Hoppa yfir valmynd
13.5.2020
10 ár frá eldgosi í Eyjafjallajökli

10 ár frá eldgosi í Eyjafjallajökli

Um þessar mundir eru tíu ár liðin frá eldgosinu í Eyjafjallajökli. Gosið hafði eins og frægt er orðið mikil áhrif. Það olli að sjálfsögðu miklum vandræðum fyrir fólk sem býr nálægt jöklinum, vegna gjóskufalls og flóðahættu en frægast er gosið þó líklega fyrir áhrifin sem það hafði á flugumferð. Gosið stóð frá 14. apríl til 23. maí árið 2010 og öskuskýið sem myndaðist gerði það að verkum að loka þurfti loftrými yfir Norður-Atlantshafi ásamt mörgum löndum Evrópu í fimm sólarhringa.

Starfsfólk Isavia stóð svo sannarlega í eldlínunni og þurfti á mjög skömmum tíma að gera gríðarlegar breytingar til þess að halda Íslandi opnu og taka þátt í að halda uppi flugumferð á milli Evrópu og Norður-Ameríku. Þar skipti miklu máli að viðbragðsáætlanir voru til staðar um hvernig bregðast ætti við eldgosi.

Skyndilega fór öll flugumferð milli Evrópu og Norður-Ameríku um íslenska flugstjórnarsvæðið með tilheyrandi stórauknu álagi á starfsfólk flugstjórnarmiðstöðvar. 


Vegna vindátta á meðan á gosinu stóð, blés öskunni að mestu leyti suður og suðaustur af landinu og dreifði hún úr sér yfir Evrópu. Því var yfirleitt að minnsta kosti einn af stærri flugvöllunum fjórum; Keflavíkurflugvöllur, Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur eða Egilsstaðaflugvöllur, hæfur til notkunar. Starfsfólk flugstjórnarmiðstöðvar þurfti að taka á honum stóra sínum því skyndilega fór öll flugumferð á milli Evrópu og Norður-Ameríku norður fyrir öskuskýið og þar af leiðandi um íslenska flugstjórnarsvæðið.

Isavia varð til í miðju gosi

Opinbera hlutafélagið Isavia varð til í miðjum þessum umbrotum, 1. maí 2010, við sameiningu Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstoða ohf. Gosið reyndist sannkölluð eldskírn fyrir þetta nýja fyrirtæki og ekki gafst mikill tími til hefðbundinnar vinnu sem oft fer fram við sameiningu vinnustaða. Starfsfólk Keflavíkurflugvallar, flugleiðsögu og innanlandsflugvalla þurfti að vinna sem ein heild til þess að bregðast við ástandinu. Gerðar voru ráðstafanir svo hægt væri að færa flug frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar og Egilsstaða. Starfsfólk, tæki og búnaður var fært í flýti á milli landshluta og á einni nóttu var hægt að færa stóran hluta af flugstarfsemi Keflavíkurflugvallar til Akureyrar og flestar voru þoturnar fimm í einu á Akureyrarflugvelli. Suma daga var notast við Egilsstaðaflugvöll og einnig voru tímabil þar sem Keflavíkurflugvöllur var opinn. Á meðan á eldgosinu stóð fóru rúmlega 10.000 millilandafarþegar um Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

Hluti af flugstarfsemi Keflavíkurflugvallar fluttist til Akureyrar. Fimm þotur stóðu á Akureyrarflugvelli þegar mest lét. 

Vegna fumlausra viðbragða starfsfólks Isavia, var hægt halda áhrifum eldgossins á alþjóðaflug til og frá Íslandi í algjöru lágmarki, á meðan flugvellir á meginlandi Evrópu lentu í mun meiri vandræðum. Í flugstjórnarmiðstöðinni var hvert metið slegið á fætur öðru þar sem öll umferð á milli Evrópu og Norður-Ameríku fór nú um íslenska flugstjórnarsvæðið. Mikið álag var á flugumferðarstjórum, fólk var kallað inn úr fríum, allar vinnustöðvar voru mannaðar og sumar tvímannaðar. Á vakt voru oft tvöfalt til þrefalt fleiri flugumferðarstjórar en á venjulegum degi þess tíma. Flugvél Isavia var einnig notuð til þess að fljúga með vísindamenn yfir eldgíginn og framkvæma nauðsynlegar mælingar.

Frá stjórnstöð á Akureyrarflugvelli. Gríðarlega mikla samvinnu og útsjónarsemi þurfti svo hægt væri að flytja starfsemi Keflavíkurflugvallar til Akureyrar. 

Eyjafjallajökull kom Íslandi á kortið

Þó fáir ef einhver erlendur fjölmiðlamaður hafi borið nafn eldfjallsins rétt fram, var umfjöllunin um gosið gríðarleg. Mikil neikvæð umfjöllun skapaðist um Ísland og margir strandaglópar hugsuðu landi og þjóð þegjandi þörfina. En dreifing öskunnar yfir meginland Evrópu sýndi einnig að Ísland væri ekkert svo langt í burtu. Til þess að snúa þessari neikvæðu umfjöllun í jákvæða, var í kjölfar eldgossins ráðist í markaðsherferðina Inspired by Iceland. Herferðin var á vegum Íslandsstofu og var Isavia einn af stærstu þátttakendunum í henni. Markaðssetning landsins gekk vonum framar og næstu árin á eftir fjölgaði ferðamönnum á methraða sem gerði það að verkum að ferðaþjónustan varð einn af mikilvægustu máttarstólpum íslensks hagkerfis. 

Farþegafjöldinn var á stundum meiri en flugstöðin á Akureyrarflugvelli réði við og röð myndaðist fyrir utan flugstöðina. 

Ný krísa, ný tækifæri

Nú, tíu árum síðar, stöndum við í miðri annarri krísu, vegna heimsfaraldurs nýrrar kórónaveiru. Á skömmum tíma hafa ferðamenn horfið og óvíst er hvenær hægt verður að byrja að bjóða fólk velkomið til landsins aftur. Þetta hefur að sjálfsögðu haft mikil efnahagsleg áhrif og mörg fyrirtæki berjast í bökkum. Hins vegar eru jákvæð teikn á lofti um að ferðaþjónustan muni spyrna við og ná sér vel á strik á ný. Jákvætt umtal um árangur íslenskra heilbrigðisyfirvalda í baráttunni við kórónuveiruna hefur enn á ný aukið áhuga á Íslandi sem ferðamannastað. Við finnum fyrir því að fólk vill ferðast til öruggra áfangastaða og hefur Ísland verið nefnt sem eitt af þeim löndum sem best hefur tekist að bregðast við faraldrinum. Hér byggist ferðaþjónusta líka mikið á útiveru í víðernum en ekki mannmergð í borg. Við horfum því björtum augum fram á veginn, reynslunni ríkari eftir fyrri krísur.

Starfsfólk Flugstjórnarmiðstöðvar hlaut verðlaun IATA, Eagle Awards, fyrir viðbrögð sín við eldgosinu.