Hoppa yfir valmynd
4.9.2019
Aldarafmælis fyrsta flugsins minnst

Aldarafmælis fyrsta flugsins minnst

Fjölmenni tók þátt í hátíðarhöldum vegna aldarafmælis flugs á Íslandi þriðjudaginn 3. september síðastliðinn. Flugmálafélag Íslands, í samvinnu við okkur hjá Isavia en einnig Flugsafn Íslands, Íslenska flugsögufélagið og Flugfélagið Geirfugl, bauð til móttöku í flugskýli Geirfugls í Fluggörðum á Reykjavíkurflugvelli við þetta tilefni.

Það var klukkan 17 síðdegis þann 3. september árið 1919 sem flugvél af gerðinni Avron 504k hóf sig á loft frá Vatnsmýrinni. Þetta var þá í fyrsta sinn sem flugvél var flogið á Íslandi.

Meðal þeirra sem ávörpuðu samkomuna voru Forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson, Sigrún Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia, og Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands.

Við þetta tækifæri var farið yfir sögu fyrstu flugvélarinnar sem var flogið á Íslandi og módel af henni afhjúpað. Þá stóð Íslenska flugsögufélagið fyrir sögutengdri sýningu um flug og Isavia bauð til fræðslugöngu um Öskjuhlíð og Nauthólsvík undir leiðsögn Friðþórs Eydal, sem hefur ritað mikið um umsvif erlendra herja á Íslandi og upphaf Reykjavíkurflugvallar.