Hoppa yfir valmynd
10.9.2014
Afkoma Isavia á fyrri árshelmingi 2014

Afkoma Isavia á fyrri árshelmingi 2014

Afkoma Isavia á fyrri helmingi ársins 2014 var jákvæð um 836 milljónir og styður við áætlanir félagsins um uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli til þess að mæta áframhaldandi fjölgun farþega.

„Umsvif Isavia héldu áfram að aukast verulega til samræmis við mikla fjölgun ferðamanna. Auknar tekjur Keflavíkurflugvallar styðja við áætlanir okkar um fjármögnun á þeirri uppbyggingu sem þar er nauðsynleg til að mæta áframhaldandi fjölgun farþega,“ segir Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia og bætir við: „Aftur á móti höfum við áhyggjur af innanlandskerfinu. Lögum samkvæmt megum við ekki nýta auknar tekjur af alþjóðafluginu til innanlandsflugvalla en á undanförnum sjö árum hafa framlög til innanlandskerfisins á fjárlögum verið skorin niður um 850 milljónir króna að raunvirði. Ef til áframhaldandi niðurskurðar kemur í fjárlögum næsta árs verður eitthvað undan að láta.“

Tekjuaukning vegna farþegafjölgunar á Keflavíkurflugvelli

Rekstrartekjur samstæðunnar, sem samanstendur af Isavia og dótturfélögunum Fríhöfninni og Tern Systems, námu 9.929 milljónum króna en það er 11,3% aukning frá sama tímabili síðasta árs. Stærstan hluta tekjuaukningarinnar má rekja til fjölgunar farþega á Keflavíkurflugvelli sem nam 21,1% frá sama tímabili í fyrra. Tekjur af flugleiðsöguþjónustu vegna yfirflugs og umferðar til og frá landinu jukust um 12,7% frá fyrra ári og óflugtengdar fasteignatekjur jukust um 14,2%.  Verulegur hluti fasteignatekna er tilkominn vegna fríverslunar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Rekstrarafkoma fyrir fjármagnsliði og tekjuskatt nam 993 milljónum króna sem er 10% af rekstrartekjum samstæðunnar og einu prósentustigi betri árangur en á sama tíma í fyrra.  Heildarafkoma félagsins nam 836 milljónum króna og þar af er tekjufærður gengishagnaður 257 milljónir króna.  Heildarafkoma félagsins fyrir sama tímabil árið 2013 var 1.367 milljónir króna en tekjufærður gengishagnaður nam þá 1.089 milljónum króna. Heildareignir félagsins voru  35,7 milljarðar króna í lok júní 2014  samanborið við 34,5 milljarða króna í lok síðasta árs.

Nauðsynlegar fjárfestingar til að styðja vöxt ferðaþjónustunnar

Framundan eru miklar fjárfestingar á Keflavíkurflugvelli sem miða meðal annars að því að Flugstöð Leifs Eiríkssonar geti annað áframhaldandi fjölgun farþega sem gert er ráð fyrir. Fjárfestingar á fyrstu sex mánuðum ársins námu 1,7 milljörðum króna en áætlað er að fjárfestingar ársins í heild geti numið allt að fimm milljörðum króna.

Áætlanir flugfélaga benda til að fjölgun ferðamanna verði áfram umtalsverð og til þess að mæta henni þarf að ráðast í verulegar fjárfestingar á komandi árum sem hlaupið geta á tugum milljarða króna. Það er því ljóst að tryggja þarf tekjumyndun félagsins svo það geti sinnt þeim verkefnum sem framundan eru með það að markmiði að tryggja áframhaldandi vöxt ferðaþjónustunnar sem hefur verið mikill drifkraftur í hagkerfinu síðustu ár.

Fjármagn vantar til reksturs innanlandsflugvalla

Þrátt fyrir að tekjur Keflavíkurflugvallar hafi aukist verulega skortir töluvert fjármagn til þess að tryggja rekstur flugvalla sem sinna innanlandsflugi. Lög og samningar um alþjóðaflug kveða á um að tekjur sem verða til á Keflavíkurflugvelli séu aðeins notaðar til reksturs og uppbyggingar hans. Því er ljóst að aukið fjármagn til innanlandsflugvalla þarf að koma úr ríkissjóði.

„Umtalsvert fjármagn þarf til nauðsynlegra framkvæmda og reksturs vegna þjónustu á innanlandsflugvöllum sem gera verður ráð fyrir í samgönguáætlun næstu ára,“ segir Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia. „Niðurstöður greiningar á samfélags- og hagfræðilegum þáttum sem unnin var í samræmi við gildandi samgönguáætlun sýna að ábati innanlandsflugsins er mikill fyrir samfélag og atvinnustarfsemi.“

Lykiltölur úr hálfsársuppgjöri 2014

Helstu lykilstærðir úr hálfsársuppgjöri Isavia 2014:

  • Tekjur: 9.929 millj. kr.
  • Rekstrarhagnaður: 993 millj. kr.
  • Heildarafkoma eftir skatta: 836 millj. kr.
  • Heildareignir: 35.685 millj. kr.
  • Fjárfestingar: 1.688 millj. kr.
  • Eigið fé í lok tímabilsins: 15.699 millj. kr.
  • Eiginfjárhlutfall: 44,0%