Hoppa yfir valmynd

Mikilvægir þættir


Við val á mikilvægum þáttum er horft til þeirra málefna sem hagaðilar félagsins telja sérstaklega mikilvæg í samstarfi við Isavia, væntingar hagaðila til félagins og mat þeirra á samvinnu við Isavia. Auk þessa er horft til nýjustu áherslna flugiðnaðarins, þróunar og breytinga í lagaumhverfinu, helstu viðmiða í samfélagsskýrslugjöf og samanburðar við leiðandi fyrirtæki. 

Kolefnisspor og loftgæði 

Á árinu setti félagið sér það markmið að Keflavíkurflugvöllur væri orðinn kolefnislaus árið 2030. Í framhaldinu var unnið með stjórnendum að metnaðarfullri aðgerðaáætlun til næstu ára. Ein helsta áskorun Isavia er að finna lausnir á því hvernig draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda frá sérhæfðum tækjum flugvallarins. Í aðgerðaáætlun Isavia ohf til ársins 2030 er sett fram ítarleg útskiptiáætlun á öllum tækjum og búnaði sem gengur fyrir jarðefnaeldsneyti.  

Bein losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri Isavia var 32% minni árið 2021 en árið 2020. 

Fjárhagslega sjálfbær rekstur 

Rekstrartekjur samstæðunnar námu tæplega 20,8 milljörðum króna og hækkuðu um 6,1 milljarða króna milli ára eða um 41 prósent. EBITDA, þ.e. afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, hækkar um tæpa fimm milljarð króna. Heildareignir námu 88,1 milljörðum króna í árslok 2021 og hækkuðu um 7,6 milljarða króna milli ára. Staða handbærs fjár var áfram góð um síðustu áramót.

Til að meta óbein efnahagsleg áhrif af starfsemi Isavia er í vinnslu verkefni með bresku ráðgjafafyrirtæki til að mæla áhrif starfsemi Keflavíkurflugvallar á samfélagið. Starfsemi Keflavíkurflugvallar er mjög umfangsmikil og hefur áhrif bæði á íslenskt þjóðfélag sem og nærsamfélagið á Suðurnesjum. Isavia vinnur nú að því að greina hin víðtæku samfélagslegu áhrif og virði sem félagið skapar með rekstri Keflavíkurflugvallar. Virðið sem verður til við rekstur flugvallarins má flokka í fjárhagslega virðissköpun, virði er tengist kaupum á aðföngum vegna rekstrarins, virði er tengist daglegum rekstri (sorpflokkun, matarsóun o.fl.), virði er tengist starfsfólki og þekkingu, félagslegt virði og einnig náttúruleg áhrif af rekstri flugvallarins.

Öryggi og vinnuvernd 

Árið 2021 markaði ákveðin tímamót í öryggis- og vinnuverndarmálum fyrirtækisins en þá var stigið stórt skref í átt að aukinni vinnuvernd með því að útvíkka ISO 45001 vinnuverndar vottun Isavia ohf.  Vottunin nær ný yfir allar starfstöðvar og starfsemi Isavia ohf.  Undirbúningurinn og vottunar úttektin sjálf hefur nú þegar skilað sér í aukinni öryggisvitund í öllu fyrirtækinu. Stefnan og ábyrgð er skýr sem og hafa verið lagðar vörður til að fylgja eftir. Það er samvinnuverkefni sem án efa mun skila miklum ávinningi og enn þá betri vinnustað. 

Öryggis- og vinnuvernd er þannig höfð að leiðarljósi í starfsemi félagsins.  Markvisst er unnið er að því greina hættur og grípa til mótvægisaðgerða. Lögð er áhersla á að auka öryggisvitund í daglegu starfi hjá félaginu og virkja starfsfólk til þess að gera allt umhverfi og starfsemina öruggari. 

Sorpflokkun og hagkvæm nýting auðlinda 

Haustið 2021 hlaut Isavia ISO 14001 umhverfisvottun og í þeim staðli eru helstu umhverfisþættir fyrirtækisins vaktaðir og mældir. Sorp, rafmagn og vatnsnotkun eru nokkrir þessara umhverfisþátta sem eru vaktaðir og fylgst með. Samhliða ISO14001 umhverfisvöktuninni eru allar starfstöðvar Isavia í innleiðingu Grænna skrefa. 
Á árinu var útboð á sorphirðu og í kjölfarið verða snjallar úrgangslausnir innleiddar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Með nýsamþykktri sjálfbærnistefnu er áhersla lögð á hringrásahagkerfið og því er eitt af markmiðunum þar að kom að koma ákveðnum úrgangsflokkum sem falla til frá starfseminni, í strauma hringrásahagkerfisins. Annað markmið í aðgerðaráætlun Isavia er að draga úr matarsóun og í nýju mötuneyti starfsmanna Isavia á Keflavíkurflugvelli verður matarsóun mæld. 

Vistvænar byggingar 

Uppbyggingaráætlun fyrir Keflavíkurflugvöll er uppfærð árlega og unnið að uppfærslu þróunaráætlunar á um það bil fimm ára fresti. Í þróunar- og uppbyggingaráætlunum flugvallarins er stækkunaráformum miðlað til nærbyggðar. Umhverfismat uppbyggingaráætlunar sýnir þau umhverfisáhrif sem munu eiga sér stað vegna stækkunaráforma flugvallarins auk mótvægisaðgerða. Ýmis verkefni sem lögð eru til í uppbygginga- og þróunaráætlunum stuðla að bættum umhverfisáhrifum flugvallarins, svo sem afísingarhlað og stytting akstursleiðir flugvéla. Hönnun stækkunar flugstöðvar tekur mið af umhverfisvottunarkerfinu BREEAM.  

Jafnrétti 

Isavia stuðlar að jafnrétti í öllu sínu starfi og tryggir að allt starfsfólk fái jöfn tækifæri og möguleika á að nýta hæfileika sína í starfi. Félagið leggur áherslu á að tryggja jafnt kynjahlutfall bæði í hópi stjórnenda og starfsfólks. Jafnréttisáætlun Isavia var uppfærð um mitt ár en hún er unnin í samræmi við lög nr. 150/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Tilgangur áætlunarinnar er að tryggja fyllsta jafnréttis meðal starfsfólks með það að markmiði að nýta hæfni, krafta og kunnáttu þess til fulls. 

Þjónusta 

Isavia leggur mikla áherslu á þjónustu og samvinnu í starfsemi sinni.  Unnið er markvisst og náið með flugfélögum og viðskiptafélögum til að styðja við fyrirmyndarþjónustu og bæta upplifun fyrir farþega.  

Áhersla er á góða þjónustu og upplifun við farþega og viðskiptavini í gegnum allt þeirra ferli í gegnum flugstöðina og flugvöllinn. Reglulega eru haldin námskeið fyrir starfsfólk Isavia, rekstraraðila og samstarfsaðila þar sem farið er yfir það hvernig best má mæta þörfum farþega sem eru að koma í gegnum flugvöllinn. 

Samstarf við nærsamfélag 

Isavia leggur áherslu á víðtækt samráð við þá hagaðila sem treysta á þjónustu fyrirtækisins og verða fyrir áhrifum af starfseminni. Starfseminnar gætir um allt land og snertir alla landsmenn. Samskipti við notendur og rekstraraðila fara fyrst og fremst fram á reglulegum fundum. Samskipti við farþega eiga sér stað með beinum samskiptum starfsfólks félagsins á flugvöllunum, hefðbundnum samskiptaleiðum og með reglubundnum viðskiptavinakönnunum. Það er sérstaklega lögð áhersla á að vinna náið með flugafgreiðsluaðilum og flugfélögum að umhverfismálum á flugvellinum og með rekstraraðilum veitingastaða og verslana í flugstöðinni til að ná sameiginlega utan um málaflokkinn. 

Suðurnesjavettvangur er samstarf sveitarfélaganna fjögurra á Suðurnesjum, Isavia, Kadeco og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Markmiðið með samstarfinu er efla atvinulífið og styrkja innviði þar sem tekið er mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.