Hoppa yfir valmynd
14.4.2023
26 flugfélög fljúga til 83 áfangastaða í sumar

26 flugfélög fljúga til 83 áfangastaða í sumar

Allt útlit er fyrir annasamt og skemmtilegt sumar á Keflavíkurflugvelli. Nú liggur fyrir að 26 flugfélög fljúga um völlinn þetta sumarið og áfangastaðirnir verði 83 talsins. Til samanburðar voru 25 flugfélög og 78 áfangastaði í fyrrasumar og 26 flugfélög og 71 áfangastað sumarið 2019. Í sumar bætast sex nýir áfangastaðir við sem eru Aþena, Álaborg, Detroit, Hamilton í Toronto, Porto og Tel Aviv. 

Ýmsar breytingar eru hjá einstaka flugfélögum. Icelandair munu bjóða upp á flestir ferðir frá upphafi hjá sér og mun þeim fjölga um 20% frá sumrinu 2022 og um 5% frá 2019. Þá mun sætaframboð aukast um 14% frá fyrra ári. Hjá Play er 66% aukning í ferðum og 85% aukið sætaframboð. Bandaríska flugfélagið Delta bætir við áfangastaðnum Detroit en United Airlines hættir að fljúga á Newark. Finnair er með svipað sætaframboð og síðasta fulla samanburðarár 2019 og Air Canada er með sömu áætlun og í fyrra. Austrian lengdi flugtímabilið úr júní til ágúst og yfir í apríl til október. Eurowings bætti við Hamborg sem áfangastað. 

Hreyfingar til og frá Keflavíkurflugvelli í sumar, komur og brottfarir samanlagt, verða tæplega 36 þúsund talsins. Það er 22% aukning frá í fyrra og 26% aukning frá því sem var sumarið 2019. Heildarframboð sæta er ríflega 6,5 milljónir sem er 20% aukning bæði samanborið við árið 2022 og 2019. 

„Farþegaspá Isavia gerir ráð fyrir að rúmlega 2,8 milljón farþegar fari um Keflavíkurflugvöll í júní, júlí og ágúst. Það eru um 400 þúsund fleiri farþegar en sömu mánuði árið 2019,” segir Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar hjá Isavia. „Sumarið í ár verður því stærra en árið 2019. Keflavíkurflugvöllur er einn af fáum flugvöllum heims sem hafa náð fullri endurheimt farþega eftir heimsfaraldur. Sem dæmi gera Samtök alþjóðaflugvalla í Evrópu (ACI Europe) ráð fyrir að fjöldi farþega sem fer um evrópska flugvelli á þessu ári verði aðeins um 91% af þeim fjölda sem fór um þá fyrir fjórum árum. Sama farþegafjölda og árið 2019 verði mögulega ekki náð fyrr en árið 2025.”

Grétar bætir því við að á næstu árum verði gaman að taka á móti stærri hópum farþega á Keflavíkurflugvelli í stækkaðri flugstöð. Hér má lesa nánar um framkvæmdir við flugstöðina.