Hoppa yfir valmynd
16.5.2019
ÆFÐU VIÐBRÖGÐ VIÐ FLUGSLYSI Í GRÍMSEY

ÆFÐU VIÐBRÖGÐ VIÐ FLUGSLYSI Í GRÍMSEY

Um 40 manns tóku þátt í flugslysaæfingu sem haldin var í Grímsey dagana 10. og 11. maí síðastliðinn. Æft var með heimamönnum og viðbragðsaðilum. Æfingin var sú fyrsta af þremur sem haldnar verða á þessu ári en áformað er að viðbrögð við flugslysum verði einnig æfð í Hornafirði og á Gjögur síðar á þessu ári. Isavia og samstarfsaðilar hafa haldið um 50 flugslysaæfingar samtals frá því árið 2000.

Æfingin í Grímsey hófst föstudaginn 10. maí á upprifjun á skyndihjálp ásamt því að veitt var fræðsla í hinu og þessu sem tengist hópslysum og notkun á búnaði til að bregðast við því þegar hópslys verða. Laugardaginn 11. maí voru haldnar skrifborðsæfingar og síðan verkleg æfing.

Elva Tryggvadóttir, verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia, stýrði æfingunni. „Móttökur heimamanna voru til fyrirmyndar,“ segir Elva. „Samvinna var það sem einkenndi æfinguna og verkefni helgarinnar. Æfingin gekk afskaplega vel fyrir sig og margir góðir punktar komu fram sem nýtast við að efla viðbragðið enn frekar í eyjunni.“