Hoppa yfir valmynd
19.5.2015
ACI Race ráðstefnan haldin á Íslandi

ACI Race ráðstefnan haldin á Íslandi

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hélt opnunarræðu á ACI Race ráðstefnunni.

 

Isavia er gestgjafi á ráðstefnu tileinkaðri minni flugvöllum í Evrópu sem haldin er af Alþjóðasamtökum flugvalla, ACI. Ráðstefnan er nú haldin í áttunda skiptið og ber nafnið ACI Regional Airports‘ Conference and Exhibition eða ACI RACE. Markmið hennar er að flugvallarrekendur geti skipst á þekkingu og kynnt sér þróun, uppbyggingu og rekstur annarra flugvalla víðsvegar um Evrópu. Forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson setti ráðstefnuna nú í morgun 19. maí en ásamt honum töluðu Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia og Olivier Jancovec framkvæmdastjóri alþjóðasamtaka flugvalla í Evrópu.

Ráðstefnan er mikilvægur vettvangur fyrir stjórnendur og starfsmenn minni flugvalla til þess að fylgjast með því nýjasta sem er að gerast annars staðar í Evrópu. Getur sú þekking nýst Isavia bæði á Keflavíkurflugvelli sem og á minni íslenskum flugvöllum sem fyrirtækið rekur. Á meðal þess sem rætt verður er efnahagsleg sjálfbærni , samþætting í flugvallarrekstri, ný tækifæri og áskoranir flugfélaga, tengingar og viðskiptaþróun og hvernig má bæta óflugtengdar tekjur með betri farþegaupplifun.  Á meðal fyrirlesara á ráðstefnunni eru aðilar frá rekstraraðilum minni flugvalla í Evrópu auk fyrirlesara frá WOW air, Icelandair, easyJet, Boeing og Airbus. Íslenskir samstarfsaðilar Isavia og ACI vegna ráðstefnunnar eru Íslandsbanki, Bláa lónið og Gray Line.

Í opnunarræðu sinni talaði Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands meðal annars um ótrúlega farþegaaukningu um Keflavíkurflugvöll sem var algjörlega ófyrirséð þegar hann var alþingismaður og tók þátt í undirbúningi byggingar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Enginn hefði trúað því þá að í forsetatíð hans 35 árum síðar myndi yfir milljón ferðamanna ferðast til Íslands um Keflavíkurflugvöll með 20 flugfélögum. Þá sagði hann flugvelli ekki bara fyrirtæki heldur væru þeir mikilvægir til að kynna land og þjóð fyrir farþegum sem fyrsti snertiflötur við erlenda gesti.  

Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia:

Flugvellir eru ekkert án viðskiptavina, hvort sem það eru beinir viðskiptavinir eins og flugfélög eða óbeinir viðskiptavinir, farþegar og aðrir hagsmunaaðilar. Mín skoðun er sú að minni flugvellir séu mikilvæg undirstaða flugsamgangna Evrópu. Á minni flugvöllum eru allar þær tengingar sem eru svo mikilvægar hagvexti á mismunandi svæðum Evrópu. Við höfum í gegnum tíðina sótt mikla þekkingu til kollega okkar hjá minni flugvöllum í Evrópu og það er því  heiður fyrir okkur hjá Isavia að vera gestgjafar á áttundu ACI Race ráðstefnunni hér á Íslandi.

 

 

Olivier Jankovec framkvæmdastjóri alþjóðasamtaka flugvalla í Evrópu:

Við hjá ACI erum mjög ánægð með að áttunda ACI RACE ráðstefnan sé nú haldin á Íslandi þar sem Isavia er gestgjafinn. Síðustu fimm ár hefur Isavia vaxið hratt sem farsælt og öflugt fyrirtæki sem leggur áherslu á gæði í flugvallarrekstri. Fyrirtækið hefur unnið til eftirsóttra viðurkenninga innan geirans og utan og þá má sérstaklega nefna verðlaun á sviði þjónustugæða á meðal flugvalla í Evrópu (ACI Airport Service Quality) og að komast á heiðurslista ACI yfir bestu flugvelli í heimi. Það er enginn vafi á að Isavia leikur mikilvægt hlutverk fyrir efnahag Íslands með því að tryggja og þróa tengingar landsins við umheiminn.