Hoppa yfir valmynd
2.11.2023
Airwaves tónlistarveisla í KEF

Airwaves tónlistarveisla í KEF

Iceland Airwaves í samstarfi við Keflavíkurflugvöll stóðu fyrir off-venue tónleikum í brottfararsal KEF miðvikudaginn 1. nóvember kl. 14. Fram komu íslenska tónlistarfólkið Axel Flóvent og gugusar.

Axel Flóvent er fæddur og uppalinn á Húsavík og er í dag eitt stærsta nafn Íslands á Spotify eftir að titillagið á hans fyrstu plötu „Forest Fire“ árið 2015 fékk ótrúlega spilun. Í kjölfarið flutti Axel til Amsterdam og síðar til Brigthon en býr nú í Reykjavík þar sem hann hefur skotið rótum og vinnur nú að nýju efni og plötu sem kemur út á næsta ári.

Guðlaug Sóley Höskuldsdóttir er íslensk söngkona og lagahöfundur sem hefur gefið út tvær breiðskífur og enn fleiri smáskífur undir listamannsnafninu gugusar sem má rekja til notendanafns sem hún skírði sig í tölvuleik ung að árum. Hennar fyrsta plata „Listen To This Twice“ kom út árið 2020 þegar hún var aðeins 16 ára og síðan þá hefur gugusar vakið mikla athygli fyrir einstakan hljóm sinn og kraftmikla sviðsframkomu.

Fyrsta Airwaves hátíðin var haldin í flugskýli á Reykjavíkurflugvelli og er núna haldin víðsvegar um höfuðborgarsvæðið dagana 2.-4. nóvember, auk off-venue tónleikanna á Keflavíkurflugvelli.