Hoppa yfir valmynd

LOFT

Við erum meðvituð um þá ábyrgð sem hvílir á okkur varðandi loftslagsmál og losun gróðurhúsalofttegunda og vinnum með virkum og skipulögðum hætti að aðgerðum til þess að minnka kolefnisspor okkar.

Við vinnum með virkum og skipulögðum hætti að aðgerðum í loftslagsmálum. Árið 2015 skrifaði forstjóri Isavia undir yfirlýsingu um aðgerðir í loftslagsmálum sem Reykjarvíkurborg og Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, efndu til. Í kjölfar undirritunarinnar setti Isavia sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi sinni og sýna þannig frumkvæði og ábyrgð gangvart umhverfinu og samfélaginu. 

  • Árið 2015 var losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi Isavia 0,6kg/CO2 ígildi á hvern farþega. Það er markmið Isavia að árið 2030 hafi losun gróðurhúsalofttegunda lækkað um 60% á hvern farþega miðað við árið 2015.
  • Árið 2015 var hlutfall flokkaðs úrgangs 19% hjá Isavia og losun óflokkaðs úrgangs um 0,17 kg á hvern farþega. Það er markmið Isavia að hlutfall flokkaðs úrgangs verði 70% árið 2030 og að magn óflokkaðs úrgangs á farþega hafi lækkað um 63%.

Isavia hlaut hvatningarverðlaun Reykjavíkurborgar og Festu í loftslagsmálum árið 2017. Í tengslum við Ábyrga ferðaþjónustu setti fyrirtækið sér markmið fyrir 2018, tvö sem snúa að loftslagmálum. Annars vegar að minnka notkun jarðefnaeldsneytis um 4% á hvern farþega frá árinu 2017 og hins vegar að auka hlutfall flokkaðs úrgangs um að minnsta kosti 5% á hvern farþega miðað við 2017. Árið 2019 gerði Isavia samning við Kolvið og Votlendissjóðinn um kolefnisjöfnun á allri eldsneytisnotkun félagsins.

KOLEFNISVOTTUN AIRPORT CARBON ACCREDITATION

Alþjóðlega samtök flugvalla (ACI) standa saman að kerfi sem miðar að því að minnka kolefnislosun á flugvöllum. Keflavíkurflugvöllur er þátttakandi í þessu starfi og hefur lokið öðru skrefi í kolefnisvottun flugvallarins. Skref tvö felur því í sér að félagið hefur kortlagt losun gróðurhúsalofttegunda í starfseminni og vaktar og stýrir þeim þáttum þar sem losunin er mest. Til að ná öðru skrefi hefur einnig verið sýnt fram á að dregið hafi verið úr losun gróðurhúsalofttegunda á hvern farþega yfir þriggja ára tímabil.

Isavia hefur sett sér aðgerðaráætlun í umhverfis- og loftslagsmálum. Meðal aðgerða í áætluninni er að meirihluti ökutækja sem keypt eru skuli vera vistvænn í þeim flokkum sem slíkt býðst. Dregið hefur verið úr notkun jarðefnaeldsneytis með kaupum á rafbílum og starfsmenn með meirapróf fara á vistakstursnámskeið.

LOSUN GRÓÐURHÚSALOFTTEGUNDA

Vel er fylgst með losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi okkar og við skilum árlega Grænu bókhaldi til Umhverfisstofnunar. Beina losun gróðurhúsalofttegunda Isavia má rekja beint til eldsneytisnotkunar. Stærsta hluta þessarar notkunar má rekja til þjónustu og viðhalds á flugbrautum og athafnasvæðum flugvalla og er sú þjónusta  að miklu leyti háð veðri.

 Lítil sem engin óbein losun gróðurhúsalofttegunda er í gegnum orkunotkun Isavia. Öll orka sem við notum kemur annað hvort frá fjarvarmaveitum (jarðvarma) eða vatnsaflsvirkjunum. Í báðum tilfellum er um að ræða endurnýjanlega orkugjafa sem valda engri eða mjög lítilli losun gróðurhúsalofttegunda. Óbein losun vegna hita og rafmagns er því lítil sé horft til framleiðslu rafmagns með öðrum leiðum. Til annarrar óbeinnar losunar gróðurhúsalofttegunda má meðal annars telja losun vegna urðunar sorps.

LOFTGÆÐI

Verkfræðistofan Efla hefur í samstarfi við Háskólann í Aveiro í Portúgal unnið skýrslu vegna mats á loftgæðum vegna starfsemi á Keflavíkurflugvelli.  Skoðuð voru 2 tilfelli, annars vegar útreiknuð mengun miðað við umferð um flugvöllinn árið 2015 og hins vegar áætlun fyrir 2025.  Í skýrslunni segir: „Styrkleiki allra mengunarefna uppfyllir kröfur sem gerðar eru til loftgæða í reglugerð nr. 251/2002 hvort sem um er að ræða árið 2015 eða 2025. Reglugerðin tilgreinir fjölda skipta sem styrkur mengunarefna má fara yfir viðmiðunarmörk. Samkvæmt líkindaútreikningum getur klukkustundargildi köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) fyrir báðar sviðsmyndir farið yfir viðmiðunarmörk reglugerðar 251/2002, en fjöldi þeirra tilvika er langt undir þeim fjölda sem leyfilegt er.“ Í kjölfarið hefur Isavia vaktað losun köfnunarefnisdíoxíðs í nærumhverfi flugvallarins.