Hoppa yfir valmynd
12.5.2024
560 þúsund gestir í apríl

560 þúsund gestir í apríl

Sumartímabilið byrjar vel en alls fóru 556.047 gestir um flugvöllinn í apríl, sem er 2% aukning frá sama tíma í fyrra. Gestum heldur því áfram að fjölga á Keflavíkurflugvelli en hafa ber í huga að páskahátíðin var í mars í ár, samanborið við apríl í fyrra.

Alls flugu 21 flugfélög til 65 áfangastaða í apríl. Vinsælustu áfangastaðirnir voru London, Kaupmannahöfn, New York, París og Amsterdam.

Mest var að gera á flugvellinum í apríl mánuði þann 1. apríl þegar alls fóru 25.020 gestir um völlinn.

Brottfarir Íslendinga voru um 45 þúsund í apríl samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Það eru -19,8% færri brottfarir en í apríl árið á undan en vinsælasta ferðahelgi Íslendinga, páskahátíðin, var í mars í ár en í apríl í fyrra. Frá áramótum (janúar-apríl) hafa um 180 þúsund Íslendingar farið erlendis sem er 1,9% fjölgun milli ára.

Brottfarir erlendra gesta voru 137 þúsund sem er -3,5% minna en í apríl í fyrra. Frá áramótum hafa um 593 þúsund erlendir gestir farið frá Íslandi sem er 5,7% fjölgun milli ára. Flestar brottfarir í apríl voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna (24% allra heildarbrottfara), næst Bretar (12%), svo Pólverjar (6%), Frakkar (5%) og þar á eftir fylgdu Þjóðverjar (5%).

Farþegafjöldi mun aukast á næstu mánuðum en farþegaspá Keflavíkurflugvallar gerir ráð fyrir að yfir sumarmánuðina, apríl til október, muni gestum fjölga um 391 þúsund sem er 7,2% aukning á milli ára.