Hoppa yfir valmynd
3.5.2012
Aðalfundur Isavia fimmtudaginn 3. maí 2012

Aðalfundur Isavia fimmtudaginn 3. maí 2012

Þórólfur Árnason stjórnarformaður Isavia.

Aðalfundur Isavia ohf. var haldinn í dag. Þórólfur Árnason stjórnarformaður sagði frá helstu störfum félagsins á fyrsta heila starfsári þess og þakkaði stjórn og starfsmönnum vel unnin störf á liðnu ári.

„Árið hefur einkennst af breytingum á rekstrarumhverfi. Vöxtur í millilandaflugi var mikill og án fordæmis en umferð um Keflavíkurflugvöll jókst um 18% milli ára.  Aukningin hefur styrkt fjárhagsgrundvöll félagsins til muna svo heita má að tekjur af Keflavíkurflugvelli standi undir rekstrarkostnaði hans.  Allt útlit er fyrir að enn frekari umferðaraukning verði á næstu árum og þarf að ráðast í kostnaðarsöm verkefni til stækkunar á innviðum flugstöðvarinnar og flugvallarins í nokkrum áföngum og er undirbúningur þegar hafinn.  

Öðru máli gegnir um rekstur innanlandsflugvallakerfisins.  Það er í eðli sínu þyngra í rekstri vegna tiltölulega fárra farþega og fjölda lendingastaða auk hertra reglna um flugvallarekstur og öryggi.  Reksturinn er fjármagnaður að mestu með framlagi ríkisins samkvæmt þjónustusamningi við innanríkisráðuneytið.  Fjárframlög hafa ekki haldið í við kostnaðarhækkanir og stefnt getur í að leggja þurfi niður einhverja flugvelli og/eða lendingarstaði í náinni framtíð.  Slíkt er þó í raun ekki mál Isavia heldur samgönguyfirvalda sem ákvarða þjónustustig í innanlandsflugvallakerfinu.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kvað vel hafa tekist til með rekstur Isavia.

Félagið getur verið nokkuð sátt við afkomu ársins 2011.  Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var um 3,6  milljarðar króna eða um 22%  af tekjum og hagnaður eftir skatta um 600 m.kr.  Sjóðsmyndunin nægir til þeirra framkvæmda sem félagið telur nauðsynlegt að ráðast í en til lengri tíma litið er fjármunamyndunin ófullnægjandi eigi hún að standa undir allri nauðsynlegri fjárfestingu.  Afkoma telst þó góð miðað við að íslenskt samfélag hefur glímt við dýpstu efnahagskreppu lýðveldistímans ásamt gengisbreytingum sem leitt hafa til hækkunar á skuldum félagsins.“

Tekjur Isavia eru af flugumferð, flugvallarþjónustu, verslunarrekstri og þjónustusamningi við innanríkisráðuneytið vegna reksturs á flugvöllum og aðrar tekjur, s.s. fasteignatekjur. Tekjur félagsins jukust um 16,8% milli ára, úr 14.136 milljónum króna í 16.511 milljónir árið 2011. Mest aukningin varð í tekjum vegna flugvallarþjónustu sem jukust um 83% en tekjur af þjónustusamningi við innanríkisráðuneytið lækkuðu um 33%. Breytingin er vegna niðurfellingar á flugvallarsköttum og varaflugvallargjaldi sem tóku gildi 18. maí 2011, en þá voru sett á farþegagjöld sem fara beint til reksturs hvers flugvallar fyrir sig.  Fjölgun farþega skilaði bæði aukningu á farþegatekjum og einnig verslunar- og fasteignatekjum félagsins.

Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia ávarpar fundinn.

Rekstrarkostnaður án afskrifta sem hlutfall af tekjum var 77,9% árið 2011 en 78,5% árið 2010. Heildarafkoma ársins var 604 milljónir króna sem er um 1.520 milljónir króna lækkun frá fyrra ári. Helsti áhrifavaldurinn í þeim viðsnúningi eru breytingar á fjármagnsgjöldum en vegna veikingar krónunnar eru verðbætur og gengistap um 944 milljónir króna.  Styrking krónunnar árið 2010 skilaði 1.399 milljóna króna gengishagnaði og því er um að ræða viðsnúning að upphæð 2.343 milljónir króna.  Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 3.653 milljónum.

Heildareignir Isavia í árslok 2011 námu 32.520 milljónum króna.  Þar af eru fastafjármunir 27.896 milljónir.  Nettóskuldir félagsins, þ.e. skuldir að frádregnum veltufjármunum, námu 16.979 milljónum króna og hafa lækkað um 1.379 milljónir á milli ára. Lán voru greidd niður á árinu um 1.712 milljónir króna en veiking íslensku krónunnar hækkaði lánastöðu félagsins um 1.013 milljónir. Næsta árs afborganir langtímaskulda nema um 1.356 milljónum króna.  Eiginfjárhlutfall félasins var í árslok 33,6% en var 24,6% við stofnun árið 2010.

Sameiningin félaga í Isavia  árið 2010 reyndist heillaspor.  Félagið hefur náð að hagræða og spara í rekstri fyrir hundruð milljóna króna.  Það hefur styrkst fjárhagslega og faglega og er nú eitt af 40 stærstu fyrirtækjum landsins miðað við veltu.

Isavia  á aðild að Samtökum ferðaþjónustunnar sem er aðili að Samtökum atvinnulífsins. Með því er undirstrikað að félagið er hluti af ferðaþjónustunni í landinu og reyndar  annað stærsta félagið innan þeirra samtaka. Ferðaþjónustan á bjarta framtíð fyrir sér og mun Isavia verða leiðandi fyrirtæki og öflug stoð hennar um ókomna framtíð.   

Fjármálaráðuneytið fer með eignarhald félagsins fyrir hönd ríkissjóðs. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra var viðstaddur aðalfundinn og tók undir með formanni stjórnar og kvað vel hafa tekist til með rekstur Isavia.  Félagið væri reiðubúið að takast á við aukin verkefni og rík innistæða virtist fyrir þeirri bjartsýni sem einkenndi málflutning forráðamenna þess. Færði hann stjórn og starfsmönnum félagsins þakkir stjórnarráðsins fyrir mjög góðan árangur á liðnu ári og óskaði þeim og félaginu farsældar. 

Í stjórn félagsins var endurkjörin á aðalfundinum en hana skipa: Arnbjörg Sveinsdóttir, Ásta Rut Jónasdóttir, Jón Norðfjörð, Ragnar Óskarsson og Þórólfur Árnason.

Í varastjórn voru kosin: Jóhanna Harpa Árnadóttir, Ólafur Sveinsson, Sigrún Pálsdóttir, Hjörtur M. Guðbjartsson og Sigurbjörn Trausti Vilhjálmsson.

Einnig var samþykkt að ráðstafa hagnaði ársins með þeim hætti að hann legðist við eigið fé félagsins.

Ársskýrsla og kynningarmyndband