Hoppa yfir valmynd
10.1.2017
6,8 milljónir farþega fóru um Keflavíkurflugvöll árið 2016

6,8 milljónir farþega fóru um Keflavíkurflugvöll árið 2016

Árið 2016 fóru 6.821.358 farþegar um Keflavíkurflugvöll, tveimur milljónum fleiri farþegar en árið 2015. Farþegafjöldinn hefur aldrei verið meiri og er um að ræða 40% aukningu á milli ára. Mest er fjölgunin á meðal skiptifarþega og á meðal farþega sem ferðast utan sumartímans. Farþegarnir skiptust í  2.318.293 komufarþega, 2.304.261 brottfararfarþega og 2.198.804 skiptifarþega. Farþegaspá Isavia gerir ráð fyrir áframhaldandi fjölgun farþega á þessu ári og verður hún með svipuðum hætti, þ.e. mest utan álagstíma. Spáin gerir ráð fyrir 8,75 milljónum farþega árið 2017.

Árstíðarsveiflan minnkar

Isavia hefur lagt sérstaka áherslu á að markaðssetja flugvöllinn og Ísland sem heilsársáfangastað, meðal annars með því að bjóða afslátt af þjónustugjöldum utan sumartíma þegar flugfélög opna nýja heilsársleið. Þetta er í takt við áherslur ferðaþjónustunnar á Íslandi og hefur skilað þeim árangri að nú er ferðaþjónustan orðin að heilsársatvinnugrein. Með þessu nýtast allir innviðir mun betur, bæði flugvöllurinn og aðrir mikilvægir innviðir ferðaþjónustunnar. Auk þess að minnka árstíðarsveifluna hefur tekist að dreifa umferðinni betur yfir sólarhringinn en það hefur orðið til þess að nýta mun betur innviði á Keflavíkurflugvelli, en þar voru nánast engir farþegar utan álagstíma fyrir nokkrum árum.

Stöðugar framkvæmdir við Keflavíkurflugvöll

Þrátt fyrir betri nýtingu flugstöðvarinnar hafa miklar framkvæmdir staðið yfir á Keflavíkurflugvelli undanfarin ár og eru enn meiri framkvæmdir fyrirhugaðar. Nú styttist í að Flugstöð Leifs Eiríkssonar verði stærsta mannvirki á Íslandi sem opið er almenningi, en það gerist þegar 7.000 fermetra viðbygging við suðurbyggingu flugstöðvarinnar verður tekin í notkun. Að þeirri framkvæmd meðtalinni hefur samtals verið fjárfest fyrir 15 milljarða í afkastaaukandi framkvæmdum á flugvellinum síðan 2015. Meðal verkefna má nefna 10.000 fermetra stækkun flugstöðvarinnar, nýtt og afkastameira farangursflokkunarkerfi, ný flugvélastæði og endurnýjun flugbrauta auk annarra verkefna.

Gríðarleg fjölgun starfa

Samkvæmt skýrslu sem Isavia gaf út í október síðastliðnum hefur þessi mikla fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll mjög jákvæð áhrif á þjóðarbúið. Farþegar sem koma og fara eru grunnurinn að vexti ferðaþjónustunnar, sem orðin er stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. En skiptifarþegar, sem koma ekki inn í landið, skipta líka miklu máli. Notkun íslensku flugfélaganna á Keflavíkurflugvelli sem tengipunkti á milli fjölda áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku er grundvöllur þessa mikla vaxtar. Skiptifarþegar skila einnig nánast jafnmörgum beinum störfum á flugvellinum og komu- og brottfararfarþegar eða um 0,8 á hverja 1000 farþega. Því má gera ráð fyrir að beinum störfum á Keflavíkurflugvelli hafi fjölgað um 1.600 á nýliðnu ári og þeim muni fjölga um álíka marga á þessu ári.

Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia: „Þessi stöðuga mikla fjölgun farþega og flugtenginga um Keflavíkurflugvöll er gríðarlega jákvæð fyrir Ísland, ekki bara fyrir ferðaþjónustuna heldur má ekki gleyma því hvað öflugar tengingar hafa mikil og góð áhrif á viðskiptalífið í heild og einnig fræðasamfélagið. Auðvitað getur skapast álag á starfsemina og innviði landsins þegar fjölgunin er svona hröð, mun hraðari en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Starfsfólk Isavia og rekstraraðila á flugvellinum hefur staðið sig gríðarlega vel í þessum mikla vexti og vakið mikla athygli hjá stjórnendum flugvallanna í kringum okkur fyrir framkvæmdahraða og aðlögunarhæfni á sama tíma og þjónustustigi í hæsta gæðaflokki miðað við aðra flugvelli í Evrópu er viðhaldið.“