hádegismatur í mötuneytunum er niðurgreiddur af fyrirtækinu.
Vaktakerfi
Vaktakerfi óskavaktir
Óskavaktakerfi byggist upp á því að starfsmaður óskar sér vaktir/daga sem honum hentar að vinna innan tímabilsins, að uppfylltum skilyrðum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði svo sem því að hvíldartímaákvæði sé uppfyllt. Þegar óskir starfsmanns liggja fyrir eru óskir heildarinnar skoðaðar út frá mönnunarþörf hverju sinni og gerðar breytingar ef þurfa þykir. Markmið okkar er að mæta óskum starfsmanna að mestu leiti að lágmarki 50%.
Vaktakerfi 2-2-3
Vaktakerfið 2-2-3 er tveggja vikna vaktarúlla þar sem unnið er ýmist tvo eða þrjá daga og jafnmargir dagar á frívakt á móti. Vaktirnar eru 12 tímar en vinnutími fer eftir deildum. Tveggja vikna tímabil sem hefst alltaf á föstudegi lítur þá svona út: Frí föst, lau, sun. Vinna mán og þri. Frí mið og fim, vinna föst, lau og sun.
Vaktakerfi 5-5-4
Vaktakerfið 5-5-4 er vaktarúlla þar sem skipst er á að vinna fimm og fjóra daga í senn. Þá myndi starfsmaður byrja á því að vinna fimm daga, vera svo í fríi fimm daga og vinna fjóra daga. Svo vera í fríi fimm daga, vinna fimm og frí fjóra daga. Svona rúllar vaktin aftur og aftur. Vaktirnar eru 12 tímar en vinnutími fer eftir deildum.
Menningarsáttmálinn okkar
Við sýnum hvort öðru virðingu og erum heiðarleg gagnvart sjálfum okkur og öðrum. Við gætum þess að viðhalda gleðinni, erum hugrökk, uppbyggileg og tökum ábyrgð á eigin frammistöðu. Saman náum við árangri.
Við vonum að þetta hafi gefið þér smá innsýn inn í vinnuumhverfið hjá okkur. En það mikilvægasta af öllu, er að hjá Isavia starfar frábært fólk sem fagnar nýjum ferðafélögum og á eftir að taka vel á móti þér. Endilega sendu okkur umsókn ef þú ert í leit að nýju ævintýri.