Hoppa yfir valmynd
23.3.2017
Áframhaldandi góð afkoma af rekstri Isavia

Áframhaldandi góð afkoma af rekstri Isavia


Áframhaldandi góð afkoma af rekstri Isavia
Tekjuaukningu má rekja til fjölgunar farþega á Keflavíkurflugvelli
Ársreikningur Isavia fyrir árið 2016 var samþykktur á aðalfundi félagsins í dag. Tekjur félagsins námu 33 milljörðum króna sem er 27% aukning á milli ára. Er þetta mesta tekjuaukning frá stofnun félagsins og má að mestu leyti rekja hana til fjölgunar farþega á Keflavíkurflugvelli. Farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 40%, flugvélum sem fóru um íslenska flugstjórnunarsvæðið fjölgaði um 13,5% og innanlandsfarþegum um 8%.

Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia ávarpar fundinn

Heildarafkoma nam 6,9 milljörðum króna að meðtöldum gengishagnaði upp á 2,8 milljarða króna sem er til kominn vegna styrkingar íslensku krónunnar. Rekstrarafkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 8,9 milljörðum króna og jókst um 47% á milli ára. EBITDA sem hlutfall af tekjum fór úr 23% í 27%. Rekstrarkostnaður var 24,2 milljarðar króna og jókst um 4,1 milljarð króna milli ára. Stærstan hluta af þeirri aukningu má rekja til launakostnaðar sem hækkaði um 2,8 milljarða króna eða 26%.

Heildareignir samstæðunnar námu 59,2 milljörðum króna í árslok 2016 og þar af eru 48,2 milljarðar tilkomnir vegna varanlegra rekstrarfjármuna og óefnislegra eigna. Samtals var fjárfest fyrir um 13,8 milljarða króna í varanlegum rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum. Á sama tíma styrktist eiginfjárhlutfall félagsins sem ber vott um góða stöðu félagsins til frekari vaxtar.

Ingimundur Sigurpálsson, formaður stjórnar Isavia ávarpar fundinn.


Á aðalfundi var samþykkt stjórn félagsins:

Aðalstjórn: Ólafur Þór Ólafsson, Matthías Páll Imsland, Helga Sigrún Harðardóttir, Margrét Guðmundsdóttir og Ingimundur Sigurpálsson.

Varastjórn: Erla Björg Guðmundsdóttir, Ingveldur Sæmundsdóttir, Margrét Kristín Helgadóttir, Heiða Kristín Helgadóttir og Sigrún Traustadóttir.

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia:

Árið 2016 var frábært rekstrarár og var ánægjulegur vöxtur á öllum sviðum fyrirtækisins. Rekstur Keflavíkurflugvallar er auðvitað mest áberandi, en þaðan koma mestu tekjurnar og hafa þær verið nýttar í nauðsynlega uppbyggingu flugvallarins, Hins vegar var einnig gríðarleg aukning í flugumferð um íslenska flugstjórnarsvæðið og höfum við brugðist við henni með bættum búnaði, stækkun húsnæðis og fjölgun starfsfólks.

Það liggur fyrir að ráðast þarf í miklar fjárfestingar á Keflavíkurflugvelli á næstu árum til að mæta áframhaldandi fjölgun farþega. Eiginfjárstaða Isavia er sterk og því er félagið vel í stakk búið til þess að takast á við þær. Á móti kemur að þessar fjárfestingar munu kalla á aukið aðhald í rekstri á meðan þær standa yfir.

Á árinu fjölgaði farþegum sem fóru um Keflavíkurflugvöll um 40% eða um hátt í tvær milljónir farþega. Til að setja þá tölu í samhengi þá eru hún svo til sú sama og heildarfjöldi farþega sem fór um flugvöllinn árið 2010. Ferðaþjónusta á Íslandi hefur vaxið mikið og leikið lykilhlutverk í þeim hagvexti sem náðst hefur að byggja upp síðustu árin. Mikilvægt er að almenn sátt ríki í íslensku samfélagi um líkleg áhrif af áframhaldandi fjölgun erlendra ferðamanna og þeirra sem nýta Keflavíkurflugvöll sem skiptistöð á leið sinni milli landa. Það er að sama skapi mikilvægt að stjórnvöld tryggi að innviðir landsins geti mætt þessari þróun, að íslenskt samfélag njóti áfram góðs af vexti í ferðaþjónustunni og að ferðamenn sem hingað koma njóti dvalarinnar sem best.

Ársskýrsla Isavia 2017 pdf