Hoppa yfir valmynd

Ávarp forstjóra

Inngangsorð forstjóra

 Þrátt fyrir að árið 2021 hafi áfram borið einkenni kórónuveirufaraldursins þá mátti engu að síður sjá skýr batamerki á rekstri flugvalla og flugleiðsögu frá árinu þar á undan. Ef við horfum til dæmis til síðasta ársfjórðungs ársins 2020 þá fóru að meðaltali um 600 farþegar um Keflavíkurflugvöll á degi hverjum. Á sama tímabili á síðasta ári var þessi meðaltalstala komin í um 9.064 farþega á dag sem er um 58% af daglega meðaltalinu á seinasta ársfjórðungi ársins 2019.

Á sama tíma hafa flest flugfélögin sem flugu til Keflavíkurflugvallar fyrir kórónuveirufaraldurinn snúið aftur og í dag er útlit fyrir að fjöldi þeirra verði að minnsta kosti sá sami í sumar og hann var árið 2019. Þessi staða gerir það að verkum að við getum gert okkur væntingar um áframhaldandi árangur af endurheimtinni á komandi mánuðum og misserum. Hluti af því sem hélt aftur af endurheimtinni voru þær sóttvarnaraðgerðir sem voru í gildi á landamærum Íslands. Þeim aðgerðum var hætt í febrúar síðastliðnum enda höfðu fyrirliggjandi gögn sýnt fram á að þær hafi ekki verið réttlætanlegar og valdið meiri skaða heldur en verið til gagns. Það er ánægjulegt að stjórnvöld hafi þannig farið að horfa á heildarmyndina í sínum ákvörðunum og mikilvægt að það verið fyrirsjáanleiki í þeim til framtíðar.

Isavia blés til sóknar á Keflavíkurflugvelli í byrjun síðasta árs í kjölfar þess að fjármála- og efnahagsráðherra ákvað að auka hlutafé í félaginu. Í ár stefnir í eitt stærsta framkvæmdaár í sögu flugvallarins og því til viðbótar hefur félagið lagt til fjármuni í beina markaðssetningu til flugfélaga, sem hefur þegar skilað sér í fyrrnefndri endurheimt í fjölda flugfélaga. Þessi sókn spilar lykilhlutverk þegar kemur að því að endurheimta þann fjölda flugtenginga sem var til staðar á árunum fyrir kórónuveirufaraldurinn. Tengistöðin á Keflavíkurflugvelli er drifkrafturinn þegar kemur að flugtengingum og því þarf að tryggja að hún standi undir þeim tækifærum sem fylgja tengiflugfélögunum á Keflavíkurflugvelli. Það er bein fylgni milli fjölda flugtenginga og hagvaxtar, lífsgæða og velsældar á Íslandi þannig að þessi áhersla á tengistöðina er ekki bara mikilvæg fyrir Isavia og tengiflugfélögin heldur fyrir alla landsmenn.

Til viðbótar við rekstur Keflavíkurflugvallar er innan samstæðu Isavia rekstur Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli, rekstur innanlandsflugvallakerfisins og rekstur á flugleiðsöguþjónustu.

  • Rekstur Fríhafnarinnar hefur ekki farið varhluta af áhrifum kórónuveirufaraldursins enda mjög háður ferðalögum til og frá Keflavíkurflugvelli. Aftur á móti hefur vel tekist til við að aðlaga reksturinn að breyttu umhverfi og því til viðbótar er félagið vel í stakk búið til að takast á við þær áskoranir sem munu fylgja endurheimtinni.
  • Tekjur Isavia Innanlandsflugvalla ehf. sem fer með rekstur á innanlandsflugvöllunum koma að stærstum hluta úr þjónustusamningi við íslenska ríkið um rekstur þeirra. Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á reksturinn en íslenska ríkið, sem þjónustukaupandi, tók á sama tíma þá ákvörðun að draga ekki úr þjónustustigi í innanlandsflugvallakerfinu og mætti þeirri ákvörðun með sérstökum viðbótargreiðslum til félagsins til að mæta tekjufalli frá notendum. Staða innanlandsflugvallakerfisins er engu að síður alvarleg enda hefur það verið vanfjármagnað frá íslenska ríkinu um margra ára skeið.
  • Flugleiðsöguþjónustu Isavia er sinnt af dótturfélaginu Isavia ANS. Stærsti hlutinn af tekjum félagsins kemur úr samningi um yfirflugsþjónustu yfir Norður-Atlantshafið. Sá samningur gerir ráð fyrir sveiflujöfnun tekna og gjalda þannig að áhrif kórónuveirufaraldursins mun að stórum hluta jafnast út á komandi árum.

Þeir alþjóðaflugvellir sem ná sýnilegum árangri á næstu árum þegar kemur að sjálfbærni munu ná mikilvægu samkeppnisforskoti til framtíðar. Í ljósi þess er sérstaklega mikilvægt að missa ekki sjónar á mikilvægi umhverfismála og sjálfbærni þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir vegna kórónuveirufaraldursins. Síðustu árin hefur Isavia tekið stór og mikilvæg skref í átt að sjálfbærni og á komandi árum verða skrefin enn stærri og mikilvægari.

Isavia hefur verið aðili að alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna (UN Global Compact) frá 2016. Með þeirri þátttöku skuldbindur félagið sig til þess að starfshættir séu í samræmi við tíu viðmið Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, vinnumál, umhverfismál og aðgerðir gegn spillingu.

Í lok árs tók gildi ný sjálfbærnistefna fyrir félagið. Henni fylgir fimm ára aðgerðaáætlun þar sem áherslur félagsins, markmið og mælikvarðar í málaflokknum eru sett fram. Við val á þeim var m.a. horft til stefnu félagsins, ábendinga hagaðila, viðmiða UN Global Compact, Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og áherslna stjórnvalda þeim tengdum.

Isavia gefur nú út ársskýrslu samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative í sjöunda skipti. Skýrslan er gerð samkvæmt GRI Standards: Core ásamt GRI-G4 sérákvæðum um flugvelli. Sérákvæðin taka sérstaklega á þeim áskorunum og tækifærum sem flugvellir standa frammi fyrir þegar kemur að sjálfbærni. Horft er til starfsemi félagsins og þeirra áhrifa sem hún hefur á efnahag, umhverfi og samfélagið. Fjöldi starfsfólks frá öllum sviðum fyrirtækisins komu að vinnunni við hana og einnig var leitað til ráðgjafa til að yfirfara og tryggja gæði upplýsinganna. Við fögnum öllum ábendingum um innihald skýrslunnar, enda eru stöðugar umbætur alltaf órjúfanlegur hluti af starfsemi okkar.

Í þessari ársskýrslu lýsum við starfsemi Isavia árið 2022. Skýrslunni er skilað inn sem framvinduskýrslu um markmið okkar að Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna (UNGC). Þar með staðfestum við vilja okkar til að vinna í samræmi við tíu viðmið Sameinuðu þjóðanna og vinna að Heimsmarkmiðunum. Við lýsum yfir áframhaldandi stuðningi við UN Global Compact.

Síðustu tvö árin hafa verð full af alls kyns áskorunum vegna kórónuveirufaraldursins. Við hjá Isavia hófum engu að síður sóknina okkar á síðasta ári enda tækifærin mýmörg þegar kemur að því að standa vörð um lífsgæði og velsæld á Íslandi. Við hjá samstæðu Isavia höfum yfir að búa einstökum hópi starfsmanna sem hefur enn og aftur gert okkur afar stolt og sannfærð um það að við munum standa undir þeirri miklu ábyrgð sem okkur er falin.

Mig langar til að nota tækifærið og þakka öllum okkar Isavia liðsfélögum fyrir að leggja sitt af mörkunum til að koma okkur í gegnum áskoranir síðustu ára og ekki síður fyrir að vera reiðubúin til að bretta upp ermarnar til framtíðar.

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia