Hoppa yfir valmynd
8.8.2023
66°Norður og Rammagerðin áfram á Keflavíkurflugvelli

66°Norður og Rammagerðin áfram á Keflavíkurflugvelli

Fataverslunin 66°Norður hafði betur í samkeppni um rekstur á verslun sem selur útivistar- og lífsstílsfatnað á Keflavíkurflugvelli. Verslun 66°Norður verður áfram á sama stað en síðar á árinu verður hún endurnýjuð og opnuð í endurbættri mynd í lok árs. Þá átti Rammagerðin hagstæðasta tilboðið í samkeppni um rekstur á verslun sem selur gjafavöru. Rammagerðin mun einnig opna nýja og endurbætta verslun síðar á þessu ári.

Bæði útboðin voru auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Við mat á tilboðunum var horft til tveggja meginþátta, fjárhagslega hlutans og tæknilegrar útfærslu. Sérfræðiteymi eru á bak við hvorn matsflokk en meðal þess sem hefur áhrif á matið er vöruframboð, verðlagning og gæði, þjónusta við viðskiptavini, hönnun og útlit verslunar, sjálfbærni og markaðssetning.

Alls sóttu átta aðilar útboðsgögnin fyrir verslun á útivistar- og lífsstílsfatnað og uppfylltu tveir aðilar hæfniskröfur útboðsins en á endanum var það 66°Norður sem átti betur í útboðinu.

„Við hjá 66°Norður höfum átt farsælt samstarf við Isavia og erum gífurlega stolt og ánægð að fá að halda áfram að bjóða íslenskum og erlendum ferðalöngum upp á frábært úrval útivistarfatnaðar á tollfrjálsu verði. Við verðum áfram á sama svæði en munum breyta rýminu til hins betra,“ segir Bjarney Harðardóttir, einn eigenda 66°Norður.

Þrjú fyrirtæki sóttu inn gögn til þátttöku í útboði um verslun sem selur gjafavöru. Öll uppfylltu þau hæfniskröfur útboðs og var boðið að skila inn tilboðum og taka þátt í viðræðuferlinu sem Rammagerðin varð hlutskörpust í.

„Allt frá stofnun Rammagerðarinnar árið 1940 hefur megináhersla okkar verið á að styðja við íslenska hönnun og gjafavöru með sérstakri áherslu á ullarvörur. Við vinnum með íslenskum hönnuðum og framleiðendum og fögnum því að geta boðið gestum Keflavíkurflugvallar upp á vandað íslenskt handverk í nýrri og glæsilegri verslun okkar í flugstöðinni,“ segir Ólöf Kristín Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Rammagerðarinnar.

„Við höfum átt farsælt samstarf við Rammagerðina og 66°Norður síðastliðin ár og hlökkum til að halda því áfram. Rammagerðin er rótgróið íslenskt fyrirtæki með vandaðar íslenskar hönnunar- og gjafavörur sem passar vel í flóru verslana á Keflavíkurflugvelli. 66°Norður er eins og við vitum með þekktari vörumerkjum Íslands og fer að auki stækkandi á alþjóðavísu. Við tökum á móti breiðum hópi gesta með mismunandi þarfir og viljum að úrval verslana endurspegli það en ýti jafnframt undir íslenska upplifun,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslunar og veitinga hjá Isavia.

Um útboðsferli Isavia   

Isavia ber samkvæmt lögum að bjóða út verslunar- og veitingarými á Keflavíkurflugvelli þar sem virði samnings fer yfir lögákveðnar fjárhæðir. Útboðunum er ætlað að tryggja samkeppni sem verður til hagsbóta fyrir neytendur og rekstraraðila. Útboðin eru auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Isavia fylgir lögum og reglum um opinber innkaup. Útboð Isavia byggjast á grundvelli reglugerðar nr. 950/2017 um sérleyfissamninga um verk og þjónustu.