Hoppa yfir valmynd

Stjórn og stjórnarhættir

Stjórn er tilnefnd til stjórnarsetu af fjármála- og efnahagsráðherra og er kjörin á aðalfundi til eins árs í senn. Í henni sitja fimm einstaklingar og fimm til vara.

KRISTJÁN ÞÓR JÚLÍUSSON

Kristján Þór Júlíusson er stjórnarformaður frá 2022, með kennsluréttindi frá Háskóla Íslands og skipstjórnarréttindi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Kristján Þór var alþingismaður Norðausturkjördæmis 2007-2021. Hann var heilbrigðisráðherra 2013-2017, mennta- og menningarmálaráðherra og ráðherra norrænna samstarfsmála 2017 og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2017-2021. Hann sat í fjárlaganefnd Alþingis 2007-2013, iðnaðarnefnd 2007-2009 og umhverfisnefnd 2009-2011. Kristján Þór var bæjarstjóri Dalvíkur 1986-1994, bæjarstjóri Ísafjarðar 1994-1997 og bæjarstjóri Akureyrar 1998-2006. Árin 1999-2007 sat Kristján Þór í stjórn Landsvirkjunar. Hann var formaður stjórnar Lífeyrissjóðs Norðurlands 2000-2007 og í stjórn Fasteignamats ríkisins á sama tímabili. Kristján Þór var formaður stjórnar Hafnarsambands sveitarfélaga 1994-1997 og formaður stjórnar Eyþings 1998-2002. Kristján Þór var kosinn í stjórn Isavia á aðalfundi 2022 og situr í starfskjaranefnd Isavia.

HÓLMFRÍÐUR ÁRNADÓTTIR

Hólmfríður Árnadóttir er stjórnarmaður frá 2022, með Bed og MEd gráður frá Háskólanum á Akureyri og DiplEd gráðu frá Háskóla Íslands. Hólmfríður starfar sem verkefnastjóri við Háskóla Íslands og hefur yfir 20 ára reynslu af stjórnun, ráðgjöf og kennslu. Hún starfaði sem skólastjóri frá 2016 - 22 og sem sérfræðingur við Háskólann á Akureyri 2012-16. Hún hefur setið í fjölmörgum stjórnum, ráðum og nefndum. Hólmfríður var kosin í stjórn Isavia á aðalfundi 2022 og situr í starfskjaranefnd Isavia.

JÓN STEINDÓR VALDIMARSSON

Jón Steindór Valdimarsson er stjórnarmaður frá árinu 2022, MPM (Master of Project Management) frá Háskólanum í Reykjavík og með embættispróf í lögum frá Háskóla Íslands. Jón Steindór var alþingismaður árin 2016 til 2021. Hann var framkvæmdastjóri fyrirtækjanna TravAble ehf. og Nordberg Innovation ehf. árin 2015 til 2016. Þá var hann aðstoðarframkvæmdastjóri og síðar framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins árin 1988 - 2010. Jón Steindór sat í stjórn Regins hf. 2014 - 2015; stjórn Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands 2002 - 2013; stjórnarformaður Landsbréfa hf. 2011 - 2013; varaformaður stjórnar Framtakssjóðs Íslands 2011 - 2012 og í stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins 2000 - 2010, þar af stjórnarformaður árin 2004 - 2010. Jón Steindór var kosinn í stjórn Isavia á aðalfundi 2022 og situr í endurskoðunarnefnd Isavia.

NANNA MARGRÉT GUNNLAUGSDÓTTIR

Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir er stjórnarmaður frá 2018,  stundaði nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og er með MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Frá árinu 2015 hefur Nanna verið fjárfestingastjóri Hafbliks fjárfestingafélags. Hún var ráðgjafi erlendra verslanakeðja 2013-2014 vegna starfsemi hér á landi, eigandi Náttúrulækningabúðarinnar og tengdra félaga í verslun og heildsölu 2008-2013 og starfaði hjá Eimskipafélagi Íslands frá 1998-2008, m.a. í fjárstýringadeild og sem sölustjóri í sjó- og flugfraktdeild. Nanna var kosin í stjórn Isavia á aðalfundi 2018 og situr í endurskoðunarnefnd Isavia og er stjórnarmaður í Fríhöfninni ehf.

HRÓLFUR ÖLVISSON

Hrólfur Ölvisson stundaði nám í stjórnmála og fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands. Frá árinu 2016 hefur Hrólfur starfað sem framkvæmdastjóri Jarðefnaiðnaðar ehf. ásamt því að sitja í stjórn félagsins. Hann situr einnig meðal annars í stjórn Sementsverksmiðjunnar ehf. og Eignarhaldsfélagsins Hornsteins ehf. ásamt því að gegna formennsku stjórnar hjá Bæ hf. Hrólfur hefur gengt fjölmörgum stjórnunarstöðum áður en meðal annars starfaði hann sem framkvæmdastjóri dagblaðsins Tímans 1988- 1993 og sem framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins 2010-2016. Hann hefur einnig setið í fjölmörgum stjórnum í gegnum árin en meðal annars sat hann í stjórn Bankaráðs Búnaðarbankans 1998-2001, var formaður stjórnar Brunamálastofnunar 1997-2001, í Innkauparáði Reykjavíkurborgar 2003-2005 og formaður Vinnumálastofnunar 1998-2007. Hrólfur var kosinn í stjórn Isavia á aðalfundi 2023.

VARASTJÓRN

Tómas Ellert Tómasson
Dóra Sif Tynes
Ingveldur Sæmundsdóttir
Sigrún Traustadóttir
Valdimar Halldórsson


Undirnefndir stjórnar

Endurskoðunarnefnd

Sigurður Jónsson, löggitur endurskoðandi, formaður
Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir
Jón Steindór Valdimarsson

Starfskjaranefnd

Kristján Þór Júlíusson
Hólmfríður Árnadóttir


Stjórnarhættir

Isavia ohf. er opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Um starfsemi félagsins gilda lög nr. 65/2023 um uppbyggingu og rekstur flugvalla og þjónustu við flugumferð og lög um loftferðir nr. 80/2022.

Stjórnarhættir félagsins taka mið af lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, samþykktum félagsins og starfsreglum stjórnar. Félagið fylgir almennri eigandastefnu ríkisins sem gefin var út í september 2021, ásamt viðauka er snýr að Isavia ohf.

Stjórn félagsins hefur „Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja“ til hliðsjónar í störfum sínum og uppfyllir þær í öllum meginatriðum þrátt fyrir að félaginu beri ekki að fylgja leiðbeiningunum lögum samkvæmt. Helsta frávik er að ekki er starfandi tilnefningarnefnd hjá félaginu þar sem tilnefningar í stjórn félagsins er hjá Fjármála- og efnahagsráðherra sem fer með hlut ríkisins í félaginu. Undirnefndir stjórnar eru endurskoðunarnefnd og starfskjaranefnd. Starfssvið endurskoðunar og starfskjaranefndar nær einnig til dótturfélaga Isavia ohf.

Stefna hefur verið sett um sjálfbærni.

Störf og starfsreglur stjórnar

Stjórnin hefur sett sér ítarlegar starfsreglur þar sem helstu verkefni og valdsvið stjórnar og forstjóra eru skilgreind. Starfsreglur eru endurskoðaðar og samþykktar á hverju ári. Þar er m.a. að finna skiptingu starfa innan stjórnar, reglur um hæfi stjórnarmanna til þátttöku í afgreiðslu mála, um fundarsköp og fundargerðir, reglur um þagnarskyldu, upplýsingagjöf gagnvart stjórn og ákvörðunarvald stjórnar.
Stjórnin hefur æðsta vald í málefnum félagsins á milli hluthafafunda samkvæmt lögum og samþykktum félagsins. Meginhlutverk stjórnar er að stýra félaginu milli hluthafafunda og tryggja að nægilegt eftirlit sé haft með reikningshaldi og meðferð fjármuna félagsins auk þess að staðfesta rekstrar- og fjárfestingaáætlanir og sjá til þess að þeim sé fylgt. Stjórn tekur meiriháttar ákvarðanir í rekstri félagsins og sér um að félagið sé rekið í samræmi við lög og reglur sem félaginu ber að fylgja. Þá hefur starf stjórnar það að markmiði að stuðla að viðgangi félagsins og tryggja árangur þess til langs tíma litið með því að setja félaginu stefnu í samstarfi við stjórnendur þess.

Árangursmat

Stjórn metur störf sín með reglubundnum hætti, verklag og starfshætti, framgang félagsins, frammistöðu forstjóra svo og skilvirkni undirnefnda séu þær starfandi. Slíkt árangursmat felur m.a. í sér að stjórnin leggi mat á styrkleika og veikleika í störfum sínum og verklagi og hugi að þeim hlutum sem hún telur að betur megi fara.

Innra eftirlit og áhættustýring

Stjórn hefur sett fram heildstæða áhættustefnu félagsins og skilgreint helstu áhættuþætti í rekstri. Helstu áhættur sem fylgja fjármálum samstæðunnar eru, gengisáhætta, vaxtaáhætta og verðtryggingaráhætta. Sérstök áhættunefnd er starfandi og hefur hún umboð stjórnar til að ákvarða m.a. umfang og eðli mats á áhættu og arðsemisgreininga fyrir framkvæmdir og verkefni sem haft geta marktæk áhrif á rekstur og efnahag.
Áhættunefnd sem í sitja forstjóri, aðstoðarforstjóri, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, og sérfræðingar í áhættustýringu af fjármálasviði, er með reglubundna skýrslugjöf um áhættur félagsins til stjórnar. Félagið gerði samning í lok árs 2019 við PwC um innri endurskoðun hjá félaginu. Innri endurskoðun leggur mat á og bætir virkni Stjórnarháttayfirlýsing Isavia ohf. áhættustýringar, eftirlitsaðferða og stjórnarhátta með kerfisbundnum og öguðum vinnubrögðum og styður þannig félagsið við að ná markmiðum sínum. Innri endurskoðun starfar sjálfstætt og tekur ekki ákvarðanir sem tengjast daglegri starfsemi félagsins og er ráðin af stjórn.

Endurskoðun

Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga félagsins og dótturfélaga þess í samræmi við c-lið 1.mg.4.gr.laga nr 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga.