Hoppa yfir valmynd
3.4.2014
Aðalfundur Isavia haldinn í dag 3. apríl

Aðalfundur Isavia haldinn í dag 3. apríl

Aðalfundur Isavia var haldinn í dag, fimmtudaginn 3. apríl, en félagið annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla og flugleiðsöguþjónustu í landinu og er leiðandi fyrirtæki í ferðaþjónustu.

Aukning varð á umsvifum Isavia á síðastliðnu ári líkt og undanfarin ár. Tekjur félagsins námu alls 19.810 milljónum króna og jukust um 1.414 milljónir króna, eða 7,7% frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði jókst um 421 milljón króna og nam 2.818 milljónum króna.  Þessi afkoma er í takt við áætlanir félagins.  Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 1.200 milljónir en styrking krónunnar á árinu skilað umtalsverðum gengishagnaði vegna lána í erlendri mynt. Viðunandi afkoma á traustum grunni skapar grundvöll fyrir nauðsynlega uppbyggingu á næstu árum

Heildarafkoma ársins nam 3.217 milljónum króna sem er 2.479 milljóna aukning frá fyrra ári en af því námu tekjur af fjáreignum og fjárskuldum 2.528 milljónum króna milli ára. Heildareignir samstæðunnar voru 34.511 milljónir króna í árslok og þar af voru varanlegir rekstrarfjármunir og óefnislegar eignir um 29.036 milljónir.  Vaxtaberandir skuldir félagsins lækkuðu um 2.788 milljónir króna á árinu en þar af eru 1.322 milljónir króna tilkomnar vegna afborgana.  Eiginfjárhlutfall félagsins var 43,1% í árslok 2013, samanborið við 34,9% árið á undan.  Til samanburðar var eiginfjárhlutfall félagsins 24,6% við stofnun þess árið 2010.

Fjármunamyndun í rekstrinum var áfram góð og handbært fé frá rekstri nam 4.032 milljónum króna sem er aukning um tæpan hálfan milljarð milli ára.  Félagið fjárfesti fyrir 2.966 milljónir króna á árinu og greiddi auk þess 1.324 milljónir inn á langtímaskuldir.  Fjárfestingar ársins voru því fjármagnaðar að öllu leyti úr rekstri félagsins en ljóst er að fjárfestingaþörf næstu ára er umtalsverð og mun félagið þurfa talsvert af nýju lánsfé til þess að standa straum af nauðsynlegum framkvæmdum.

Eigandinn, sem er ríkissjóður Íslands, hefur valið að taka ekki arð úr félaginu heldur endurfjárfest hagnað til uppbyggingar á eiginfjárstöðu, m.a. til að gera félaginu kleift að standa undir stórum fjárfestingum sem tengjast verulegri fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll.

Frá árinu 2011 – 2013 hefur rekstur Fríhafnarinnar, sem er dótturfélag Isavia, skilað um 952 milljónum króna til ríkissjóðs í formi áfengis- og tóbaksgjalds.  Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að sala áfengis og tóbaks í komuverslun félagsins muni skila ríkissjóði um 425 milljónum króna árið 2014.

Leiðandi í ferðaþjónustu

Isavia er í hópi leiðandi fyrirtækja í ferðaþjónustu og hefur hvatakerfi félagsins á Keflavíkurflugvelli með beinum hætti aukið flug til og frá landinu. Sautján flugfélög héldu uppi áætlunarflugi til landsins á síðasta sumri og sex í vetur og farþegafjöldi jókst um 15,6% milli áranna 2012 og 2013. 

Félagið undirbýr nú aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli vegna farþegaaukningar svo tryggja megi áfram framúrskarandi þjónustu við flugrekendur og flugfarþega.  Gert er ráð fyrir um 9 milljarða króna fjárfestingu næstu tvö ár til aukningar á afköstum á Keflavíkurflugvelli, sem meðal annars felst í því að reisa viðbyggingu við vesturálmu suðurbyggingar flugstöðvarinnar með brottfararhliðum sem þjóna munu svonefndum fjarstæðum í grennd við flugstöðina sem farþegum verður ekið að flugvélum  í sérbyggðum rútubifreiðum.  Þá er hafin stækkun farangurskerfis flugstöðvarinnar og fyrir dyrum standa gagngerar endurbætur á verslunar og veitingasvæðinu.  Ef horft er til fjárfestingaætlunar samstæðunnar í heild næstu tvö árin, bæði nýframkvæmdir og viðhaldsframkvæmdir þá nemur sú fjárhæð ríflega 15 milljörðum króna.

Félagið annast rekstur innanlandsflugvallakerfisins samkvæmt þjónustusamningi við innanríkisráðuneytið en fjárveiting til þess hefur farið minnkandi á undanförnum árum.  Félagið hefur með árangursríkum aðhaldsaðgerðum náð að halda uppi þjónustustigi þrátt fyrir minnkandi fjárveitingar, en ljóst er að ef árlegt framlag úr ríkissjóði skerðist enn frekar þá mun það hafa þjónustuskerðingu í för með sér.

Framsækin dótturfélög

Dótturfélög Isavia eru Fríhöfnin og hugbúnaðarfyrirtækið Tern Systems. Miklar breytingar og umbætur urðu hjá Fríhöfninni á síðastliðnu ári með opnun glæsilegra verslana, nýrri heimasíðu og nýju útliti á ásýnd félagsins. Fríhöfnin hlaut margar viðurkenningar á árinu 2013 og var meðal annars valin besta fríhöfn Evrópu. Einnig fékk fyrirtækið starfsmenntaverðlaun SAF, viðurkenningu sem fjölskylduvænt fyrirtæki og sem framúrskarandi fyrirtæki samkvæmt könnun Creditinfo. Um 180 manns starfa hjá félaginu. Framkvæmdastjóri er Ásta Dís Óladóttir.

Tern Systems hefur í yfir 25 ár hannað og framleitt hugbúnað til flugumferðarstjórnar og þjálfunar flugumferðarstjóra og er með kerfi uppsett og í notkun hér á landi og víða í Evrópu, Asíu og Afríku.  Hjá fyrirtækinu starfa 35 manns auk þess sem mikið af þekkingu og reynslu er sótt til móðurfélagsins eftir þörfum og verkefnum.  Framkvæmdastjóri er Tómas Davíð Þorsteinsson.

Gott rekstrarútlit

Áætlað er að samanlögð velta Isavia samstæðunnar verði um 21,2 milljarður króna á árinu 2014, og að um þriðjungur verði í erlendri mynt.  Gert er ráð fyrir að rekstrarafkoma ársins 2014 verði álíka og rekstrarafkoma ársins 2013. Gert er ráð fyrir nýjum lántökur á árinu vegna fyrirhugaðra fjárfestinga, m.a. í endurbótum á flugstöðinni og flugvallarmannvirkjum á Keflavíkurflugvelli. 

Stjórn félagsins

Fjármálaráðherra fer með eignarhald félagsins fyrir hönd ríkissjóðs. Í stjórn voru kosin Heiða Kristín Helgadóttir, Ingimundur Sigurpálsson, Matthías Páll Imsland, Sigrún Traustadóttir og Ragnar Óskarsson.

Í varastjórn voru kosin Friðbjörg Matthíasdóttir, Jens Garðar Helgason, Jón Norðfjörð, Sigurbjörn Trausti Vilhjálmsson og Tryggvi Haraldsson.

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia:
„Markmið með sameiningu Keflavíkurflugvallar og Flugstoða með stofnun Isavia árið 2010 hafa náðst. Félagið er tilbúið að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir til að mæta auknum straumi ferðamanna til landsins. Flugfarþegar á Keflavíkurflugvelli voru 3,2 milljónir árið 2013 og hefur fjölgað um 54% frá árinu 2010. Vænta má að farþegar verði orðnir yfir 7 milljónir árið 2023. Þessi öra fjölgun kallar á mikla uppbyggingu flugvallarmannvirkja á næstu árum.

Afkoma félagsins er mjög góð og í takt við þær áætlanir sem við höfum unnið eftir undanfarin ár og miða að því að standa undir nauðsynlegum framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli. Við höfum nú þegar ráðist í miklar framkvæmdir og höfum t.d. hafið stækkun á farangursflokkunarkerfinu í flugstöðinni til þess að tvöfalda afkastagetu þess. Næsta skref er að stækka suðurbyggingu í flugstöðinni til vesturs með sex nýjum brottfararhliðum og biðsvæðum fyrir farþega og er sú framkvæmd þegar hafin. Þá kynntum við nýlega breytingar á verslunarsvæði flugstöðvarinnar og auglýstum eftir tilboðum í verslunarreksturinn. Með þessu höfum við lagt góðan grunn að uppbyggingu á flugvellinum sem félagið getur byggt á af krafti til framtíðar.“

Í stjórn félagsins voru kosin Ragnar Óskarsson, Heiða Kristín Helgadóttir, Sigrún Traustadóttir, Ingimundur Sigurpálsson og Matthías Páll Imsland. Í varastjórn voru kosin Friðbjörg Matthíasdóttir, Jens Garðar Helgason, Jón Norðfjörð, Sigurbjörn Trausti Vilhjálmsson og Tryggvi Haraldsson.