Hoppa yfir valmynd
4.8.2017
1,1 milljón farþega í júlí

1,1 milljón farþega í júlí

Þrátt fyrir metfjölda farþega var biðtími í öryggisleit í lágmarki. 
 
Farþegafjöldi á Keflavíkurflugvelli í júlímánuði var rétt tæplega 1,1 milljón og er þetta í fyrsta sinn sem fjöldinn innan eins mánaðar fer yfir eina milljón. Um er að ræða 22,21% fjölgun frá árinu 2016 og er það nokkrum prósentustigum yfir farþegaspá Isavia sem gefin var út í fyrra. Það sem af er ári hafa 4,87 milljónir farþega farið um flugvöllinn. Farþegatalningin nær yfir komufarþega, brottfararfarþega og skiptifarþega og skiptist nokkuð jafnt í þrennt. Í júlímánuði voru brottfararfarþegar 337.885, komufarþegar 368.425 og skiptifarþegar 393.172. Í júnímánuði voru farþegar um 930 þúsund talsins þannig að samtals fóru yfir tvær milljónir farþega um flugvöllinn þessa tvo mánuði, álíka margir farþegar og fóru um völlinn allt árið 2010. 
 
Þrátt fyrir metfjölda farþega náðist sá frábæri árangur í öryggisleit að 92% farþega beið skemur en fimm mínútur í röð og lengsti biðtími var rétt yfir tíu mínútum. Verður það að teljast mjög góður árangur í þessum metmánuði.