Hoppa yfir valmynd

Veðurþjónusta á flugvöllum

Starfsmenn Isavia eða ákveðnir samstarfsaðilar sjá um veðurþjónustu. Þessi þjónusta felur í sér að búa til og dreifa reglubundnum veðurskýrslum eða að veita veðurupplýsingar þegar þess er óskað. Á nokkrum stöðum er mögulegt að hringja beint í sjálfvirkar veðurstöðvar sem eru staðsettar á flugvöllunum eða í nágrenni þeirra. Sérstakar veðurskýrslur eru gerðar og sendar út í gegnum flugvallarútvarp, ATIS, í Keflavík, Akureyri og Reykjavík. Búnaður og aðstaða fyrir veðurathuganir á flugvöllum sem Isavia rekur er mismunandi, sem þýðir að upplýsingar sem eru gefnar út fyrir hvern flugvöll geta verið ólíkar.

VEÐURUPPLÝSINGAR FYRIR FLUGVELLI OG NÁGRENNI

Fyrir hvern og einn flugvöll eru veittar upplýsingar allt frá rauntímaupplýsingum til veðurlýsinga, veðurspáa og viðvarana.

  • Rauntímaupplýsingar eru bein birting eða lestur frá mælitækjum flugvallanna ásamt veðri og færð frá Vegagerðinni
  • Veðurlýsingar fyrir flugvellina eru útbúnar á skeytaformi (METAR og SPECI) og einnig lesnar inn í flugvallarútvarp ATIS
  • Veðurspár VÍ birtast á skeytaformi (TAF), í spáriti, eða hitariti. Viðvaranir fyrir flug eru á skeytaformi (SIGMET)

FYRIRVARi

Opinberrar birtingar á rauntímaupplýsingum frá mælitækjum flugvalla:

  • Gögn eru eingöngu ætluð sem ítarefni við veðurupplýsingar sem gefnar eru út frá tilgreindum flugvöllum, eins og METAR og SPECI, og ekki í staðinn fyrir þær.
  • Gögnin eru óyfirfarin rauntímagögn og ekki gefið að þau séu ávallt aðgengileg og uppfærð. Mæligildi eiga að uppfærast sjálfvirkt á tveggja mínútna fresti.
  • Veðurathuganir úr veðurstöðvum eiga að uppfærast sjálfvirkt á hálftíma fresti. Aukalegar sjálfvirkar veðurathuganir birtast við skyndileg veðrabrigði sem fara yfir ákveðin mörk.