Hoppa yfir valmynd
25.3.2021
13,2 milljarða króna tap af rekstri Isavia árið 2020

13,2 milljarða króna tap af rekstri Isavia árið 2020

Árið 2020 var afkoma Isavia samstæðunnar neikvæð um 13,2 milljarða króna eftir skatta, sem er um 14,4 milljarða króna viðsnúningur frá fyrra ári. Tekjur ársins námu 14,7 milljörðum króna, sem er um 62% samdráttur á milli ára. Staða handbærs fjár nam um 9,4 milljörðum króna í árslok 2020. Þetta kemur fram í ársreikningi Isavia samstæðunnar sem samþykktur var á aðalfundi félagsins sem haldinn var með rafrænum hætti í dag. Stærstan hluta af tekjusamdrætti samstæðunnar milli ára má rekja til reksturs Keflavíkurflugvallar og Fríhafnarinnar en farþegum sem fóru um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 81% frá 2019.

„Árið 2020 var afar krefjandi fyrir rekstur flugvalla og flugleiðsögu í öllum heiminum. Heimsfaraldurinn af völdum Covid-19 tók í raun völdin í öllum okkar daglegu athöfnum og fór Isavia síður en svo varhluta af því. Á síðasta ári fór mikil orka í að tryggja fjármögnun og aðgang okkar að lausu fé ásamt því að standa vörð um sterka innviði félagsins,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. „Í dag höfum við snúið vörn í sókn. Okkur hefur tekist vel við að tryggja aðgang að lausu fé og þrátt fyrir að hafa þurft að taka erfiðar ákvarðanir á síðasta ári um fækkun starfsfólks þá gátum við engu að síður staðið vörð um stærri hluta starfa hjá okkur. Fjármálaráðherra, fyrir hönd eiganda okkar, tók ákvörðun í byrjun þessa árs að auka hlutafé í félaginu sem gerði okkur kleift að fara með uppbyggingaáform Keflavíkurflugvallar af stað á ný. Sú ákvörðun var afar mikilvæg, bæði fyrir samkeppnishæfni flugvallarins til framtíðar og möguleika okkar að komast út úr Covid-19, miðað við mismunandi sviðsmyndir en ekki síst fyrir erfitt atvinnuástand í nærsveitarfélögum Keflavíkurflugvallar.“

Enn sér ekki fyrir endann á áhrifum Covid-19 þegar kemur að ferðalögum milli landa. „Nýjustu aðgerðir stjórnvalda vegna aukinna Covid-19 smita hér á landi sýna að við höfum ekki kveðið niður ógnina af veirunni,“ segir Sveinbjörn. „Það er engu að síður lykilatriði að missa ekki sjónar á því markmiði að opna Ísland þegar tækifærið gefst. Bólusetningar á tveimur af okkar mikilvægustu mörkuðum, Bretlandi og Bandaríkjunum, ganga vel og stjórnvöld á Íslandi hafa boðað afar mikilvæg skref í átt að opnun Íslands. Auðvitað þurfum við að taka mið af stöðu faraldursins hverju sinni en við finnum fyrir miklum áhuga hjá flugfélögum sem við þjónum á þeim skrefum sem hafa verið rædd vegna umferðar til Íslands og munum að sjálfsögðu gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að endurheimtin verði sem farsælust.”

Á aðalfundi Isavia samstæðunnar í dag var kosin stjórn og varastjórn félagsins sem eru óbreyttar:

Aðalstjórn: Orri Hauksson, stjórnarformaður, Eva Pandora Baldursdóttir, Matthías Páll Imsland, Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir og Valdimar Halldórsson.

Varastjórn: Hreiðar Eiríksson, Ingveldur Sæmundsdóttir, Óskar Þórmundsson, Sigrún Traustadóttir og Þorbjörg Eva Erlendsdóttir.

Árs- og samfélagsskýrsluvefur Isavia fyrir árið 2020 hefur nú verið opnaður. Skýrslan er einvörðungu gefin út á rafrænu formi.

Á vefnum er að finna allar helstu upplýsingar um rekstur Isavia samstæðunnar á árinu 2020. Þar má finna ársreikning og allar helstu áherslur Isavia í umhverfis- og samfélagsmálum. Farið er yfir helsta árangur félagsins árið 2020 og hvaða stefna hefur verið mörkuð til framtíðar.