Hoppa yfir valmynd
1.10.2022
300 þátttakendur í viðamikilli flugslysaæfingu á Reykjavíkurflugvelli

300 þátttakendur í viðamikilli flugslysaæfingu á Reykjavíkurflugvelli

Um 300 tóku þátt í umfangsmikilli flugslysaæfingu Almannavarna og Isavia sem haldin var á Reykjavíkurflugvelli laugardaginn 1. október. Í æfingunni var æfður viðbúnaður við því að tvær flugvélar hefðu skollið saman á vellinum. Um 60 manns voru slasaðir og eldur logaði.

Auk Almannavarna og Isavia tóku starfsfólk Reykjavíkurflugvallar þátt í æfingunni sem og björgunarsveitir, starfsfólk Landspítalans og heilbrigðisstarfsfólk, lögregla, slökkvilið, Landhelgisgæslan, Rauði krossinn og fleiri sem að slysaviðbúnaði koma. Þá tóku aðrir sjálfboðaliðar að sér að leika slasað fólk á vettvangi og kunna aðstandendur æfingarinnar því fólki og öðrum sjálfboðaliðum sem tóku þátt ómældar þakkir fyrir framlag sitt.

Æfingin var hápunktur vikulangs æfingatímabils. Fyrir helgina bauðst fulltrúum þátttakenda upp á fyrirlestra um ýmis atriði sem tengjast slysa- og hamfaraviðbúnaði auk þess sem svokölluð skrifborðsæfing vegna flugslyss var haldin.

„Við höldum æfingar sem þessar á öllum áætlunarflugvöllum á landinu og er æft á hverjum flugvelli á fjögurra ára fresti,“ segir Elva Tryggvadóttir, verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia en hún var æfingastjóri í morgun. „Allir aðilar sem að æfingunni komu unnu vel saman í dag. Þessi æfing bætir enn við þennan öfluga samtakamátt þannig að samvinna allra aðila í hvers konar hópslysum sem kunna að koma upp verður enn betri. Eins og í öllum æfingum þá förum við vandlega yfir það sem má mögulega betur fara í framkvæmdinni og styrkjum enn frekar það sem vel var gert hér í dag.“

Nokkrar flugslysaæfingar eru haldnar á hverju ári og nú í ár hefur þegar verið haldin æfing á Ísafjarðarflugvelli fyrir viku og síðan verður æfing á Akureyrarflugvelli 15. október næstkomandi.

„Þetta eru almannavarnaræfingar og eru mikilvægar fyrir heildarviðbúnaðarkerfi Íslands,“ segir Elva. „Hvort sem um flugslys eða önnur hópslys er að ræða. Fyrsta flugslysaæfingin var haldin á Reykjavíkurflugvelli fyrir 20 árum síðan. Þær hafa nú verið haldnar reglulega um allt land síðan 1996.“

Almannavarnir og Isavia vilja þakka þeim fjölmörgu aðilum sem komu að æfingunni á Reykjavíkurflugvelli fyrir gott samstarf.

Myndir: Þorsteinn Jónas Sigurbjörnsson.