Hoppa yfir valmynd
18.5.2016
20 milljarða framkvæmdir framundan á Keflavíkurflugvelli - Nýr ferðamannapúls kynntur

20 milljarða framkvæmdir framundan á Keflavíkurflugvelli - Nýr ferðamannapúls kynntur

Isavia bauð til opins fundar á Hotel Reykjavik Natura nú í morgun þar sem kynntar voru þær framkvæmdir og aðgerðir sem félagið hefur staðið fyrir undanfarið til þess að taka vel á móti þeim ferðamönnum sem koma til landsins í sumar. Á fundinum var einnig kynntur nýr Ferðamannapúls Isavia, Ferðamálastofu og Gallup. 

Mikill undirbúningur fyrir sumarið á Keflavíkurflugvelli

Framundan er stærsta sumar frá upphafi fyrir ferðaþjónustu á Íslandi og miklar áskoranir felast í því fyrir alla þá sem starfa innan greinarinnar. Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar fór yfir þær breytingar sem hafa verið gerðar frá upphafi sumars 2015. Starfsfólki hefur verið fjölgað mikið, fjárfestingar hafa verið gerðar til að auka sjálfvirkni auk þess sem flugstöðin hefur verið stækkuð um 10.000 fermetra. Samtals eru þetta fjárfestingar upp á um það bil 10 milljarða króna. Að auki fór Hlynur yfir framtíðarfjárfestingar en alls hefur verið samþykkt af stjórn Isavia að hefja fjárfestingar fyrir 20 milljarða á þessu ári. 

Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar: „Við höfum stækkað flugstöðina verulega frá því í fyrrasumar, fjölgað starfsfólki í þjónustustörfum, aukið afkastagetu í öryggisleit auk þess sem fleiri flugfélög eru komin í sjálfsinnritunarkerfið okkar. Við ráðum því við mun meiri farþegafjölda en á sama tíma í fyrra. Hins vegar verður farþegaaukningin það mikil í sumar að hefðbundin innritun hefst 2,5 tímum fyrir flug hjá öllum flugfélögum. Við viljum því fá aðila í ferðaþjónustu í lið með okkur og hvetja ferðamenn til að vera snemma á ferðinni í sumar til að ferðalagið gangi sem best fyrir sig.“

Ferðamenn ánægðir með dvölina

Á fundinum kynnti Einar Einarsson, framkvæmdastjóri Gallup, Ferðamannapúls Isavia, Ferðamálastofu og Gallup. Ferðamannapúlsinn mælir heildaránægju ferðamanna sem koma til Íslands um Flugstöð Leifs Eiríkssonar og verður hann birtur mánaðarlega. Markmiðið með Ferðamannapúlsinum er að skapa mælikvarða sem sýnir upplifun og væntingar ferðamanna sem koma til landsins.

Einar Einarsson, framkvæmdastjóri Gallup: „Ferðamannastraumur til landsins hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum og spár hafa sýnt fram á að sá vöxtur muni halda áfram. Það er því afar mikilvægt fyrir greinina að fylgjast vel með upplifun ferðamanna og með stöðugri og samanburðarhæfri mælingu á heildaránægju ferðamanna gefst aðilum í ferðaþjónustu tækifæri til að vakta þróunina og bregðast við ef niðurstöður gefa ástæðu til þess.“

Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að almennt eru ferðamenn mjög ánægðir með dvöl sína hér. Ástralir eru á toppnum hvað ánægju varðar en norðurlandaþjóðirnar eru þær þjóðir sem síst eru ánægðar með dvöl sína hér.

Ítarlegar niðurstöður Ferðamannapúlsins er að finna hér.

Kynningarnar sem farið var yfir á fundinum í morgun er að finna hér.