Hoppa yfir valmynd

Um vinnustaðinn

Isavia sér um rekstur og þróun Keflavíkurflugvallar sem er einn stærsti og líflegasti vinnustaður landsins. Hér stíga landsmenn fyrstu skrefin í átt að nýjum ævintýrum og erlendir gestir hefja Íslandsdvöl sína eða halda leið sinni áfram út í heim. Keflavíkurflugvöllur eða KEF er stórt samfélag með umfangsmikla starfsemi. Öll vinnum við saman að því að tryggja einstaka upplifun fyrir viðskiptavini okkar, farþegana og flugfélögin sem eiga leið um flugvöllinn.

Að vinna hjá Isavia

Hjá okkur starfa um 900 einstaklingar við ólík og spennandi verkefni. Starfsemin er fjölbreytt og innan fyrirtækisins eru ríflega 190 mismunandi starfsheiti. Starfsfólkið er okkar helsti auður og við leggjum ríka áherslu á gott og fjölskylduvænt starfsumhverfi, öfluga fræðslu og þjálfun og jákvæðan starfsanda.   

Aðbúnaður og aðstaða er eins og best verður á kosið. Í starfsumhverfinu ríkir gagnkvæmur sveigjanleiki þar sem er stuðlað að jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Fyrirtækjamenningin einkennist af trausti þar sem starfsfólk tekur ábyrgð á eigin frammistöðu og fær tækifæri til að blómstra.

Við störfum á þremur starfsstöðvum. Skrifstofur fyrirtækisins eru í Dalshrauni 3 í Hafnarfirði og Krossmóa í Reykjanesbæ en hjartað í starfseminni er síðan sjálfur Keflavíkurflugvöllur.

Skrifstofurnar eru að mestu leyti opið vinnurými þar sem starfsfólk okkar notast við fartölvur, tvo skjái og síma eftir þörfum. Starfsfólk flugvallarins fær þægilegan vinnufatnað og allan þann búnað sem það þarf til að sinna starfi sínu.


Menningarsáttmálinn okkar

Við sýnum hvort öðru virðingu og erum heiðarleg gagnvart okkur sjálfum og öðrum. Við gætum þess að
viðhalda gleðinni, erum hugrökk, uppbyggileg og tökum ábyrgð á eigin frammistöðu. Saman náum við árangri. 

Samgöngur

Starfsfólk Isavia sem búsett er á höfuðborgarsvæðinu eða á Suðurnesjum hefur kost á að nýta vistvænan ferðamáta til og frá vinnu. Skrifstofurúta gengur alla virka daga frá höfuðborgarsvæðinu og á flugvallarsvæðið en hún hentar  þeim sem starfa í dagvinnu. Starfsfólki sem er í vaktavinnu stendur til boða að nýta sér áætlunarferðir Airport Direct eða Flugrútunnar sér að kostnaðarlausu.

Mötuneyti

Á Keflavíkurflugvelli og í Dalshrauni hefur starfsfólk aðgang að frábæru mötuneyti þar sem er boðið upp á hollan og góðan mat á hverjum degi, gott kaffi og góðan anda. Máltíðir í mötuneytinu eru niðurgreiddar af Isavia.

Vaktakerfi

Óskavaktir

Starfsfólk setur fram óskir um vaktir eða daga sem þeim hentar að vinna innan tímabilsins, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, t.d. varðandi hvíldartíma. Þegar óskir starfsfólks liggja fyrir eru óskir heildarinnar skoðaðar út frá mönnunarþörf hverju sinni og gerðar breytingar ef þurfa þykir. Markmið okkar er að mæta óskum starfsfólks að mestu leyti og að lágmarki 50%.

2-2-3

Tveggja vikna vaktarúlla þar sem unnið er ýmist tvo eða þrjá daga í senn og frídagar eru jafnmargir á móti. Vaktirnar eru 12 tímar en vinnutími fer eftir deildum. Vaktakerfið er sett upp í tveggja vikna tímabil sem raðast til dæmis svona: Frí frá föstudegi til sunnudags, vinna mánudag og þriðjudag, frí miðvikudag og fimmtudag, vinna frá föstudegi til sunnudags, frí mánudag og þriðjudag, vinna miðvikudag og fimmtudag.

5-5-4

Vaktarúlla þar sem skipst er á að vinna fimm eða fjóra daga í senn. Vaktirnar eru 12 tímar en vinnutími fer eftir deildum. Kerfinu er stillt upp þannig að starfsfólk byrjar á að vinna í fimm daga, er svo í fríi í fimm daga og vinnur síðan í fjóra daga. Því næst er frí í fimm daga, vinna í fimm daga og frí í fjóra daga.

Metnaðarfullt fræðslustarf

Í Isaviaskólanum tryggjum við að starfsfólk okkar fái viðeigandi þjálfun og öðlist þá hæfni sem þarf til að ná góðum árangri í störfum sínum. Um leið stuðlum að öryggi starfsfólks og vellíðan í starfi. Stærsti hluti þjálfunarinnar er skylduþjálfun vegna starfsleyfa.

Fjölbreytt námskeið eru í boði allan ársins hring, bæði skyldunámskeið og ýmis námskeið sem þar sem starfsfólk getur byggt upp og aukið persónulega hæfni. Efni fræðslunnar ræðst af því hvaða verkefni, markmið og áskoranir liggja fyrir á hverjum tímapunkti fyrir sig. 

Heilsan í fyrirrúmi

Við leggjum ríka áherslu á líkamlega og andlega heilsu starfsfólks okkar. Við vinnum saman sem ein heild og styðjum hvert annað. Innan fyrirtækisins er einelti og önnur sálfélagsleg áreitni, kynbundin eða kynferðisleg áreitni aldrei liðin og við höfum sett okkur metnaðarfulla viðbragðsáætlun til að skýra ferli mála.

Við ýtum undir heilbrigði starfsfólks með því að skapa gott starfsumhverfi og hvetjum til alhliða heilsueflingar ásamt því að veita fræðslu um þætti sem stuðla að góðri heilsu. 

  • Starfsfólk getur valið um að mæta sér að kostnaðarlausu í líkamsræktarstöðvar eða fá árlegan líkamsræktarstyrk. Á Keflavíkurflugvelli er einnig líkamsræktaraðstaða fyrir starfsfólk.  
  • Við bjóðum upp á árlegar heilsufarsskoðanir og inflúensusprautur. 
  • Hjúkrunarfræðingur hefur viðveru á fjölmennustu vinnustöðum ársfjórðungslega. 
  • Starfsfólk getur sótt ráðgjöf hjúkrunarfræðinga símleiðis í tengslum við heilsufar og líðan hjá sér og fjölskyldumeðlimum.

Við hlúum að vinnuverndarmálum í því skyni að draga úr atvinnutengdum sjúkdómum og slysum. Iðjuþjálfar eru reglulega fengnir til að yfirfara vinnustöðvar starfsfólks og leggja til úrbætur ef þörf er á. Hjá fyrirtækinu er einnig starfandi öryggisnefnd með fulltrúum starfsfólks og stjórnenda.

Félagslífið 

Það á að vera gaman í vinnunni! 

Hjá okkur starfar samheldinn og skemmtilegur hópur af starfsfólki sem gerir félagslífið fjörugt og kraftmikið. Starfsmannafélagið Staffið stuðlar að fjölbreyttu og öflugu félagslífi og sér til þess að okkur leiðist ekki með því að standa fyrir ýmsum viðburðum allt árið um kring. Það er alltaf nóg um að vera en hápunktur ársins er glæsileg árshátíð þar sem öllu er tjaldað til.


 
Við vonum að þetta hafi gefið þér smá innsýn inn í vinnuumhverfið hjá okkur. Mikilvægast af öllu er að hjá Isavia starfar frábært fólk sem fagnar nýjum ferðafélögum og tekur vel á móti þér. Endilega sendu okkur umsókn ef þú leitar að nýju ævintýri.